Katsav leitar lausnar, en aðeins tímabundið

Þeir hafast ólíkt að, forsetarnir. Sá íslenski djammar með vinum sínum á Indlandi sest þar í nefndir, en ísraelski starfsbróðir hans berst fyrir því, að halda embætti sínu. Moshe Katsav taldi við hæfi að beita embættisþunga sínum á ritara sína og aðra kvenstarfsmenn. Og engin Monica Lewinsky var þar á sveimi.

Ísraelska forsetaembættið hefur löngum verið, eins og það íslenska, upp á punt. Þegar ég bjó í Jerúsalem var í nánast nágranni forsetans, bjó c.a. í svipaðri fjarlægð frá forsetabústaðnum og Stjórnarráðið íslenska er frá aðal útibúi Landsbankans. Í svipaðri fjarlægð í hina áttina var embættisbústaður forsætisráðherrans. Maður þurfti því stundum að taka á sig krók, til að komast heim, þegar hermenn lokuðu götum til að tryggja aðflutning erlendra sendimanna.

Forsetinn gerði lítið annað en að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum og sendiherrum, skoða skrúðgöngur hermanna, leggja nafn sitt við líknarfélög og koma fram á hátíðarstundum. Ekki svo ósvipað fornu hlutverk íslenska forsetans. En tímarnir breytast. Hin síðari ár hefur forsetinn fengið að tjá sig um ýmis mál, frægast var þegar þáverandi forseti krafðist rannsóknarnefndar 1982, og í kjölfarið missti Ariel Sharon embættið og Begin sagði af sér í kjölfarið.

En nú hafa nokkrar konur kært forsetann fyrir nauðgun, eða nauðgunartilraun. Þetta hefði þótt ómögulegt fyrir nokkrum áratugum. Jafnvel bara fyrir nokkrum árum. Femínismi er í sókn og ísraelskar konur hafa náð að rísa til æðri stiga samfélagsins, ekki ósvipað því sem hér hefur gerst. Nema enginn forseti hefur komið úr röðum kvenna, enn sem komið er. En meðan konur sitja í hæstarétti, í ríkisstjórn og á þinginu, er ekki lengur hægt að klípa í rassinn á einkariturum sínum. Það þurfti m.a. fyrrv. varnarmálaráðherra, Mordechai, að reyna. Nú gildir ekki lengur það sem áður var, að menn eins og Moshe Dayan kæmust upp með framhjáhald og kvennafar.

Evrópa hefur hafið enn sterkari innreið sína í ísraelsk samfélag en áður var. Þær reglur, sem gilda í Evrópu, gilda orðið í Ísrael, a.m.k. á mörgum félagslegum sviðum. Því er ljóst, að austurlenski blærinn, þar sem konan er réttindalítil húsmóðir, er liðinn.  En Moshe Katsav á e.t.v. erfitt með að átta sig á því, að reglunum hefur verið breytt.

Katsav var fæddur í Íran og komst með herkjum til Ísraels 1951, í faðmi foreldra sinna, þá aðeins sex ára gamall. Ísraelsstjórn lagði þá mikið undir að búa vel að sínum flóttamönnum, eins og hægt var. Katsav ólst upp í nýju þorpi suður af Tel Aviv, rétt við mæri Gasa. Þar reis síðan bærinn Kiryat Malachi, þar sem Katsav ólst upp. Verksmiðjubær, skítugur og óaðlaðandi. En bærinn lifnaði við, þegar fyrsti bæjarbúinn brautskráðist frá Hebreska háskólanum í Jerúsalem. Hann hét Moshe Katsav 24 ára gamall. VIð heimkomuna gerðist hann bæjarstjóri, yngsti bæjarstjórinn í sögu Ísraels.

Ferlinn hans hófst síðan með setu á þinginu, Knesset og sól hans reis smám saman. Hann komst síðan í forsetahöllina, en hefur svosem ekki verið eftirminnilegur forseti, nema fyrir það, sem nú er í gangi.

Ég get ekki ímyndað mér, að nokkur eftirsjá verði af Katsav. Spurning hvort hann verði ekki bara að láta af embætti endanlega. Og þá væri gaman að sjá konu í forsetaembættinu! 

 


mbl.is Ferli hafið til að vísa forseta Ísraels úr embætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Finnst líklegra að þeir fái aftur konu sem forsætisráðherra á næstu árum. Tzipi Livni kemur sterklega til greina.

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 19:42

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Frelsarinn bara kominn og ég ekki tilbúinn: Varla Livni. Hún hefur unnið fyrir Mossad. Það gæti orðið umdeilt. Fullt af öðrum konum.

Þú verður að afsaka, Snorri, en ég get bara ekki séð að uppruni Katsav hafi nokkuð að segja í sambandi við þessa meintu greðju hans og glæpi. Þú nefnir Dayan. Hann var fæddur á samyrkjubúi í Palestínu og foreldrarnir frá Rússlandi. 

Ef Katsav er það lítilmenni sem haldið er fram að hann sé, mun hann líklega velja auðveldu leiðina út. Þá bindur hann endi á þetta, eins og litlir karlar gera oft.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 24.1.2007 kl. 21:04

3 Smámynd: Snorri Bergz

Hvenær sagði ég, Villi, að uppruni Katsavs, hefði eitthvað með þessa "meintu greðju". Ég var bara að segja frá uppruna mannsins.

Snorri Bergz, 24.1.2007 kl. 21:24

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég biðst afsökunar á því að hafa misskilið þig, en Íranskur uppruni Katsavs og svo þetta, sem þú skrifaðir:

"Því er ljóst, að austurlenski blærinn, þar sem konan er réttindalítil húsmóðir, er liðinn.  En Moshe Katsav á e.t.v. erfitt með að átta sig á því, að reglunum hefur verið breytt."

Ég held bara að Katsav sé haldinn siðblindu, sem á ekkert skylt við austurlenskan blæ. Hann hefur verið vanur að misnota völd sín. Það er ekki sér austurlenskt fyrirbæri.  

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 25.1.2007 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband