Fimmtudagur, 1. febrúar 2007
Ísland fyrir Íslendinga? Frjálslyndir og fortíðin
Er útlendingastefna Frjálslynda flokksins ný flóra í íslenskum stjórnmálum, eða bara gamalt vín á nýjum belgjum? Mig langar í því sambandi að birta nokkra búta úr endurgerð M.A. ritgerðar minnar, "Útlendingar og íslenskt samfélag, 1900-1940" (jan. 1995)
Á Alþingi Íslendinga 1903 flutti dr. Valtýr Guðmundsson þingsályktunartillögu um fólksflutninga til Íslands, sem varð svo að lögum. Þannig buðu Íslendingar til sín innflytjendum frá Noregi, enda væru þeir skyldastir Íslendingum í þjóðerni og menningu. Innflutningi finnskra bænda var hins vegar hafnað í sjálfum umræðunum, enda væru þeir framandi þeim norrænu mönnum, sem byggju hér á landi.[1]Jónas landlæknir Jónassen var einn þeirra, sem amaðist við innflutningi Finna, sem aldrei myndu samlagast ísl[ensku] þjóðerni. Þeir myndu hafa mjög ill áhrif á þjóðina, fyrst og fremst af því, að megnið af því fólki, sem inn flyttist, mundi verða tómt rusl. Það kynferðið mundi blandast saman og hafa í för með sér ýmsa ósiði og ef til vill sjúkdóma.[2] Eitthvað hefur þingmönnum blætt finnski þjóðflokkurinn í augum, því Valtýr leiðrétti sjálfan sig og sagði, að með þessu ákvæði um Finna, var ekki átt við hina eiginlegu Finna, heldur hina sænsku talandi Finna, sem byggja alla strandlengjuna í Finnlandi.[3] Þannig var það gjört ljóst, að samhliða því að útlendingar festu hér rætur og gengju inn í þjóðina, urðu þeir að vera ákveðnu marki brenndir. Við sjáum hér koma fram þá stefnu, sem var ríkjandi á Íslandi fram á hin síðustu ár, að Íslendingar væru norræn þjóð og helst aðeins fólk af skyldum þjóðstofnum fengi að tilheyra henni. Fyrsta og eina framkvæmd íslenskra stjórnvalda á lögunum frá 1903 var sú, að styrkja Matthías Þórðarson skipstjóra frá Móum til kynningarferðar um Noreg og komu nokkuð margir norskir sjómenn til starfa á Íslandi, einkum við Faxaflóa og Eyjafjörð. Reyndust þeir vel í fyrstu, en 1906 hættu Íslendingar að flytja inn erlent vinnuafl með skipulögðum hætti.[4] Á Íslandi var búseta útlendinga bönnuð frá 1490 og framundir lok einokunarverslunarinnar, og aðeins með ströngum skilyrðum frá lögunum um fríhöndlun frá 1786 og fram til laga um frjálsa verslun 1855. Eftir að innflutningur útlendinga var lagalega séð frjáls með tilkomu stjórnarskrár Íslands 1874, þegar takmarkanir á búsetu af til að mynda trúarlegum ástæðum voru afnumdar, höfðu Íslendingar þó þann vara á sér, að hleypa hingað aðeins þeim mönnum, sem orðið gætu landinu til uppbyggingar.[5] Virðast þá flóttamenn hafa fallið undir sama hatt og innlendir vergangsmenn, þar sem vistarlaus maður var talinn sekur við samfélagið og þegna þess. Stefna og viðhorf Íslendinga í garð landleysingja komu greinilega fram í málum flakkaranna á fyrsta áratugi 20. aldar. Málavextir voru þeir, að árin 1903-1907 sáust ókunnugir menn fara um landið, tveir og tveir saman í hópum. Landsblöðin kvörtuðu yfir vergangi þeirra og sumir sveitamenn óttuðust, að þeir væru vopnaðir eða þjófóttir. Í bréfi stjórnarráðs Íslands til sýslumanna landsins og bæjarfógetans í Reykjavík var málum þeirra gerð skil. Svo segir í bréfi ráðherra:
Með því að slíkt flakk eða betl útlendra manna hjer á landi á engan hátt má eiga sjer hjer stað, eruð þjer, herra sýslumaður (herra bæjarfógeti), umbeðinn að láta taka umrædda utanríkisbetlara fasta, ef þeir koma fram í lögsagnarumdæmi yðar, eptir atvikum láta þá sæta ábyrgð fyrir athæfi þeirra og að minnsta kosti vísa þeim burtu úr landinu. Kostnaður við flutning þeirra burtu hjeðan af landi greiðist úr landsjóði, svo framarlega sem þeir eru eigi sjálfir þess megnugir að greiða þennan kostnað.[6]
[1] Stjórnartíðindi 1903, 334. Snorri G. Bergsson, Útlendingar og íslenskt samfélag.
[2] Alþingistíðindi 1903, 687-689,
[3] Sama heimild, 690.
[4] Matthías Þórðarson: Ferð um norðanverðan Noreg veturinn 1904-05 Andvari XXX (1905), 137-150. ÞÍ. Stj. Ísl. II, db. 3/533.
[5] Rætt í; Snorri G. Bergsson, Útlendingar".
[6] ÞÍ. Stj. Ísl. I, db. 1/600: Stjórnarráð Íslands til sýslumanna (bæjarfógeta) landsins, 28. nóv. 1905. Sjá einnig; Sama heimild, Sýslumaðurinn í Mýra og Borgarfjarðarsýslu til stjórnarráðs Íslands, 9. júlí 1906. Bæjarfógetinn í Reykjavík til stjórnarráðs Íslands, 24. febrúar 1906. Sýslumaður Snæfellsnes og Hnappadalssýslu til stjórnarráðs Íslands, 14. desember 1907 og 24. janúar 1908. Sýslumaður Suður-Múlasýslu til stjórnarráðs Íslands, 25. janúar 1906.
[7] Sama heimild: Sýslumaður Skaftafellssýslu til stjórnarráðs Íslands, 16. febrúar 1909.
[8] Sama heimild: Eftirrit úr dómsmálabók Skaftafellssýslu, 16. febrúar 1909.
[9] Þjóðernisvarnir, Tíminn 9. ágúst 1919.
[10] Enn um þjóðernisvarnir, Tíminn 23. ágúst 1919. (Leturbreyting).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.