Útlendingastefna frjálslyndra...ættuð frá 1927?

Eftirfarandi ritgerðarkafla fann ég í fórum mínum. Kannski getur þetta upplýst dálítið í hverju útlendingastefna frjálslyndra er fólgin.

 

jonbaldVið þingslit vorið 1926 flutti leiðtogi Alþýðuflokksins, Jón Baldvins­­son, þings­­á­lykt­un­artillögu um „að skora á ríkisstjórnina að undir­­búa lög­­gjöf um rjett er­lendra manna til þess að leita sjer at­vinnu á Íslandi." Svip­­­uð til­laga hafði kom­ið fram á Alþingi 1924, frá Ásgeiri Ásgeirssyni, en hlotið lítinn hljóm­grunn hjá Jóni Magn­ús­­syni for­­sætis­­ráð­herra. Jón Baldvinsson taldi nú, að málinu mætti ekki fresta lengur:

Á seinni árum hefur tals­vert borið á því, að erlendir verka­menn hafi verið fluttir inn og þannig bægt innlendum verkamönn­um frá vinnu. Það væri sök sjer og í sjálfu sjer ekk­ert við það að athuga, ef þeir ynnu fyrir sama kaup. En því er ekki að heilsa, heldur eru þeir ráðnir upp á lægra kaup og þar með notaðir til að fella kaup verka­manna inn­an­lands...

Jón taldi, að ástæður þessa væru hinir fjöl­mörgu er­lendu at­vinnu­rekendur, sem störf­­uðu í landinu. Fyrir þá, sem ekki ætluðu sér að setjast að til lang­frama á Íslandi, lægi það beinast við að nota ódýr­­­­asta vinnu­aflið, sem fáanlegt væri hverju sinni. Þannig væru fluttir inn ó­dýrir verka­menn frá Noregi og inn­lendir atvinnu­rekendur væru því nauð­beygð­­­ir að halda launa­kostn­aði niðri, til að geta keppt við hina erlendu á jafn­réttis­grundvelli. And­staða Jóns Bald­vins­­son­ar við erlenda verka­menn náði þó ekki til þeirra, sem setj­ast vildu að á Ís­landi og starfa samkvæmt innlendum kaup­­gjalds­töxt­um, held­ur aðeins „sel­stöðuverka­manna". Þeir væru yfirleitt ó­nytj­­­ung­ar, því ein­göngu lélegri hluti verka­manna fengist til að vinna hér fyrir það litla kaup, sem þeim væri boðið. „En það gæti hugsast, að atvinnu­rek­end­ur vildu flytja inn erlenda verka­­­­­­menn, til þess að geta sagt við innlendu verka­mennina: Nú verð­­­ið þið að slaka til um kaup, annars flytjum við inn alla verka­menn, sem við þurf­um. Jeg sje ekkert vit í því, þegar við erum að berjast við at­­­vinnu­leysi í landinu sjálfu, að atvinnu­rekendur, inn­lend­­ir eða er­lend­ir, geti flutt inn erlendan vinnukraft, til þess að fella laun innlendra verka­­manna, svo sem fullyrt er að einn norsk­ur atvinnu­rekandi á Siglu­firði hafi gert nú fyrir skemmstu." Þing­menn voru þó hlynntir þings­ályktunar­tillög­unni og sam­þykktu hana sam­­hljóða. [1]

Í júlí 1926 tók ríkisstjórn Jóns Þorláks­son­ar við völdum, en Jón Magn­ús­­­son hafði lát­ist skömmu áður. Stefna Jóns var ein­föld: „Að­al­­­hug­sjón­in er sú, að þjóð­fél­ag­ið verði samsafn sem flestra sjálf­stæðra og frjálsra ein­stakl­inga, sem hver fyrir sig geti haft sem óbundn­ast­ar hend­ur til þess að efla far­sæld síns heim­ilis og þar með alls þjóð­fél­ags­ins öðrum að skað­lausu."[2] Þessi hugsjón Jóns Þor­láks­sonar var gjör­­sam­lega á skjön við þing­s­­­álykt­unar­til­lögu nafna hans Bald­vins­­sonar á Al­þingi 1926. Frum­varp stjórn­ar­innar um at­vinnu­rétt út­lend­inga var því ekki að­­eins sérsniðið að þörf­um verka­manna, held­ur var því ætlað að taka tillit til allra þegna samfélagsins. Í febrúar 1927 kynnti ríkisstjórnin frum­varp til laga „um rjett er­lendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi" sem taka ætti gildi 1. okt­ób­er sama ár. Frum­­varpið var hugsað sem viðbót við lögin frá 1920, en þau  myndu þó áfram halda gildi sínu í þeim málaflokkum, sem hin nýju lög næðu ekki til. Svo segir: „Svo hefir verið talið, að lög nr. 10, 18. maí 1920, um eftirlit með út­lend­ingum, veiti eigi heimild til að hefta innflutning er­lendra verka­­manna. Svo getur stað­ið á, að slíkur innflutningur sje bæði ó­þarf­ur og hættu­legur, ó­þarf­ur af því að verk það, sem vinna á, verði unnið af inn­lendum mönn­um, og hættu­­legur, ef veitt er inn í landið flóði erlendra verka­manna án þess að nauð­syn­legar var­úð­ar­reglur sjeu settar, svo sem um holl­ustu­­hætti, lög­gæslu, fram­­færslu o. s. frv. Svo má tungu og þjóðerni stafa hætta af fjöl­menn­­um erlendum verkalýð." Eins og búast mátti við, voru þing­menn ekki á einu máli um að sam­þykkja frum­­­varpið breytingalaust. Sér­stak­lega fann Jón Bald­vins­son þar nokkra hnökra. „Hitt atriðið er þó meira um vert. Jeg vil, að lög­in gangi þegar í gildi, svo að þau geti byrjað að verka í sumar. Lög­­un­um er aðal­lega ætlað að hefta inn­flutning verkafólks við síldar­vinnu; en Norð­­menn hafa árlega flutt hingað margt verkafólk til þeirrar vinnu, og hefir verið litið svo á, að ekki sje hægt að meina það. Lögin frá 1920 [um eftirlit með út­lend­ingum[3]] hjeldu menn að bönn­uðu þetta, en seinna var það álitið, að þau snertu aðeins eftirlit með heil­brigði þeirra manna erlendra, er hing­að koma, og að heilbrigðu fólki væri ekki hægt að meina landsvist."[4]

     Sjávarútvegsnefnd neðri deildar samþykkti frumvarpið en minni­­ hluti nefnd­ar­­innar, aðallega þingmenn Framsóknarflokksins, komu fram með breyt­ing­ar­­­tillögu við þriðju grein þess. Sigurjón Jóns­son mælti fyrir því að bænd­ur fengju heimild „til að flytja inn er­lend vinnu­hjú...Það er oft erfitt að fá þann vinnukraft, sem landbúnaðurinn þarfnast, og það ástand gæti orðið verra, ef hafin yrði stóriðja ofan á þá vinnu­­fólkseklu, sem fyrir er. Því viljum við, að bændur­nir fái þessa heim­ild."[5] Jakob Möller, þing­­­manni frjáls­lyndra, taldi það hins vegar „ó­við­feld­ið og alv­eg óskilj­an­legt", að tak­marka innflutning verka­­fólks til bæja, en leyfa ó­tak­­mark­aðan inn­­flutn­ing til sveita: „Mjer finst þetta vera að gefa sjálf­um sér ut­an­­und­ir."[6] Héðinn Vald­imarsson taldi einnig, að breyt­ing­ar­­til­lagan um inn­­flutn­­ing vinnu­hjúa væri ein­­kennileg, því „í stað þess, sem jafnan hefir verið við­kvæðið hjer, að Ís­land sje fyrir Ís­l­­end­­inga, þá er með till[ögunni] sagt, að sjávarsíðan sje fyrir Ís­lend­­­inga, en sveitir­nar fyrir útlendinga. Með því að hafa ó­tak­mark­­aða heim­ildina fyrir því að ráða erlend vinnuhjú til sveitanna, þá verður ekki auðvelt að stemma stigu fyrir því, að inn­flutningurinn verði mikill, og fólk það, sem þannig flyst inn í sveitir­nar, getur hæg­lega leit­að síðar til sjáv­ar­­síð­unnar." Héðinn gagn­­rýndi einnig flutn­ings­mann breytingar­til­lög­unn­ar harka­­lega. Það væri eins og hann og aðrir telji „að það nauð­syn­leg­asta, sem hægt sje að gera fyrir íslenskan land­búnað, sje að flytja inn er­lendan verkalýð -ekki sökum þess, að ekki er nóg til af inn­lendum verka­lýð, heldur vegna þess, að hann álítur hægt að fá það fólk ó­dýrara."[7] Meg­in­­and­staða Héð­ins kom til vegna þess, að bændur vilji flytja inn útlent verka­fólk, meðan þeim byð­ist atvinnulaust fólk úr bæj­um. Slík­ur hugs­un­ar­háttur væri frá­leitur og ó­skyn­­­samur. Fram­sókn­ar­­menn töldu það hins veg­ar, að taxtar verka­lýðs­­félag­anna væru svo háir, að bændur hefðu ekki efni á að ráða bæjarverka­menn til vinnu.

     En þegar umræðan hafði borist að útlendingum og landbúnaði, var gamall kynþáttadraug­ur­ vakinn upp af værum blundi, en í sölum Alþingis 1903 höfðu  menn óttast innflutning finnskra bænda vegna kynþáttar þeirra. Bernharð Stef­áns­­son og fleiri óttuð­­ust, að innflutningur útlendinga gæti skemmt ís­lenska kyn­­stofn­­­inn. Þing­menn voru þó sammála um það, að Danir og Norðmenn teld­ust engin ógn­un við þjóðernið, en hins vegar væri hætta á að hefjast myndi inn­flutn­ing­ur „Pól­verja, Rússa og annarra álíka fjarskyldra þjóða, ef bænd­um yrði leyfð sú und­an­þága að mega ráða sjer erlend hjú."[8] Héðinn Vald­­imars­son var einn þeirra sem lýsti yfir hvað mest­um ótta við slíkan inn­flutn­ing. Danir og Frakkar hefðu flutt inn Pól­verja í stórum stíl, enda væru þeir bæði ó­dýrt og gott vinnu­afl. Hins veg­ar hefðu pólsku verka­menn­irnir dreg­ið úr þjóð­­inni vegna marg­­vís­legra bresta sinnar.[9] Flestir þing­menn töldu þó, að enga hættu staf­aði af Pólverjum vegna þess, að ís­lensk­ir bændur myndu aldrei flytja inn slíkt fólk til landsins. Ekki fer hjá því, að hér hafi fordómar blandast inn í umræðuna, en í ljósi tíðarandans kemur það kannski ekki á óvart.

     Að lokum var frumvarpið samþykkt með nokkru tilliti til breyt­ingar­til­lögu fram­­sóknarmanna. Í lögunum var „erlendur maður" skil­greindur sá, sem heim­ilis­fang ætti utan Íslands og hefði því ekki rétt til bú­­­setu á Ís­landi. Kemur því aftur fram áherslan á fast lögheimili á Íslandi og búsetu allt árið um kring. At­hygli­vert er, að út­lendingur er hér skilgreindur eftir búsetu, en ekki ríkis­borg­ara­rétti eða þjóð­erni. En hins vegar var viðvera útlendinga sett í samhengi við atvinnurétt, þannig að allir sem eiga hér lögheimili og greiða skatta til sam­félags­ins, séu hluti af þjóðinni. Ein­­stökum mönnum, félögum, stofn­un­um eða fyrir­tækj­um væri ó­heim­­ilt að ráða útlend­inga í vinnu upp á kaup­greiðslu, nema í eft­irtöldum und­an­tekn­ingar­­til­­vikum: 1. Erlend­ir sér­fræðingar „við alls­konar iðju." 2. Aðrir er­lendir kunn­­áttu­menn í sér­hæfðum grein­um. 3. Skyld­menni kaup­­greiðanda „að feðga­tali eða niðja, kjör­börn, fóst­ur­börn og systkin." 4. Er­lend vinnuhjú til sveita­­vinnu. 5. Er­lendir skip­herrar á ís­lensk skip. 6. Sendi­menn er­lendra ríkja mega ráða er­lenda menn í einka­þjónustu sína.[10]

     Lögunum var þó ekki stefnt gegn út­lend­ingum, sem fasta búsetu höfðu á Ís­landi. Þótt engin sér­stök lög hefðu verið til um atvinnu­rétt útlend­inga fram að þessu, hafði stefna stjórn­­valda verið að tak­marka atvinnu lausa­manna á Ís­landi. Alþing­is­­­menn höfðu ætlast til þess, að út­­lend­ingar sem störf­uðu á Ís­landi, hefðu hér fasta búsetu og settu því lög sem tak­­mörk­uðu aðeins atvinnu­frelsi þeirra, sem lög­heimili áttu erlendis. En at­hygli­vert er, í ljósi fyrri hug­mynda um að útlendingar skyldu ekki búa í sveitum, að atvinnusókn þeirra skyldi heimiluð til sveita, en heft til bæja. En að hinu ber að gæta, að í lög­un­um frá 1927 var aðeins ætlast til þess, að út­lend­ingar í íslenskum land­búnaði störfuðu hjá íslenskum bændum, en ættu sjálfir ekki bújarðir til nýt­ing­ar.

 

 

[1] Alþingistíðindi 1926 D, 304­-307.

[2] Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Jón Þorláksson forsætisráðherra (Rvík, 1992), 273.

[3] Sjá Snorri G. Bergsson: "Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940" (M.A. ritgerð í sagnfræði, janúar 1995).

[4] Alþingistíðindi 1927 B, 135-­138.

[5] Sama heimild, 150.

[6] Sama heimild, 170.

[7] Sama heimild, 155, 167.

[8] Sama heimild, 162-­163.

[9] Sama heimild, 167, 177-­178.

[10] Stjórnartíðindi 1927 A, 29-­31.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband