Sunnudagur, 4. febrúar 2007
Fyllerí og pílagrímsferðir ástarinnar
Jæja, meðan ég svaf svefni hinna síþreyttu var ys og þys út af litlu í miðborg Reykjavíkur og víðar. Fangageymslur fullar, aðra nóttina í röð, slagsmál og ólæti víða. Margir voru víst á "föller", sumir hverjir með aðstoð ólöglegra vímuefna. Og "pickup trukkar" gengu lausir í miðbænum, vísast af báðum kynjum.
Þótt þetta miðbæjarflandur sé vísast ekki séríslenskt fyrirbrigði, virðist það vera bæði útbreiddara og vinsælla hér en víða annars staðar. Jafnframt stendur það vísast lengur hér en í sambærilegum borgum erlendis, já, eða erlendum borgum almennt. Þeir, sem erlendis telja sér þörf að vera á föller um sex leytið að morgni, skríða þá vísast í holur eða iðka það innandyra eða í lokuðum klúbbum. Ég þekki þetta þó ekki mikið, en fyrir nokkrum árum var ég á ferð í Kaupmannahöfn og gisti á Palace hótelinu við Ráðhústorgið. Skrapp ég gjarnan niður á torg um sex leytið að kaupa Moggann og sáust þá fáir á ferli. Þessa helgi var staðreyndin sú, að þeir sem ég sá á horninu á Strikinu og Ráðhústorginu voru Íslendingar og þekkti ég nokkra þeirra. Þá voru Danir flestir löngu farnir heim.
Maður furðar sig reyndar á því, að "skemmtanakjarnar" hafi ekki risið í Reykjavík, t.d. í iðnaðarhverfum, þar sem ólíklegt er að svefnfriður borgara verði rofinn. Reyndar þurfa íbúar í miðborg Rvk að þola slíkt, en eru vísast orðnir vanir þessu. Til dæmis væri í sjálfu sér eðlilegt, að svona skemmtanakjarnar risu t.d. á Smiðjuvegi, Ártúnshverfi, Dugguvogi eða annars staðar. En Íslendingar vilja bara "fara í bæinn", það er löngu orðinn siður, sbr. t.d. hinn fræga "Ómarsrúnt" í miðbænum.
Á árum áður var þessi siður óþekktur meðal Íslendinga, eða Reykvíkinga a.m.k. Þá drukku menn á pöbbum, þegar það var leyft, og stauluðust síðan heim í bólið. En síðan komst smám saman upp miðbæjarstemning um helgar. Ég hef rökstuddan grun um, að sá siður sé norskur og tilkominn af völdum erlendra sjómanna, sérstaklega Norðmanna, sem höfðu ekki í önnur hús að venda fyrir fylleríið en miðbæinn sjálfan. Um þetta má m.a. lesa í skjölum dómsmálaráðuneytið og í blöðunum. Þetta skrifaði ég m.a. um í M.A. ritgerð minni, "Útlendingar og íslenskt samfélag, 1900-1940", sem ég skilaði inn í janúar 1995. Og hið sama, eða svipað, var uppi á teningnum í Hafnarfirði, á Siglufirði, Seyðisfirði og víðar, þar sem sjómenn, flestir Norðmenn, komu til hafnar. Og mönnum þessum fylgdu slagsmál, bæði af "eðlilegum" ástæðum og vegna hins, að reykvískur æskulýður óskapnaðist yfir því, að reykvískur kvenlýður væri hrifnari af útlendingum en þeim innlendu. Og í kjölfarið kom ástandið, með meðfylgjandi lausaleiksbörnum og kynsjúkdómum.
Langar mig í þessu samhengi til að birta smákafla úr endurgerð M.A. ritgerðar minnar.
Siðprúðir bæjarbúar voru ekki í vafa um, hvaðan þessi spilling lauslætis og kynsjúkdóma bærist. Stærsta mannvirki og stolt Reykjavíkur, höfnin sjálf, þótti vera griðarstaður og gróðrarstöð hins erótíska lífs í höfuðborginni. Og þar var hið hreina íslenska eðli einna mest blandað útlensku óeðli og siðspillingu hvers konar: Daglega liggja hér erlend skip, innan og utan við hafnargarðinn. Þangað stefnir þrá margra blóðheitra Evudætra bæjarins. Og það því fremur, ef á skipinu eru margir borðalagðir...Næturverðir þessa bæjar mundu geta sagt frá örlagaríkum ævintýrum í sambandi við þessi skip. Þangað eru farnar pílagrímsferðir ástarinnar.[1]En það var ekki aðeins, að Evudætur færu pílagrímsferðir í kojur erlendra skipa í höfninni. Erlendu skipverjarnir, fiskimenn eða sjóliðar, höfðu einnig mikinn áhuga á gönguferðum rétt út fyrir Hringbrautina. Þangað fara þeir sem af harðfylgni og vaskleik ná sér í forboðna vöru. Því suður á Melunum eru aldrei pólítí. En þau eru engin lömb að leika sjer við hjer í bæ hafa augu á hverjum fingri, refsa og arrestera miskunnarlaust, hver sem á í hlut. En Melarnir eru fyrir utan ,umdæmi þeirra, og þar njóta menn gæða lífsins, blessandi gjafarann allra góðra hluta. En Holtið og Melarnir höfðu fleiri skyldum að gegna en sprúttsölu og forboðna drykkju. Þangað ganga, þegar húma fer, hinir borðalögðu erlendu menn með eldfimar meyjar við hlið sjer. Og suðurlandsnæturnar eru margar fagrar og friðsælar og lokka til útiveru og ásta... Og þangað fara allir dátar af Fylla og Beskytteren, úthellandi hjörtum sínum. [2] Því var ort: Á sumrin er gaman að ganga sjer / um göturnar eftir að rökkva fer, / ef Fylla er liggjandi úti í ál, / og ekki er á varðbergi nokkur sál.En hvað var til ráða? Kannski hefðu menn getað fylgt ráðgjöf séra Tryggva í Laufási: Það sem fyrst og fremst ber að gera er það að koma á fót í Reykjavík sérstöku lögregluliði sem hefir gætur á siðferði manna og öðru er þar að lýtur.[3] Þingmenn höfðu hins vegar annað í huga og 1923 settu þeir kynsjúkdómalögin, sem skylduðu héraðslækna til að stunda forvarnir, einkum á þeim stöðum þar sem sjerstök hætta stafar af kynsjúkdómum, miklar útlendar skipakomur eru, síldarstöðvar, o. þvíl.[4]
[4] Stjórnartíðindi 1923, ***. Sjá einnig; Þingtíðindi, Mbl. 13. mars 1923.
Mikill erill á höfuðborgarsvæðinu aðra nóttina í röð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.