Frjálslyndir fyrr og nú: hringurinn lokast

Ýmsir fræðispekingar hafa haldið því fram hér að undanförnu, að fylgi Frjálslynda flokksins muni ekki dala við úrsögn Margrétar Sverrisdóttur og einstaka fylgismanna hennar. Í besta falli verði tapið óverulegt. Ástæðan væri sú, að flokkurinn hafi að undanförnu aukið fylgi sitt verulega með tilvísun í útlendingavandamálið á Íslandi, en það mál hefði Margrét ekki tekið upp á arma sína nema að óverulegu leyti! Það væru því sérstök stefnumál "hinna", sem hafi rifið flokkinn upp.

Ég held reyndar, að Frjálslyndir muni smám saman síga í skoðanakönnunum og síðan muni margir kjósendur, sem hefðu jafnvel hugsað sér að kjósa þá, hætta við í stóru skoðanakönnuninni í vor. Ég trúi því hreinlega ekki, eftir þennan skrípaleik þarna um daginn, að kjósendur haldi áfram að styðja þessa ónytjunga.

Frjálslyndi flokkurinn komst inn á Alþingi vegna andstöðu við kvótakerfið. Það mál hefur nú fallið í bakgrunninn. Hvað gera þær þúsundir, sem kusu FF síðast vegna þeirra stefnumála, gera næsta vor, þegar flokkurinn mun setja kvótakerfið nánast í þagnarbindindi?

En síðan eru það útlendingamálin. Frjálslyndi flokkurinn er að fara neinar nýjar leiðir, heldur taka upp gamla stefnu nafna síns, Frjálslynda flokksins (eldra), undir forystu Jakobs Möllers ritstjóra og fleiri, og Framsóknarflokksins. Jakob þótti æði þjóðernissinnaður og var á tíð brigslaður um útlendingahatur, eða amk hvað snerti "framandi útlendinga", eins og þeir voru kallaðir. Og ekki voru framsóknarmenn mikið skárri, ef nokkuð. Þeir vildu ekki fá hingað aðra útlendinga, en í besta falli Norðmenn og V-Íslendinga, og kannski Dani, því hjá því var ekki komist vegna kóngstengsla. "Fjarskyldu frændurnir", Svíar, Þjóðverjar og Englendingar voru liðnir, en ekki vinsælir hjá formanni Framsóknarflokksins forðum. Og hingað máttu Pólverjar, Rússar, Finnar og alls konar óæðri stofnar helst ekki stíga fæti, hvað þá Gyðingar, sem m.a. einn röggsamasti foringi Framsóknarflokksins amaðist sérstaklega við.

Fram undir seinna stríð voru allir flokkar meira og minna á móti innflutningi útlendinga, sér í lagi annarra en Norðmanna, Dana og e.t.v. Þjóðverja. Alþýðuflokkurinn, og síðar kommúnistadeildin líka, var á móti innflutningi af verkalýðslegum ástæðum, þ.e. þeir myndu auka hér á atvinnuleysi og draga niður kaupið. Sjálfstæðismenn og sérstaklega framsóknarmenn vildu vernda hið hreina kyn Íslendinga (þeir voru e.t.v. nokkuð sammála, en framsóknarmenn höfðu hærra um þessi viðhorf sín en sjálfstæðismenn). En þegar þörf var á útlendingum voru það aðeins "norrænir menn", sem hingað komu, með aðeins einstaka undantekningum. Ísland fyrir Íslendinga og Norðmenn!

Ég tók mig til og las útlendingastefnu Frjálslynda flokksins. Ég skal viðurkenna, að ég skil ekki hvað menn eru að bendla þeim við rasisma. Jón Magnússon og "Hvítt afl" höggva þó nærri, en ég fæ ekki séð í hverju rasismi þeirra er fólginn. Þeir eru einfaldlega að endurflytja gömul stefnumál Alþýðuflokksins, t.d. frá því á Alþingi 1927. En hitt er svo annað mál, að mér er ekkert sérstaklega um þau stefnumál gefið.


mbl.is Segir 130 manns hafa skráð sig úr Frjálslynda flokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband