Til varnar Ingibjörgu Sólrúnu 1. hluti

roseJæja, ég hef nú aðeins gagnrýnt Ingibjörgu Sólrúnu undanfarið og kennt henni um flest það, sem aflaga hefur farið í Samfylkingunni. Að vísu hefur afhroð Samfó ekki verið mér sérlega sárt, þó ekki sé nema til að geta strítt aðeins tveimur félögum í öfgatrúarfélaginu Samfó - sósíalískt nöldurfélag, þeim Gunzó og Benna, tveimur ágætismönnum, sem hafa því miður lent í vondum félagsskap.

En þegar maður fer að horfa á málin hlýtur maður að velta því fyrir sér, hvort þetta afhroð Samfó sé í raun og veru Ingibjörgu að kenna. Vissulega hefur hún gert mörg mistök, en þegar maður lítur yfir framboðsskrána fer maður að sjá teikn á lofti. Ég er ekki frá því, að Ingibjörg hafi haft rétt fyrir sér þegar hún sagði, að þjóðin treysti ekki þingflokki Samfylkingarinnar, eða reyndar Samfylkingunni sem slíkri, fólkinu sem rekur Samfó áfram eftir stigum skoðanakannana og málþófs. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós, að meðreiðarsveinar Ingibjargar eru ekki mjög vænlegir til fylgisöflunar. Það er því ekki hægt að kenna Ingibjörgu einni um þetta afhroð, þó hún beri vitaskuld pólítíska ábyrgð.

Anna Kristín Gunnarsdóttir er fyrst í stafrófsröðinni. Henni var snarlega hafnað af eigin fólki í síðasta prófkjöri. Þetta er ábyggilega ágætis kona, en ég fletti heimasíðu hennar og áttaði mig ekki alveg á, fyrir hvað hún stendur. Hver er hugsjónin? Hver er framtíðarsýnin? Hvað hefur hún fram að færa, sem aðrir hafa ekki (annað en frönskukunnáttu!)? Ég held að þingkonunni Önnu sé best lýst sem : "Anna who"?

Ágúst Ólafur Ágústsson var kosinn varaformaður Samfó, eftir frækilega kosningasmölun. Hann er reyndar að mörgu leyti óvitlaus, eins og pabbinn og afinn, en er ekki alveg traustvekjandi af einhverjum ástæðum. Menn eiga stundum erfitt með að treysta málflutningi manns, sem er rétt nýbyrjaður að raka sig. Ég efast um að hann verði framtíðarleiðtogi, en hann er þó meðal skástu þingmanna flokksins. Hann virðist einlægur og velviljaður, en virðist hafa klikkað á því sama og margir aðrir kratar, að vilja elta vinsæl mál og hamra á þeim, í stað þess að fjalla um það sem hjarta hans stendur næst.

Gamla framsóknarkellingin Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er næst. Þegar maður les heimasíðu hennar fær maður tvennt á tilfinninguna: 1. Pólítísk skammsýni: efsta málið er árásir á Framsókn út af Byrgismálinu og þekkingarleysi á því málefni. En voru það ekki líka kratar og aðrir stjórnarandstæðingar sem knúðu fram aukna styrki til Byrgisins og vildu allt fyrir það gera? Ábyrgðarleysið algjört. Greinilegt er, að kratarnir vilja ekki kannast við skoðanir sínar, enda ekki að furða, þar eð þeir skipta svo oft um skoðun, að þeir muna ekki alltaf hvaða skoðun þeir höfðu áður. 2. Áhersla á lítilmagnann. Það er reyndar ágætt og þar er Ásta Ragnheiður samkvæm sjálfri sér. En hún verkar samt á mig sem léleg eftirlíking af maddömmu Jóhönnu.

Björgvin G. Sigurðsson af Suðurlandinu er næstur. Hann virðist einn helsti talsmaður vinstri-krata í þingflokknum, harður andstæðingur "Íhaldsins" og vill sjá það rotna úti í hafsauga. En hann er þó fyrst og fremst fulltrúi sígildrar jafnaðarstefnu, að eigin áliti. Ég efast þó um, að hann viti hvað sígild jafnaðarstefna er, a.m.k. kemur hún ekki fram í greinum hans á heimasíðunni, nema einstaka frasar. Hann boðar síðan evruna, eins og aðrir í þessum félagsskap, en virðist fyrst og fremst vera froðusnakkur, frekar ótrúverðugur í málflutningi sínum. Hann hefur þó það fram að færa, að vilja breikka Suðurlandsveg. Annars finnst mér lítið merkilegur og segir það sitt um frambjóðendur Samfó á Suðurlandi, að þessi gaur skuli hafa lent þar í 1. sæti. Það helgaðist þó fyrst og fremst af því, að hann er úr Árnessýslu. Slíkir menn hafa ákveðinn klassa (tek fram að ég er Árnesingur) og gera það gott í prófkjörum á Suðurlandi.

Guðrúnu Ögmundsdóttir, fyrrv. fréttaritara NT í Kaupmannahöfn, var, eins og Önnu, hafnað í prófkjörinu síðasta. Hún nýtur þó virðingar fyrir störf sín í þágu minni hluta hópa og lítilmagnans, en persónulega finnst mér hún lítt merkileg nöldurkerling, en hugsanlega er ég að dæma hana of hart. Hennar versti ókostur er, að hafa skoðanir, einn fárra þingmanna Samfó. Það hefur vísast komið henni í koll í prófkjörinu.

Helgi Hjörvar. Ég kynntist honum aðeins í skákinni í gamla daga og líkaði ekki við manninn. Leiðinda gaur þá, leiðinda gaur núna. Virðist tækifærissinni, en það passar reyndar ágætlega í þessum félagsskap. Hann hefur þó reyndar marga kosti, sem myndu nýtast betur á öðrum vettvangi, t.d. sem kennari í menntaskóla. Sköruglegur og greinilega virtur af félögum sínum, en fyrir hvað hef ég ekki alveg áttað mig á.

Jóhann Ársælsson er á útleið. Ég verð að viðurkenna, að mér líkar ágætlega við hann svosem, þó hann hafi komið úr Allaballabandalaginu. Maður hefur einhvern veginn á tilfinningunni, að hann taki þá aðeins til máls þegar hann hafi vit á málefninu. Það er vissulega nýlunda í þessum félagsskap, þar sem innistæðulaust gjamm er talið til dyggða.

Jóhanna Sigurðardóttir er sérstakur kapítuli. Þó hún sé oft þreytandi, þá dáist maður að hörkunni í henni. Hún hefur jafnframt þá sérstöðu innan þingflokksins, að hafa sterka framtíðarsýn, hugsjón. Henni er hreinlega ekki sama hvernig fólkið í landinu hefur það. Það metur maður henni til tekna. Hún er að mínum dómi einn allra frambærilegasti þingmaður Samfylkingarinnar, þó ég efist um, að tími hennar muni koma.

Jón Gunnarsson. Jón who? Hver er þessi maður? Einhver ætti að segja honum og það sem fyrst, að hann sé alþingismaður. Síðasta grein á heimasíðu hans er frá því um miðjan nóvember. Það er að mínum dómi dæmigert. Hann hlýtur að eiga mjög tímafrekt hobbí eða ofurstóra fjölskyldu. Eða kannski er hann bara svona lélegur þingmaður.

Katrín Júlíusdóttir. Jæja, þetta er nú allt að lagast, eftir slæma stafrófsbyrjun. Hefur bein í nefinu stelpan og er að mörgu leyti mjög frambærilegur þingmaður, en virðist vera með Sigurð Kára á heilanum, amk um þessar mundir. Einn besti, eða skásti, þingmaður Samfó. Hún virðist a.m.k. hafa meiri áhuga á stjórnmálum en skoðanakönnunum og vill í raun og veru láta gott af sér leiða.

frh....síðar.

En ekki er að furða, þó Samfó hrynji, þegar þingmannaliðið er jafn morkið og raun ber vitni. Kannski Ingibjörg hafi rétt fyrir sér í því, að þingflokkurinn sé hvorki fugl né fiskur? Það er ekki alltaf hægt að kenna "þjálfaranum" um þegar illa gengur, sér í lagi þegar liðið kann ekki leikkerfin og er of lélegt til að sigra leikina.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband