Sunnudagur, 28. janúar 2007
Reykjavíkurræðan: piss í skóinn
Jæja, umræðan um Reykjavíkurræðu Ingibjargar heldur áfram, og er m.a. að finna á Málefnin.com, en þann vef opnaði ég í fyrsta skipti í gær. Hér talar Uglan, þó ekki sú sama og er Uglan hér á blogginu, um þetta málefni:
Hreint ekki óþægilegar spurningar, aðrar en þær af hverju forkona Samfylkingarinnar vill ekki tala um stjórnmál, heldur halda áfram að leggja Davíð í einelti. Gömul tugga, DVismi á hæsta stigi, og ekkert nema ódýrar dylgjur einmana Kvennalistakellingar sem búin að brenna allar brýr að baki sér í stjórnmálum.
En auðvitað eru þarna margir á öndverðri skoðun, eða næsta hlutlausir. Sumir sammála. En það á víst að vera sönnun fyrir því, að Davíð og hans "klíka" standi að baki Baugsmálinu, að málið hafi tapast fyrir dómstólum. Ég fatta ekki alveg röksemdafærsluna. Og menn koma svo fram og segja, að nú sé þetta allt sannað, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið þar að baki. Sönnunin er sú, að Ingibjörg segi það. Ég hef engar sannanir séð, aðeins getgátur og samsæriskenningar. Og síðan átta ég mig ekki á, af hverju t.d. Byrgismálið er sök Sjálfstæðisflokksins, hvað þá önnur mál, sem Imba nefnir. Og enn síður átta ég mig á, í hverju þagnarbindindi þjóðarinnar um ESB og evruna er fólgið. Hjörtur Guðmundsson stakk upp í "einmana kvennalistakellinguna" hvað það snertir, enda er að hennar mati "þögn" um málið hjá öllum þeim, sem ekki eru sammála henni. Allt sem þeir segja er einskis virði. Og hvað eru kratar að státa sig af lýðræði, þegar formaður Samfó gefur skít í allt og alla sem ekki eru á sömu línu.
Engin furða er, þó Imba sé ekki lengur trúverðugur stjórnmálaforingi. Hún virðist þrífast á málefnafölsunum og skítkasti. Og hélt því svo fram nýlega, að Samfó væri að tapa því flokkurinn væri of pólítískur. Nær væri að segja, að flokkurinn tapi fylgi því hann er ekki nægjanlega pólítískur. Það er ekki pólítík að vera í sandkassaleik og skítkasti. Það er bara þroskaleysi.
Og engin furða er, þó VG lyfti sér upp. Taka má til samanburðar málefnalítinn sandkassaleik framkvæmdastjóra Samfó annars vegar og mjög málefnalega pistla Árna Þórs Sigurðssonar. Þótt ég sé nú ekki alltaf sammála Árna, eru pistlar hans vandaðir. Þarna fer annars vegar krakki í pólítíkusaleik og hins vegar alvöru pólítíkus. Þótt ég sé jafnan ekki sammála VG um margt annað en Evrópumál, þá virði ég menn eins og Árna, og marga félaga hans, fyrir að vera málefnalegir og bjóða fram skýra stefnu og að jafnaði nokkuð hæfa einstaklinga. Hið sama er ekki hægt að segja um Samfó, sem hefur gjörsamlega glatað allri virðingu minni og er í mínum huga komin í sömu öskutunnuna og Frjálslyndi Framfaraflokkurinn.
1918 voru jafnaðarmenn á móti fullveldinu. Það stóð í stefnuskrá gamla Alþýðuflokksins fram til 1922, að halda skuli áfram sambandinu við Dani, og það á einhvers konar ný-valtýskum forsendum. 1944 voru kratar í fararbroddi þeirra fáu, sem fresta vildu lýðveldisstofnun. Og nú vilja þeir framselja fullveldið endanlega í hendur fjölþjóðlegu þjóðabandalagi. Af hverju eru kratar svona á móti sjálfstæði? Það útskýrir e.t.v. andúð þeirra á Sjálfstæðisflokknum. En gott er, að fimmta herdeild kratanna fái lítið fylgi meðal landsmanna. Lið þetta á ekki annað skilið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.