Mánudagur, 15. janúar 2007
Prag 4-5
Skákmenn og aðrir skákáhugamenn!
Jæja, allt í áttina.
Ég var nú kominn á fremsta hlunn með að hætta í mótinu í gær, en þetta bronkítisdæmi er að draga úr manni allan mátt. Ég skreið þó fram úr rúminu í gær til að tefla við Tékkann og tefldi bara beint af augum. Gat ekki einbeitt mér að skákinni og tefldi eiginlega atskák, notaði semsagt afar lítinn tíma. En hann fór að eltast við peð í byrjuninni en ég nennti ekki að reikna það út, og leyfði honum það bara, en hrókaði og kom liðinu út. Síðan skipti ég upp á helstu varnarmönnum hans, enhann gat ekki komið í veg fyrir það. Síðan henti ég í hann öðru peði og hann varð að þiggja grísku gjöfina. Síðan hrundi staðan hans eins og spilaborg og þegar mát blasti við í 28 leik gafst hann upp.
Robbi lenti í vandræðum, annað skiptið í röð í þessum lokuðu stöðum. Þær henta honum greinilega ekki nógu vel. En hann sneri sig út úr þessu og hélt jafntefli.
Nú....
Við fórum beint eftir kvöldmatinn upp á herbergi til að hvíla. Við eigum báðir við flensu að stríða, en hans er í rénum, en mín stígandi. Ég var aftur kominn á fremsta hlunn með að hætta í mótinu í gærkvöldi, minnugur þess, að hafa teflt veikur í Serbíu og farið niður í logum. En ég ákvað að harka af mér og mætti 9 í morgun í morgunumferðina, en tvær umferðir eru í dag, mánudag. Andstæðingur minn, Englendingur, tefldi "sitt system", einskonar Philidor vörn afar trausta, sem hann kann út og inn og hefur teflt með góðum árangri. Ég þæfði stöðuna bara og beið eftir að hann myndi leika ónákvæmt í lokaðri stöðu. Hann sá, að ég var í svitakófi og leið mjög illa, og jarmaði á jafntefli. Hélt ég myndi taka því og fara upp áherbergi að sofa. En ég neitaði og fór að grugga vatnið og skellti síðan á hann mannsfórn. Hún var þó eitruð, því ég vann manninn til baka, peð til viðbótar og það sem meira var, veiklulegir biskupar mínir losnuðu úr læðingi. Í nokkrum leikjum hrundi staðan og þegar hann var að verða mát í 29 leik gafst hann upp.
Robbi rúllaði upp einhverjum Þjóðverja eða Austurríkismanni, man ekki hvort. Gaurinn tefldi Kan afbrigðið í SIkileyjarvörn, en Robbi barði niður mótspil svarts, Robbi var með hvítt, og fór síðan "all in" á náungann og vann góðan sigur.
Við höfum því báðir fjóra vinninga af fimm mögulegum.
Áfram Ísland
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.