Var ráðherra Íslands ættaður frá Asíu?

180px-EinarArnorssonEinn af merkustu mönnum síðustu aldar var Einar Arnórsson lögfræðiprófessor og rektor Háskóla Íslands, sem m.a. var ráðherra Íslands á tíð fyrri heimsstyrjaldar og síðan ráðherra í utanþingsstjórninni á tíð síðari heimsstyrjaldar, einnig bæjarfulltrúi í Rvk. Hann var líka liðtækur skákmaður, mikill söguáhugamaður (sat í stjórn Sögufélags held ég, en skrifaði a.m.k. mikið í Sögu og var ritstjóri þess um tíma (og Skírnis áður) -- a.m.k. var barnabarn hans, Einar Kiljan Laxness, um tíma formaður Sögufélags, ef ég man rétt) og búinn mörgum kostum, sem óþarfi er að rekja hér í smáatriðum. Hann var t.d. ritstjóri Mbl. um skeið, og um tíma tengdafaðir Halldórs Laxness og að mig minnir Kristmanns Guðmundssonar.

Einar var að mínum dómi farsæll og ekkert sérstakt út á hann að setja, embættis- eða karakterslega séð. En þegar andstæðingar hans í pólítík urðu ráðþrota með, að finna skítkastsefni á Einar, tóku þeir að beina sjónum sínum að útliti hans. Mönnum þótti þá, og sumum þykir enn, að hann hafi asískt yfirbragð; skásett augu, asíska höfuðkúpu (kinnbein, t.d.), osfrv. Ég veit þó ekki til, að neinir Asíubúar hafi verið á ferð í Grímsnesinu vorið 1879, þegar Einar var getinn. En á hinn bóginn neita ég því ekki, að það eru ákveðin svipbrigði með svarthvítum Einari og svarthvítum t.d. Kínverjum. Því er t.d. ólíklegt, að Einar, væri hann uppi nú, hefði komist í framboð fyrir Frjálslynda flokkinn.

Ég hef rekist á þessar Asíu-tilvísanir í Einar nokkrum sinnum, en aldrei nennt að skrifa þær hjá mér, enda fundist slíkur málatilbúningur fáránlegur. Einar var eins mikill Íslendingur og hver annar, og jafnvel meiri en margir aðrir, enda t.d. eldheitur sjálfstæðissinni. Ég vil því merkja þetta niður nú, þegar ég var að lesa í Alþýðublaðinu 30. janúar 1921, en þar er vísað til, að "hið brosmilda gula andlit Einars Arnórssonar prófessors" hafi sést á sveimi.

En hvað ætli hinn ágæti maður, Einar K. Laxness, einn allra skemmtilegasti og besti kennari í sögu MH, hafi um þetta að segja? Hvernig stendur á því, að málsvarar íslenskra sósíalista skuli skella kynþáttaorðræðu fram í þessu samhengi? Þótt ég viðurkenni vissulega það, sem ég tel vera sögulega staðreynd, að þeir sem tala hæst gegn rasisma séu oft rasistar sjálfir (en bara með fordóma gegn öðrum "ras-um" en til umræðu eru), þá finnst mér þetta furðulegt hjá krötunum að láta svona.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband