Ísland fyrir Íslendinga? Frjálslyndir og fortíðin

Er útlendingastefna Frjálslynda flokksins ný flóra í íslenskum stjórnmálum, eða bara gamalt vín á nýjum belgjum? Mig langar í því sambandi að birta nokkra búta úr endurgerð M.A. ritgerðar minnar, "Útlendingar og íslenskt samfélag, 1900-1940" (jan. 1995)

 

Á Alþingi Íslendinga 1903 flutti dr. Valtýr Guð­munds­son þings­álykt­unar­til­lögu um „fólks­­­­­flutn­inga til Ís­lands”, sem varð svo að lögum. Þannig buðu Ís­lend­ingar til sín innflytjendum frá Noregi, enda væru þeir skyldastir Íslend­ingum í þjóðerni og menningu. Inn­flutningi finnskra bænda var hins vegar hafnað í sjálfum umræðunum, enda væru þeir framandi þeim norrænu mönnum, sem byggju hér á landi.[1]nas landlæknir Jónassen var einn þeirra, sem amaðist við inn­­flutn­­ingi Finna, „sem aldrei myndu samlagast ísl­[ensku] þjóð­erni.” Þeir myndu „hafa mjög ill áhrif á þjóðina, fyrst og fremst af því, að megn­ið af því fólki, sem inn flyttist, mundi verða tómt rusl. Það kynferðið mundi bland­­ast sam­an og hafa í för með sér ýmsa ósiði og ef til vill sjúk­dóma.”[2] Eitt­hvað hefur þing­­mönnum blætt finnski þjóð­flokk­urinn í aug­um, því Valtýr leið­rétti sjálfan sig og sagði, að „með þessu á­kvæði um Finna, var ekki átt við hina eig­in­­legu Finna, heldur hina sænsku tal­andi Finna, sem byggja alla strand­lengj­una í Finn­landi.”[3] Þannig var það gjört ljóst, að samhliða því að útlendingar festu hér rætur og gengju inn í þjóðina, urðu þeir að vera ákveðnu marki brenndir. Við sjáum hér koma fram þá stefnu, sem var ríkjandi á Íslandi fram á hin síðustu ár, að Íslendingar væru norræn þjóð og helst aðeins fólk af skyldum þjóð­stofnum fengi að tilheyra henni. Fyrsta og eina framkvæmd íslenskra stjórnvalda á lögunum frá 1903 var sú, að styrkja Matt­hías Þórðarson skipstjóra frá Móum til kynningar­ferðar um Nor­eg og komu nokk­uð margir norskir sjó­menn til starfa á Íslandi, eink­um við Faxaflóa og Eyja­fjörð. Reyndust þeir vel í fyrstu, en 1906 hættu Ís­lend­ing­ar að flytja inn erlent vinnu­afl með skipu­­­lögð­um hætti.[4]  Á Íslandi var búseta útlendinga bönnuð frá 1490 og framundir lok einokun­ar­verslunarinnar, og aðeins með ströngum skilyrðum frá lögunum um fríhöndlun frá 1786 og fram til laga um frjálsa verslun 1855. Eftir að inn­flutningur útlendinga var laga­lega séð frjáls með tilkomu stjórnarskrár Íslands 1874, þegar tak­mark­an­ir á bú­setu af til að mynda trúarlegum á­stæðum voru af­numdar, höfðu Íslendingar þó þann vara á sér, að hleypa hingað aðeins þeim mönnum, sem orðið gætu landinu til uppbyggingar.[5] Virðast þá flóttamenn hafa fallið undir sama hatt og inn­lendir vergangs­menn, þar sem vistarlaus maður var talinn sekur við sam­félagið og þegna þess.   Stefna og viðhorf Íslendinga í garð „landleysingja” komu greinilega fram í málum „flakkaranna” á fyrsta áratugi 20. aldar. Málavextir voru þeir, að árin 1903-1907 sáust ókunnugir menn fara um landið, tveir og tveir saman í hóp­um. Lands­­­blöðin kvörtuðu yfir ver­gangi þeirra og sumir sveita­menn óttuð­­­ust, að þeir væru vopn­­aðir eða þjófóttir. Í bréfi stjórnar­ráðs Ís­lands til sýslu­­manna lands­­­ins og bæjar­­­fógetans í Reykj­avík var málum þeirra gerð skil. Svo segir í bréfi ráðherra: 
Með því að slíkt flakk eða betl útlendra manna hjer á landi á eng­an hátt má eiga sjer hjer stað, eruð þjer, herra sýslumaður (herra bæj­ar­­fógeti), um­beð­inn að láta taka umrædda utanríkis­betl­ara fasta, ef þeir koma fram í lög­sagn­ar­um­dæmi yðar, eptir atvikum láta þá sæta á­byrgð fyrir at­hæfi þeirra og að minnsta kosti vísa þeim burtu úr land­inu. Kostnaður við flutning þeirra burtu hjeðan af landi greiðist úr land­­sjóði, svo framar­lega sem þeir eru eigi sjálfir þess megn­ug­ir að greiða þennan kostnað.[6] 
Armensku flakkararnir voru handsamaðir, yfirheyrðir og sendir úr landi með skömm. Sömu örlög biðu Vesel­is Vaslefis, „flakkara" frá Rúss­landi, en Sig­urð­ur Egg­erz sýslumaður Skafta­fells­sýslu handsamaði Rússann, þegar hann sást þramma um sýsluna.[7] Sýslu­maður skráði það í dómsmálabók, að sá „út­lend­­ingur sem hjer ræð­­ir um, virð­­ist eptir fram­­komu sinni annað­hvort simul­era fá­bjána, eða vera fá­bjáni.”[8] Sök Rúss­ans var sú, að þekkja ekki til stað­hátta á Ís­l­andi og geta því ekki sagt til um ferðir sínar. Hann hefur sennilega komið hingað á flótta undan ó­tryggu stjórnmálaástandi í heimalandi sínu og hvorki haft fyrir því að læra ís­lensku né læra utanbókar stað­hætti á kross­götum al­þjóð­legra ferða­langa undir Reynisdröngum og var því færður í járn. Virð­­ist Sigurður sýslu­mað­ur Egg­erz, sem síðar varð bæði ráðherra og for­sæt­­is­ráð­herra Íslands, hafa verið fljót­ur til for­dóm­anna, þeg­ar á skaft­fellsku skipbrots­fjörur­nar rak fram­andi út­lending og flakkara í kaup­bæti. En hvort sem fordómar hans hafi verið dæmigerðir fyrir Íslendinga þess tíma er erfitt að segja, og í raun benda opinberar heimildir ekki til að svo hafi verið, heldur hafi þetta verið hefð­bundin stjórn­valds­aðgerð að hætti gamla samfélagsins, þar sem flakk og betl var bannað. Sennilega hafa viðhorf Sigurðar og flestra annarra landsmanna ein­kennst af ótta við hið óþekkta, sem var væntanlega jafn hættulegt og það var framandi. Íslendingar voru norræn þjóð og vildu halda þeim einkennum sínum, en ekki smita þjóðina af framandi ætterni. Tryggvi Þórhallsson, ritstjóri og síðar for­sætisráðherra, virðist hafa höggvið nærri hinum almennu viðhorfum Ís­lend­inga um útlendinga, þegar hann reit eftirfarandi í Tímann: „Aðal­vand­­kvæðin fyrir Ís­lend­inga, ef þeir vilja vernda séreðli sitt, eru ein­mitt þessi, að landið er svo auðugt, að fá­menn þjóð virðist tæplega get­að ráð­­ið við alt það, sem lagt er upp í hend­ur hennar. Ekki er ó­senni­legt að fólk leiti hingað frá öðr­um lönd­um. Það þarf ekki iðnaðinn til. Sjávar­út­veg­ur­inn reynir fyr en varir að draga til sín starfsafl frá útlönd­um. Og mörg­um sveita­bændum mun koma hið sama í hug.” Tryggvi lagði til, að helst yrði leitað fanga á slóðum Vest­­ur-Ís­lendinga í Kan­ada og heim­­flytj­end­ur það­an boðn­ir vel­komnir með hlunn­­ind­um. Væn­leg­asti inn­flutn­ing­­ur útlend­inga væri að sjálf­sögðu fólk af ís­lensk­um stofni. Í annan stað væru „frænd­ur okkar Norð­­menn, sem bæði laga sig vel eftir skilyrðum landsins og eiga auð­velt með að verða hold af holdi íslensku þjóð­ar­innar.” Síð­an kæmu „fjar­­skildu frænd­­­urnir” Danir, Þjóð­­­verjar og Bret­­­ar, en aðrar þjóð­ir töld­ust víst í hópi óæskilegra út­lend­­inga. Annars taldi höf­undur enga bráða hættu stafa að þjóðerni Íslend­inga og því bæri að svala hungri og þorsta lands­manna að flytja inn erlent vinnu­afl, „til að opna auð­­lindir lands­ins.”[9] Tryggvi bætti við: „Eins og fyr hefir verið sann­­að, hljót­­um við að fá inn­flytjendur. Vand­­inn er sá að fá eftir­sókn­ar­­verða menn, sem hverfa inn í ís­lensku þjóðina, og efla hana með því að verða hold af hennar holdi. Hinsvegar stendur þjóð­­erninu hætta af þeim inn­flytj­end­um, sem ekki læra tungu þjóðar­inn­ar, allra helst ef þeir telja sig beitta ó­­eðli­leg­um höftum, og mynda eins­kon­ar ný­lendu utan við hið ís­lenska þjóð­félag og í and­­stöðu við það.”[10]
Er ekki útlendingastefna frjálslyndra lítið meira en gamalt vín á nýjum belgjum?

 

[1] Stjórnartíðindi 1903, 334. Snorri G. Bergsson, „Útlendingar og íslenskt samfélag”.

[2] Alþingistíðindi 1903, 687­-689,

[3] Sama heimild, 690.

[4] Matthías Þórðarson: „Ferð um norðanverðan Noreg veturinn 1904-­05” Andvari XXX (1905), 137­-150. ÞÍ. Stj. Ísl. II, db. 3/533.

[5] Rætt í; Snorri G. Bergsson, „Útlendingar".

[6] ÞÍ. Stj. Ísl. I, db. 1/600: Stjórnarráð Íslands til sýslumanna (bæjarfógeta) landsins,  28. nóv­. 1905. Sjá einnig; Sama heimild, Sýslumaðurinn í Mýra­ og Borgarfjarðarsýslu til stjórnarráðs Íslands, 9. júlí 1906. — Bæjarfógetinn í Reykjavík til stjórnarráðs Íslands, 24. febrúar 1906. — Sýslumaður Snæfellsnes­ og Hnappadalssýslu til stjórnarráðs Ís­lands, 14. desember 1907 og 24. janúar 1908. — Sýslumaður Suður-Múlasýslu til stjórnarráðs Íslands, 25. janúar 1906.

[7] Sama heimild: Sýslumaður Skaftafellssýslu til stjórnarráðs Íslands, 16. febrúar 1909.

[8] Sama heimild: Eftirrit úr dómsmálabók Skaftafellssýslu, 16. febrúar 1909.

[9]  „Þjóðernisvarnir”, Tíminn 9. ágúst 1919.

[10] „Enn um þjóðernisvarnir”, Tíminn 23. ágúst 1919. (Leturbreyting).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband