Platvopnahlé: bardagar hafnir að nýju

aksaÍ síðustu "vopnahléum" Fatah og Hamas, hafa báðir aðilar notað tímann til að styrkja stöðu sína, koma sér fyrir á "hernaðarlega mikilvægum stöðum", kenna hinum um fyrri átök og birgja sig upp, bæði af vopnum og nauðsynjavarningi.

En ég hef þann skilning á orðinu "vopnahlé", að það sé tímabundin stöðvun á hernaðaraðgerðum, og þá aðeins, þegar stríð geisar. Vopnahlé getur aðeins átt sér stað í stríði. Enda geisar borgarastríð á Gasa. En vopnahlé þýðir yfirleitt, að hlé er gert á bardögum, annars vegar til að fá rúm til að setjast að samningaborði í leit að friði, og hins vegar til að styrkja stöðu sína í ró og næði, svo betur takist til, þegar bardagar hefjast að nýju.

Ég held, þrátt fyrir hugmyndir um varanlegan frið milli Hamas og Fatah (m.a. frá Egyptum og Saudum), að þetta sé aðeins stundarhlé á bardögum. Ástæður þess eru m.a. , að jafnvel þótt Abbas og Hamas-stjórnin hefðu í raun áhuga á friði og óbreyttum valdahlutföllum, þá eru margir hópar, bæði innan Hamas og Fatah, sem í raun lúta ekki stjórn forystunnar. Því þarf ekki nema t.d. einn hópur, sem formlega séð er innan Fatah (t.d. Al-Aksa) eða Hamas, til að sprengja allt í loft upp, t.d. með því að ræna áhrifamanni úr hinni fylkingunni, eða skjóta á bílalest slíks, eða bara ræna bílalest.

Málið er nefnilega, að í morgun stóðu yfir bardagar á Gasa milli Hamas og Fatah. A.m.k. einn lést. Og náfrænda Dahlans, eins helsta foringja Fatah, var rænt. Þetta er ekki merki um vopnahlé! Svo mikið er víst. Enda er þetta bara plat-vopnahlé.

 


mbl.is Spennuþrungin ró ríkir í Gaza eftir að vopnahlé var endurnýjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eru skrítnir: NY Times

lyallSarah Lyall, blaðamaður New York Times, skrifar nú um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi. Þegar maður heyrir það, fær maður ósjálfrátt upp kaldastríðsfílinginn. Þetta er konan, sem tók viðtalið fræga við kommúnistasagnfræðinginn Eric Hobsbawm, þar sem hann sagði, að múgmorð rússneskra kommúnista á milljónum, eða tugmilljónum, þegna sinna breyti engu. Kommúnisminn væri fögur heimssýn, og lífssýn. Um þessi skrif hennar hefur m.a. verið rætt á TimesWatch. Hún skrifaði líka um Beckham og margt fleira sem m.a. tengist Englandi, enda skilst mér að hún sé staðsett þar.

Hún hefur áður skrifað um Íslendinga, t.d. 2004. Og er ekki hægt að segja, að hún hafi verið mikið inní málum hér. Hinn kaldi og dimmi vetur stendur fram í maí, en Íslendingar lifa af á Lýsi, ferðum í heitu pottanna og með lestri. Þeir sofi líka, vinni og horfi á sjónvarpið á milli. Þetta er víst Ísland.

Og nú er það stóriðjan. Þótt hún gæti sín á, að tala bæði við meðmælendur og mótmælendur virkjana og stóriðju, virðist hún falla í sömu gryfju og áður, að þekkja það lítið til aðstæðna, að hún geti með engu mótið metið hlutina réttilega. Og þá er ég ekki tala með eða á móti öðrum málstaðnum. Blaðamenn verða að vera vel að sér, í almennum skilningi, til að geta skrifað góða fréttaskýringu. Þetta er atriði, sem því miður margir blaðamenn, bæði hér og erlendis, flaska á. Einstaka menn, eins og t.d. Davíð Logi bloggari, vinna slík mál fræðilega, enda fræðimaður að mennt. Það er mín skoðun, að blaðamenn verði að hafa grunngóða menntun til að fjalla um sum mál. Stundum er því ekki svoleiðis farið.

En varðandi greinina í NY Times, þá er ég ekki alveg sannfærður um gildi hennar. Lyall reynir þó að gera vel, en betra hefði verið, að slík grein hefði verið skrifuð af einhverjum, sem hér er búsettur, til að geta betur skilið þær tilfinningar, sem margir Íslendingar bera í garð virkjana og stóriðju. En kannski má segja, að "glöggt sé gests augað". En stundum er það blint. Að þessu sinni er verið að skrifa grein um hitamál á Íslandi útfrá sjónarhóli utanaðkomandi, ætlað fólki, sem skilur varla um hvað er verið að ræða, í raun og veru, jafnvel eftir lestur greinarinnar. En þessi grein segir í raun það sama og greinin 2004: Íslendingar eru skrítnir.


mbl.is New York Times fjallar um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllerí og pílagrímsferðir ástarinnar

drunksJæja, meðan ég svaf svefni hinna síþreyttu var ys og þys út af litlu í miðborg Reykjavíkur og víðar. Fangageymslur fullar, aðra nóttina í röð, slagsmál og ólæti víða. Margir voru víst á "föller", sumir hverjir með aðstoð ólöglegra vímuefna. Og "pickup trukkar" gengu lausir í miðbænum, vísast af báðum kynjum.

Þótt þetta miðbæjarflandur sé vísast ekki séríslenskt fyrirbrigði, virðist það vera bæði útbreiddara og vinsælla hér en víða annars staðar. Jafnframt stendur það vísast lengur hér en í sambærilegum borgum erlendis, já, eða erlendum borgum almennt. Þeir, sem erlendis telja sér þörf að vera á föller um sex leytið að morgni, skríða þá vísast í holur eða iðka það innandyra eða í lokuðum klúbbum. Ég þekki þetta þó ekki mikið, en fyrir nokkrum árum var ég á ferð í Kaupmannahöfn og gisti á Palace hótelinu við Ráðhústorgið. Skrapp ég gjarnan niður á torg um sex leytið að kaupa Moggann og sáust þá fáir á ferli. Þessa helgi var staðreyndin sú, að þeir sem ég sá á horninu á Strikinu og Ráðhústorginu voru Íslendingar og þekkti ég nokkra þeirra. Þá voru Danir flestir löngu farnir heim.

Maður furðar sig reyndar á því, að "skemmtanakjarnar" hafi ekki risið í Reykjavík, t.d. í iðnaðarhverfum, þar sem ólíklegt er að svefnfriður borgara verði rofinn. Reyndar þurfa íbúar í miðborg Rvk að þola slíkt, en eru vísast orðnir vanir þessu. Til dæmis væri í sjálfu sér eðlilegt, að svona skemmtanakjarnar risu t.d. á Smiðjuvegi, Ártúnshverfi, Dugguvogi eða annars staðar. En Íslendingar vilja bara "fara í bæinn", það er löngu orðinn siður, sbr. t.d.  hinn fræga "Ómarsrúnt" í miðbænum.

Á árum áður var þessi siður óþekktur meðal Íslendinga, eða Reykvíkinga a.m.k. Þá drukku menn á pöbbum, þegar það var leyft, og stauluðust síðan heim í bólið. En síðan komst smám saman upp miðbæjarstemning um helgar. Ég hef rökstuddan grun um, að sá siður sé norskur og tilkominn af kindur_vefsidavöldum erlendra sjómanna, sérstaklega Norðmanna, sem höfðu ekki í önnur hús að venda fyrir fylleríið en miðbæinn sjálfan. Um þetta má m.a. lesa í skjölum dómsmálaráðuneytið og í blöðunum. Þetta skrifaði ég m.a. um í M.A. ritgerð minni, "Útlendingar og íslenskt samfélag, 1900-1940", sem ég skilaði inn í janúar 1995. Og hið sama, eða svipað, var uppi á teningnum í Hafnarfirði, á Siglufirði, Seyðisfirði og víðar, þar sem sjómenn, flestir Norðmenn, komu til hafnar. Og mönnum þessum fylgdu slagsmál, bæði af "eðlilegum" ástæðum og vegna hins, að reykvískur æskulýður óskapnaðist yfir því, að reykvískur kvenlýður væri hrifnari af útlendingum en þeim innlendu. Og í kjölfarið kom ástandið, með meðfylgjandi lausaleiksbörnum og kynsjúkdómum.

Langar mig í þessu samhengi til að birta smákafla úr endurgerð M.A. ritgerðar minnar.

Siðprúðir bæjarbúar voru ekki í vafa um, hvaðan þessi spilling lauslætis og kyn­­sjúk­dóma bærist. Stærsta mannvirki og stolt Reykjavíkur, höfnin sjálf, þótti vera „griðarstaður og gróðrarstöð hins „erótíska” lífs í höfuð­borg­inni.“ Og þar var hið hreina íslenska eðli einna mest blandað útlensku óeðli og sið­spill­ingu hvers konar: „Daglega liggja hér erlend skip, innan og utan við hafnargarðinn. Þangað stefn­ir þrá margra blóðheitra Evudætra bæjarins. Og það því fremur, ef á skip­inu eru margir borðalagðir...Næturverðir þessa bæjar mundu geta sagt frá ör­lagaríkum ævin­týrum í sambandi við þessi skip. Þangað eru farnar píla­gríms­ferðir ástar­innar.”[1]En það var ekki aðeins, að Evudætur færu pílagrímsferðir í kojur erlendra skipa í höfninni. Erlendu skipverjarnir, fiskimenn eða sjó­liðar, höfðu einnig mik­inn áhuga á gönguferðum rétt út fyrir Hringbrautina. „Þang­að fara þeir sem af harð­fylgni og vaskleik ná sér í forboðna vöru. Því suður á Mel­un­um eru aldrei pólítí. En þau eru engin lömb að leika sjer við hjer í bæ — hafa augu á hverjum fingri, refsa og „arrestera” miskunnarlaust, hver sem á í hlut. En Melarnir eru fyrir utan ,umdæmi’ þeirra, og þar njóta menn gæða lífsins, bless­­­andi gjafar­ann allra góðra hluta.” En Holtið og Melarnir höfðu fleiri skyldum að gegna en spr­úttsölu og for­­boðna drykkju. „Þangað ganga, þegar húma fer, hinir borða­lögðu er­lendu menn með eldfimar meyjar við hlið sjer. Og suður­landsnæturnar eru marg­ar fagrar og friðsælar og lokka til útiveru og ásta... Og þangað fara all­ir dátar af „Fylla” og „Beskytteren”, út­hell­­andi hjörtum sínum.” [2] Því var ort: „Á sumrin er gaman að ganga sjer / um göturnar eftir að rökkva fer, / ef „Fylla” er liggj­andi úti’ í ál, / og ekki’ er á varðbergi nokk­ur sál.”

En hvað var til ráða? Kannski hefðu menn getað fylgt ráðgjöf séra Tryggva  í Laufási: „Það sem fyrst og fremst ber að gera er það að koma á fót í Reykja­vík sérstöku lögregluliði sem hefir gætur á siðferði manna og öðru er þar að lýtur.”[3] Þingmenn höfðu hins vegar annað í huga og 1923 settu þeir kyn­sjúk­­dómalögin, sem skylduðu héraðslækna til að stunda for­varn­ir, eink­um á þeim stöðum „þar sem sjerstök hætta stafar af kyn­sjúk­dómum, mikl­ar út­lend­ar skipa­komur eru, síldar­stöðv­ar, o. þvíl.”[4]


[1] „Bæjarlífið”, Mbl. 29. sept. 1921.
[2] „Bæjarlífið”, Mbl. 8. okt. 1921.
[3]  „Ólifnaður og sýkingarhætta”, Tíminn 1. febrúar 1919.

[4] Stjórnartíðindi 1923, ***. Sjá einnig; „Þingtíðindi”, Mbl. 13. mars 1923.


mbl.is Mikill erill á höfuðborgarsvæðinu aðra nóttina í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsing Frjálslynda flokksins?

aksaSvona fréttir eru ágætis auglýsing fyrir Frjálslynda flokkinn, sérstaklega Jón Magnússon, leiðtoga félagsins "Hvítt afl".

Annars skil ég ekki hvað leiðtogarnir í Birmingham eru að tala um. Hér var komið í veg fyrir grimmilegt morð. Hvað er svona rangt við það? Og það átti að gera í nafni íslams, þar eð múslimi væri í breska hernum, sem væri að "ofsækja" múslima í Írak. Ég hefði haldið, að þessir leiðtogar myndu fagna því, að komið hefði verið í veg fyrir, að ímynd múslima í Bretlandi hefði enn versnað.


mbl.is Gagnrýna handtökur í Birmingham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara heimabankinn!

Þetta heimabankamál minnti mig á svolítið, sem ég ætlaði að nöldra yfir fyrir c.a. viku síðan en gleymdi. Málavextir eru þeir, að ég fékk sent heim tímarit og meðfylgjandi því var gíróseðill.

Þetta var tímarit Páls Skúlasonar, Skjöldur. Ég verð að viðurkenna, að ég hef ákveðna samúð með þessu tímariti. Að því stendur einkaaðili, af hugsjón fyrst og fremst, en ekki til græða. Efni blaðsins er síðan stöku sinnum þannig, að maður getur nýtt sér það. Ég hef þurft að fletta upp í því stöku sinnum, en á milli nothæfra greina hef ég ekki talið efnið nægjanlega merkilegt til að sækjast eftir áskrift. Ég er áskrifandi að nógu mörgum tímaritum og verð að takmarka mig við þau, sem ég get einna helst nýtt mér. Að undanskilinni Sögu, sem reyndar hefur ekki verið sérlega áhugaverð hin síðari ár að mínu mati, kaupi ég ýmislegt frá útlöndum. Það verður að nægja.

Síðan er ég persónulega andvígur svona markaðssetningu. Ég hreinlega þoli ekki þegar ég fæ senda gíróseðla fyrir einhverju, sem ég hef ekki pantað. Því t.d. hendi ég happdrættismiðum beint í ruslið, jafnvel þó mér hugnist málstaðurinn svosem, þegar gíróseðlar fylgja. Ég opnaði því ekki Skjöld, heldur lét hann vaða beint í tunnuna og gíróseðilinn með.

Ég fékk líka á föstudaginn hefðbundið sníkjubréf frá SWC, Simon Wiesenthal Center. Ég styrkti þessi samtök af einhverri rælni um einhverja smáaura 2005, og gerðist því félagi þar. En ákvað í fyrra, að endurnýja ekki aðildina, man ekki af hverju. En allt frá fyrsta endurnýjunarbréfi 2006 komu stöðugar sendingar, c.a. 2 í mánuði, þar sem beðið var um endurnýjun og umslag sent undir svarið. Halló! Ef ég svara því ekki t.d. í sex mánuði, hljóta þeir að "get the message". Nei, ekki aldeilis. Ég fékk bréf afur í dag. Mig grunar, að póstkostnaður á þessum bréfum til mín sé orðinn mun hærri en það framlag, sem ég hefði greitt, hefði ég viljað halda áfram þátttöku í þessu félagi.

Þetta er orðið verulega þreytandi og sé ég nú ekki aðra kosti, en hafa samband þarna út og biðja þessi samtök að hætta þessum sendingum, vinsamlegast. En ég held hins vegar, að Páll Skúlason í Skildi "skilji boðskapinn". Ég get ekki verið áskrifandi að öllu sem tengist sögu eða öðrum áhugamálum mínum að einhverju leyti. Maður þarf að velja og hafna. Og Skildi þarf ég því miður að hafna...


mbl.is Greiðsluseðlar sendir í heimabankann án þess að vara sé pöntuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband