Sunnudagur, 4. febrúar 2007
Ekki bara heimabankinn!
Þetta heimabankamál minnti mig á svolítið, sem ég ætlaði að nöldra yfir fyrir c.a. viku síðan en gleymdi. Málavextir eru þeir, að ég fékk sent heim tímarit og meðfylgjandi því var gíróseðill.
Þetta var tímarit Páls Skúlasonar, Skjöldur. Ég verð að viðurkenna, að ég hef ákveðna samúð með þessu tímariti. Að því stendur einkaaðili, af hugsjón fyrst og fremst, en ekki til græða. Efni blaðsins er síðan stöku sinnum þannig, að maður getur nýtt sér það. Ég hef þurft að fletta upp í því stöku sinnum, en á milli nothæfra greina hef ég ekki talið efnið nægjanlega merkilegt til að sækjast eftir áskrift. Ég er áskrifandi að nógu mörgum tímaritum og verð að takmarka mig við þau, sem ég get einna helst nýtt mér. Að undanskilinni Sögu, sem reyndar hefur ekki verið sérlega áhugaverð hin síðari ár að mínu mati, kaupi ég ýmislegt frá útlöndum. Það verður að nægja.
Síðan er ég persónulega andvígur svona markaðssetningu. Ég hreinlega þoli ekki þegar ég fæ senda gíróseðla fyrir einhverju, sem ég hef ekki pantað. Því t.d. hendi ég happdrættismiðum beint í ruslið, jafnvel þó mér hugnist málstaðurinn svosem, þegar gíróseðlar fylgja. Ég opnaði því ekki Skjöld, heldur lét hann vaða beint í tunnuna og gíróseðilinn með.
Ég fékk líka á föstudaginn hefðbundið sníkjubréf frá SWC, Simon Wiesenthal Center. Ég styrkti þessi samtök af einhverri rælni um einhverja smáaura 2005, og gerðist því félagi þar. En ákvað í fyrra, að endurnýja ekki aðildina, man ekki af hverju. En allt frá fyrsta endurnýjunarbréfi 2006 komu stöðugar sendingar, c.a. 2 í mánuði, þar sem beðið var um endurnýjun og umslag sent undir svarið. Halló! Ef ég svara því ekki t.d. í sex mánuði, hljóta þeir að "get the message". Nei, ekki aldeilis. Ég fékk bréf afur í dag. Mig grunar, að póstkostnaður á þessum bréfum til mín sé orðinn mun hærri en það framlag, sem ég hefði greitt, hefði ég viljað halda áfram þátttöku í þessu félagi.
Þetta er orðið verulega þreytandi og sé ég nú ekki aðra kosti, en hafa samband þarna út og biðja þessi samtök að hætta þessum sendingum, vinsamlegast. En ég held hins vegar, að Páll Skúlason í Skildi "skilji boðskapinn". Ég get ekki verið áskrifandi að öllu sem tengist sögu eða öðrum áhugamálum mínum að einhverju leyti. Maður þarf að velja og hafna. Og Skildi þarf ég því miður að hafna...
Greiðsluseðlar sendir í heimabankann án þess að vara sé pöntuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.