Laugardagur, 20. janúar 2007
Ömurleg frammistaða SAS
Jæja, kominn heim frá Prag. Og það var frekar Skoda að þakka en SAS. Síðarnefnda fyrirtækið hreint til skammar.
Ég hef alltaf haldið, að fyrirtæki ættu að reyna að forðast að gefa skít í viðskiptavini sína og segja þeim að halda kjafti, éta skít eða það sem úti frýs. En það gerði SAS í dag. ERGO: þetta flugfélag mun ég forðast að hafa nokkur samskipti við héðan í frá. Það er því komið á lista minn yfir fyrirtæki sem ég skipti ekki við vegna dónaskapar starfsfólks. Fyrir var þar aðeins eitt fyrirtæki: BYKO. Nú eru þar tvö.
Ég átti bokað flug frá Prag kl. 10.10, með SAS til Kaupmannahafnar. Ég vaknaði fyrir allar aldir og var kominn út á flugvöll kl. 8 að staðartíma, reyndar kortéri áður, eins og mér hafði verið sagt, að væri æskilegt. Jújú, en síðan gerðist ekkert. Ekkert kom um flugið, nema að fært var frá einu hliði til annars, nánast án fyrirvara, svo sumir farþegar biðu lengi vel við vitlaust hlið. En kl. 9.50 var tilkynnt, að "smá seinkun" yrði og yrðu nánari upplýsingar fyrirliggjandi 10.15. En þarna var þegar orðið ljóst, að flugvélin, sem átti að sækja okkur, var biluð og engin fékkst í staðinn. Engu að síður vorum við látin halda áfram að bíða, eða framundir 12.00 þegar fluginu var formlega aflýst. Þetta kom m.a. mikið niður á tveimur ágætis mönnum, þrælskemmtilegum, frá Heklu, forstjóranum og undirsáta hans, en þeir þurftu að vera komnir heim á réttum tíma vegna áríðandi bissnessfundar. Hefðu SAS menn sagt rétt frá stöðu mála þegar í upphafi, hefðu þeir t.d. getað komist heim um London eða Frankfurt.
Nú, jæja, eftir mikið stapp og vesen þarna á flugvellinum, þar sem erindrekar SAS reyndust eiginlega verri en engir, komust tveir af okkur þremur Íslendingunum með far með síðdegisvélinni til Köben og áfram með kvöldvélinni til Íslands - fengum tvö síðustu sætin. Sá þriðji fór á biðlista, en komst reyndar með að lokum. Og meðan þessari 8 klst við stóð, fékk maður í skaðabætur frá SAS lítinn matarmiða, sem dugði fyrir kaldri samloku og vatnsflösku. Ég tók því þennan miða og hentonum, hætti síðan við og fékk mér 2 kaffibolla, meðan maður var að komast yfir verstu syfjuna. En heldur finnst manni þetta nú lélegt hjá SAS: köld samloka og vatnsflaska til 8 klst biðar, samtals. Og lítil og léleg upplýsingagjöf. Og þegar maður loksins komst um borð í næsta flug, gat maður KEYPT þar samloku; þar að auki var ég settur í sæti alveg aftast, við hliðina á klósettinu og útsýnið var glæsilegt; hreyfill vélarinnar. Mér bauðst reyndar að færa mig 3 sætum framar, en ég sá ekki að það breytti neinu og ákvað að sitja áfram í skítalyktinni; það væri við hæfi eftir að SAS flugfélagið gaf skít í mann og aðra farþega sína með morgunfluginu. En taka verður fram jafnframt, að þetta seinna flug var aðeins hálftíma of seint. SAS greinilega í hraðri framför.
Ég veit ekki hvað fólki finnst, en mér fannst SAS standa sig illa. Þar fyrir utan vissi félagið og veit, að ef farþegar bíða þarna tímunum saman hefði verið hægt að gera eitthvað fyrir þá, því á Prag flugvelli er jafn lítið að gerast og á Akureyrarflugvelli. ERGO: ekkert.
En hefði ég ekki fengið að sitja í Flugleiðavélinni heim og orðið að gista í Köben eina nótt, hvar ætli SAS hefði þá holað manni niður; á bekk á Hovedbanegaarden?
Ég hef lesið í blöðum hin síðari ár um slæma stöðu SAS, fjárhagslega. Eftir þessa reynslu er ég ekki hissa. Ef flugfélag segir við farþega sína: Éttu skít, þá fljúgja þeir bara með öðru flugfélagi næst. En ég nenni nú ekki að standa í neinu veseni vegna þessa, enda á maður ekki von á að SAS vilji gera neitt í þessu máli, því þeim er greinilega skítsama um farþega sína. En ég vildi bara koma þessu að. Svo þetta sé komið á "record".
Athugasemdir
Ég held ég verði að vera sammála þér með SAS, fjölskyldan lenti í svipuðu máli í haust með þá, endalausar seinkanir og tafir, 3 vélar til að komast frá Bergen til Íslands, endaði með því að fljúga til Köben og þaðan heim með Icelandair, 12 tíma takk leið sem vanalega tekur 4-5 tíma + það að töskudruslan var ónýt eftir þvælinginn. Svo má nú líka nefna bókunar vesenið hérna í Noregi, ef þarf að sækja miðana á völlinn þá eru það 3 afgreiðsluborð sem þarf að rölta á milli og samskiptin þar á milli eru engin þannig að ef flugi seinkar á meðan verið er að bóka sig inn má gjöra svo vel og taka annan hring = 6 afgreiðsluborð, takk. Biðröð á annan klukkutíma. Þeir eru þekktir fyrir seinkanir t.d með kvöldflugið frá Íslandi, vélarnar sem tengjast því flugi þurfa iðulega að bíða í hálftíma eftir henni. Það er margt sem mætti betur fara hjá þeim blessuðum.
fable, 21.1.2007 kl. 15:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.