Sunnudagur, 31. desember 2006
Skaupið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Davíð, Halldór og Eiríkur Tómasson
Jæja, Halldór Ásgrímsson sagði margt athyglivert á 365 miðlum í dag, í hádegisviðtalinu. Þar ítrekar hann, að Ísland skuli í Evrópusambandið og eigi að fara þangað inn hið fyrsta -- ef ég hef skilið hann rétt. En þar er sömuleiðis rætt um myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Segir svo á netmiðli 365:
Halldór og Davíð Oddsson mynduðu ríkisstjórn á vordögum 1995 eftir að upp úr slitnaði í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Um aðdraganda þeirrar ákvörðunar segir Halldór að sameiginlegur vinur þeirra, Eiríkur Tómasson lagaprófessor, hafi haft milligöngu um viðræður þeirra. Við hittumst á Þingvöllum að ég held um páska, ef ég man rétt, og áttum þar góða stund og lögðum þar grunninn að þessu farsæla samstarfi sem varð síðan á milli flokkanna og stendur enn," sagði Halldór.
Ég man þetta nú ekki náið, en ég held þó að þegar Davíð og Halldór hittust á Þingvöllum, greinilega að undirlagi Eiríks Tómassonar, og ræddu málin, hafi ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks enn verið við völd. Báðir gengu svo eðlilega óbundnir til kosninga, en það varð fljótt ljóst, að þessir tveir menn höfðu ákveðið að "búa saman" í Stjórnarráðinu næstu fjögur árin, a.m.k.
Miðað við upplýsingar um hvernig ástandið var á stjórnarheimili viðreisnarstjórnarinnar kemur þetta ekki á óvart. Að því að mér skilst, voru kratarnir orðnir nánast óbærilegir í samstarfi, fyrir utan að þeir voru að skipta hverjir öðrum út. Þar að auki var pólítík kratanna ekki að ganga upp og ljóst yrði, að þeir myndu ekki halda fengnum þingmannahlut. Því var eðlilegt hjá Sjálfstæðisflokknum að leita hófana annars staðar, þar sem grundirnar voru grænni.
Ég held ég hafi aldrei hitt Eirík Tómasson persónulega, en ef ég verð þeirrar ánægju ánjótandi á komandi misserum, mun ég þakka honum kærlega. Fyrir þetta ætti hann skilið að fá góða fálkaorðu, því "Eiríksstjórnin" hefur heldur betur snúið við blaðinu og bætt íslenskt samfélag meira og betur en áður hafði þekkst.
Sunnudagur, 31. desember 2006
Áramótaannáll Múrsins
var svoldið mikið pólítískur, eins og ætla mátti. En engu að síður drepfyndinn á köflum fyrir okkur hina, sem ekki eru sósíalískt rangtþenkjandi. Mig langar hér til að birta "flokka" Múrsins, með lagfæringum (mínar breytingar eru með skáletri)
Þekkingarvera ársins: Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins er enn á leið til okkar hinna ofan af þekkingarstiga sínum.
Iðrun ársins: Fáir komust með tærnar þar sem Árni Johnsen hafði hælana.
Sætasta stelpa ársins: Sú sem ekki fór heim af ballinu með Geir Haarde.
Misskilningur ársins: Samfylkingin.
Næstmesti misskilningur ársins: Þegar Jón Baldvin hélt að einhver vildi í raun og veru hlusta á hann tala.
Uppreist ársins: Strákurinn sem fékk pening í fermingargjöf og fór á Goldfinger.
Stjórnmálauppvakningur ársins: Árni Johnsen sneri aftur við mikinn fögnuð Færeyinga. Finnur Ingólfsson reyndi hið sama og uppgötvaði að umburðarlyndinu eru takmörk sett.
Samsæri ársins (þið heyrðuð það hérna fyrst): Þegar örvæntingarfullir leiðtogar Sjálfstæðisflokksins reyndu að gera Árna Johnsen að sendiherra í Færeyjum. Fór út um þúfur þegar Færeyingar bönnuðu hómófóbíu.
Blaðafulltrúi ársins: Múrinn. Er enn að reyna að láta sósíalisma líta vel út...og gengur bara vel miðað við hversu ómögulegan málstað er verið að verja..
Hvalur ársins: SME: http://hvalur.blog.is Er jafnvel eins og hvalur í laginu.
Blaðamannafundur ársins: Þegar sme og gme mættu í afmæli hvors annars, og hvorugur var á staðnum.
Samningur ársins: Samningur Halldórs og Guðna um að þeir ættu báðir að hætta nema Guðni.
Röksemdafærsla ársins: Stefna Samfylkingarinnar. Enginn skilur hana, og ekki frambjóðendurnir sjálfir.
Næstbesta röksemdafærsla ársins: Stefna Vinstri-grænna. Allir skilja hana, en fæstir skilja hvað er svona gott við hana.
Vanmetnasti snillingur ársins: Sigurjón M. Egilsson, (fyrrverandi) ritstjóri Blaðsins. Gott að vera farsæll blaðamaður og ritstjóri, og kunna ekki að skrifa á íslensku.
Víðsýni og menntun ársins: Guðfinna Bjarnadóttir.
Mest traust ársins: Þjóðin á þingflokki Samfylkingarinnar. (hehe!)
Leki ársins: Ræður Jóns Bjarnasonar á Alþingi. Slíkt stórfljót mætti hugsanlega virkja.
Sannasta slagorð ársins: Sömu gömlu kommarnir í VG. Sjaldan hefur slagorð verið jafn satt.
Staksteinar ársins: Þeir náðu mestum hæðum og geðshræringum þegar rætt var um hleranir í kalda stríðinu.
Lengsta bros ársins: Brosið á Birni Inga sem hélt frá febrúar fram í maí og náði 6% að lokum.
Spilling ársins: Þegar Ágúst Einarsson smyglaði sér inn í hið eftirsótta og hálaunaða starf að vera rektor við Háskólann á Bifröst.
Þreyttasta orð ársins: Prófkjör..
Prófkjör ársins: Þegar VG hélt prófkjör í þremur kjördæmum, og fékk færri til að kjósa, þrátt fyrir smölun, en mættu á kaffiboð Heimdellinga.
Atvinnumiðlun ársins: Framsóknarflokkurinn í Reykjavík.
Eineltisfórnarlamb ársins: VG. Finnast óþægilegar staðreyndir vera að leggja sig í einelti..
Kaffiboð ársins: Kaffiboðið sem Ólafur F. bauð Sjálfstæðisflokknum í Reykjavíkurborg í og enginn mætti. Á meðan Ólafur fékk hvorki vott né þurrt drukku Sjálfstæðismenn kaffi með brosi ársins.
Eip ársins: Pissandi listaskólanemendur unnu nauman sigur á þeim félögum Rassa prump og Hitler.
Bók ársins: Stefnuskrá Samfylkingarinnar. 1. bls., þar sem segir: Capacent: Sími 5401000.
Maður ársins sem er sonur fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga: Gestur Svavarsson, fyrir að brjóta prófkjörsreglur VG. Allavega ekki Glúmur Baldvinsson.
Magni ársins: Það var hann Magni. Allavega ekki Silvía Nótt.
Maður ársins að mati Time: Íslenskir spunameistarar sem fóru að blogga um sjálfa sig og vini sína.
Sjálfsmorð ársins: DV dó tvisvar.
Sólbaðsstofugestur ársins: Jón Magnússon.
Myndarlegasti lögmaður ársins: Jón Magnússon.
Nýbúavinur ársins: Jón Magnússon.
Nýbúi ársins: Lögregluhetjan Hallgrímsson í Erninum sem Danir og allur heimurinn getur nú uppfræðst af um hina alkunnu íslensku fylgjutrú.
Birta ársins: Þegar Andri Snær tók rafmagnið af Reykjavík án þess að neinn tæki eftir því.
Fattleysingjar ársins: Þeir sem notuðu tækifærið og skutu upp flugeldum þegar rafmagnið fór af.
Bitrustu bókmenntatúlkanir ársins: Sósíalískir þverhausar að skrifa um bækur Friedmanns.
Sjálfstæðismaður ársins: Gísli S. Einarsson, nýr bæjarstjóri á Akranesi.
Samfylkingarmaður ársins: Hann þarna óþekkti þingmaðurinn sem þagði í ræðustól og vill bara vera í flokknum ef hann fær að vera á þingi.
Sterkasti listi ársins: Allir ótrúlegu sterku listarnir sem komu upp úr kössunum í prófkjörum ársins.
Flóknasta flokksskrá ársins: Stóra flokksskráin sem Guðlaugur Þór fékk einn að nota.
Margboðaðasta nýframboð ársins: Þar vann Akureyrarframboðið eftir harða keppni við framboð öryrkja, aldraðra, nýbúa og Framtíðarlandið.
Skopparakringlur ársins: Ritstjórar Blaðsins lifðu skemur en barirnir í Austurstræti.
Eilífðarmál ársins: Nöldur sósíalista út af Íraksstríði, virkjunum og álverum.
Rómantíker ársins: Rómantíkurnar í bókmennaleshring Femínistafélagsins.
Gamansemi ársins: Guðni í afmæli Hemma...þetta verður ekki toppað.
Hegðunarvandamál ársins: Virkjunarandstæðingar á Austfjörðum.
Hlerari ársins: Steingrímur Sævarr sem allt veit á undan öllum.
Hlerunarþoli ársins: Jón Baldvin sem staðhæfði að hann hefði verið hleraðastur af öllum.
Sagnfræðingur ársins: Jón Sigurðsson fann út að Framsóknarflokkurinn hefur ekki rekið stóriðjustefnu eða stutt Íraksstríðið. Þetta kallar maður uppljóstranir.
Ímynd ársins: Hin nýja og bætta ímynd formanns Framsóknarflokksins.
Söguleg upprifjun ársins: Guðni Th., þegar hann taldi við hæfi að rifja upp, að kommúnistar væru á vegum erlends stórveldis. Það vita allir.
Halldór Ásgrímsson ársins: Ásgrímur Halldórsson.
Fátæklingur ársins: Múrinn. Hafa ekki efni á að kaupa sér nýtt útlit á síðuna.
Hvalreki ársins: Þegar sme fór að blogga og strandaði oftar en ekki á staðreyndum.
Náttúruverndarstefna ársins: Ítarleg skýrsla Samfylkingarinnar, Fagra Ísland. Tímamótarit í merkri sögu Samfylkingarinnar.
Náttúruverndarsinni ársins: Smári Geirsson, formannsframbjóðandi Samfylkingarinnar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Hresselíus ársins: Magnús Þór Hafsteinsson. Hvenær brosti hann síðast?
Fúllámóti ársins: Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritstjóri nýja blaðsins sem ætlar alltaf að vera á móti.
Nafnbreyting ársins: Þegar Íslandsbanki hét skyndilega Glitnir. Eða var það þegar KB-banki hét skyndilega Kaupþing?
Staðfesta ársins: Landsbankinn heitir ennþá Landsbankinn en ekki LB-banki eða Bílalán ehf.
Norðmaður ársins: Geir Haarde. Hann komst einhvern veginn hvergi annars staðar að þannig að þessi flokkur er sérsniðinn fyrir hann.
Stýrivaxtahækkun ársins: Þessi sem Davíð Oddsson ákvað á síðustu stundu, í tilefni af því að Halldór Ásgrímsson sagðist ekki sjá rök fyrir því að Seðlabankinn hækkaði vextina frekar að svo stöddu.
Spútnik ársins í sunnlenskum stjórnmálum: Eyþór Arnalds sýndi og sannaði að hann er verðugur arftaki Árna Johnsens, Eggerts Haukdals og Gunnars Örlygssonar.
Ævisagnaritari ársins: Óttar M. Norðfjörð sem gaf út ávöxt þrotlausra rannsókna sinna á ævistarfi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.
Smellnustu auglýsingar ársins: Auglýsingarnar um stóra m og litla b.
Dýr ársins: Fuglarnir sem Einar K. Guðfinnsson og Samúel Örn Erlingsson drápu í leyfisleysi í Grímsey á Steingrímsfirði.
Villibráð ársins: Gúbbinn þarna sem Dick Cheney skaut í andlitið á veiðitúr.
Blóðþorsti ársins: Blóðbankinn.
Fagmennska ársins: Þegar fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins um leið og fyrrverandi aðstoðarmaður ritstjórans var gerður að yfirmanni hans hjá 365 fjölmiðlum.
Kosningatúlkun ársins: Þegar Samfylkingin sagðist hafa sigrað í borgarstjórnarkosningunum.
Fyrirsögn ársins: Tafarlaus tvöföldun strax.
Slagorð ársins: Smellna Samfylkingarslagorðið þar sem smábær var látið ríma við frábær.
Hafnarfjarðarbrandari ársins: Samfylkingin.
Helstu afrek Dorritar á árinu: Hún var kosin kona ársins af ýmsum fjölmiðlum.
Her ársins: Þessi þarna sem fór.
Vísindatilraun ársins: Þegar reynt var að lækna sósíalismann með því að kalla hann jafnaðarstefnu. Hvorugt virkar.
Mismæli ársins: Allar ræður Ingibjargar Sólrúnar..
Hefnd ársins: Þegar Samfylkingin ákvað að hefna sín á þjóðinni með því að bjóða fram í næstu kosningum..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Gott að vita af því...
...að einhver eða einhverjir á mbl.is eru aðdáendur Arnaldar, en grannt hefur verið fylgst með fótbroti hans hér á mbl.is á síðustu dögum.
Þótt ég sjái ekki alveg hvað er svona fréttnæmt við þetta skíðaslys, þá viðurkenni ég hins vegar, að margar áhugaminni fréttir hafa komið hér inn til uppfyllingar.
En af þessu getum við lært, að það borgar sig ekki að fara á skíði, ef maður er með of mikið af vöðvum í afslöppun.
![]() |
Schwarzenegger útskrifaður af sjúkrahúsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Annus horribilis?
Árið 2006 var mjög slæmt hvað mig varðar, a.m.k. hvað snertir eitt mitt helsta áhugamál, skák. Mér tókst að sóa hagnaði síðasta árs með því að vera of þrjóskur, og halda áfram að tefla þegar hvorki var til staðar nægjanlega góð heilsa né kraftur á batteríinu. Ég lækka nú einhvern helling á alþjóðlegum skákstigum; fer eiginlega niður í logum. Og til að kóróna allt, náði ég ekki að taka þátt í "slagsmálunum" um Arienne, eina af fallegri skákkonunum um þessar mundir (sjá mynd t.v.)
Nokkrir ljósir punktar voru þó, t.d. fékk ég 2.5 af þremur skákum í röð við stórmeistara, og hefði bætt einum sigri við, undir eðlilegum kringumstæðum, hefði ég ekki leikið skelfilega af mér. En náði þó nokkrum punktum gegn stórmeisturum, t.d. Rajkovic og Votava, og var almennt að tefla ágætlega gegn sterkari mönnum, en lagði of of mikið á stöðurnar gegn þeim veikari, þegar jafntefli kom ekki til greina, og tapaði. En svona er skákin. En ljósi punkturinn var síðan Meistaradeildin í október, þegar við í T.R. náðum glæsilegum árangri og lentum í 5.-12. sæti, þrátt fyrir að hafa ekki á neinum stjörnum að skipa, og hefðum átt að lenda c.a. í 30. sæti, ef allt hefði verið "eðlilegt".
Náði þó að lagfæra málin aðeins í árslok. Varð jafn Arnari Gunnarssyni á atskákmóti Reykjavíkur (tapaði í einvígi um titilinn), varð Íslandsmeistari í internetskák, 3.-4 sæti á sterku Jólahraðskákmóti T.R. og náði nú 6. sæti á hinu geysisterka Friðriksmóti. En þetta er eins og að vinna leikina, sem skipta ekki máli, en tapa þegar á reynir.
En núna þarf maður að vera duglegur í ræktinni fyrstu vikuna í janúar til að koma sér í form fyrir næsta mót, sem ég tek þátt í. Það verður Opna Pragmótið 2007, sem hefst í Prag 11. janúar og stendur yfir í rúma viku. Ég hef aðeins einu sinni komið til Prag, það var fyrir c.a. 5-6 árum síðan, og stoppaði þá stutt; var á leiðinni í sagnfræðilegan leiðangur á þjóðskjalasafnið í Bratislava. Að þessu sinni vonast maður til að geta skoðað borgina eitthvað á hinum hefðbundnu morgungöngum, a.m.k. ef ekki verður mjög kalt.
Skák er skemmtileg, segja Hróksmenn. Hrafn er í Winnipeg, en hægri hönd hans, varaformaðurinn Róbert Harðarson, mun einnig tefla á Pragmótinu. Við fórum einnig saman á mótið í Serbíu í nóvember og vorum báðir á Evrópumótinu í Fuegen í október. Verður gaman að fara með honum út aftur, enda er hann ekki kallaður Mr. Bigtime fyrir ekki neitt. En vonandi höldum við heilsu þetta skiptið, en síðast vorum við báðir meira og minna úr leik seinni helmings mótsins, í Serbíu, vegna veikinda.
En nú er bara að duga eða drepast, og vonandi mun ég komast í internet þarna úti til að blogga aðeins.
Skák | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Annáll ársins 2006
Einn athygliverðasti bloggarinn hér á mbl.is er Akureyringurinn Stefán Fr. Stefánsson. Hann skrifar nær undantekningarlaust mjög vandaða og vel unna pistla. Einn þeirra er áramótapistillinn, sem hér á blogginu er reyndar aðeins framlenging, eða vísun á lengri og ítarlegri pistil. En þar segir m.a. um helstu atburði ársins 2006.
Ársins 2006 verður í framtíðinni eflaust minnst hér heima sem ársins er herinn fór, Halldór Ásgrímsson hætti þátttöku í stjórnmálum og sagði af sér sem forsætisráðherra, Geir H. Haarde varð forsætisráðherra, Jón Sigurðsson varð formaður Framsóknarflokksins og skipti um kúrs í Íraksmálinu, R-listinn leið undir lok og Vilhjálmur Þ. varð borgarstjóri, talað var um hleranir í kalda stríðinu, Jón Baldvin sagðist hafa verið hleraður, þjóðin hafnaði slúðurblaðamennsku DV, Hálslón varð að veruleika, Ómar kastaði af sér grímu hlutleysis í virkjunarmálum, Árni Johnsen náði öruggu þingsæti að nýju í prófkjöri í Suðurkjördæmi og nefndi afbrot sín tæknileg mistök, slökkt var á NFS og hvalveiðar hófust að nýju í atvinnuskyni.
Á erlendum vettvangi bar hæst að Saddam Hussein var tekinn af lífi í Bagdad, George W. Bush og Tony Blair áttu í miklum pólitískum erfiðleikum, repúblikanar misstu meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og breski Verkamannaflokkurinn missti mikið fylgi í byggðakosningum, Donald Rumsfeld sagði af sér, vargöld ríkti í Líbanon, Ariel Sharon fékk heilablóðfall sem leiddi til þess að hann varð óstarfhæfur og áratugalöngum stjórnmálaferli hans lauk, Ehud Olmert varð forsætisráðherra Ísraels, vinstristjórn Göran Persson féll í Svíþjóð og borgaraflokkarnir komust til valda, skopmyndir af Múhameð ollu ólgu í Mið-Austurlöndum, Augusto Pinochet og Slobodan Milosevic létust og Berlusconi missti völdin.
Fleira má svosem nefna, en þessi upptalning felur aðeins í sér atburði á stjórnmálasviðinu, en er sem slík mjög góð og telur fram þetta helsta. Guðmundur Steingrímsson bætir nokkrum góðum við. En menn geta talið upp t.d. aukna útrás íslenskra fyrirtækja og góðan árangur þeirra, áframhaldandi Baugsmál, áfangasigur Hannesar Hólmsteins á tvennum vígstöðum, "dissun" íslensku bókmenntaverðlaunanna, Íslandsmet Hannesar Hlífars, sem varð Íslandsmeistari í skák í 8. sinn, stórkostlegan árangur skáksveitar Taflfélags Reykjavíkur, sem lenti í 5.-12. sæti í Meistaradeild Evrópu í skák (þar sem flestir sterkustu skákmenn heims kepptu), heimsmeistarakeppnina í fótbolta, endurkomu Guðjóns Þórðarsonar í fótboltann á Íslandi, góðan árangur íslenska handboltalandsliðsins, afrek Eiðs Smára, skandall Silvíu nætur, ýmsa merkilega menningarviðburði, og ekki má gleyma Unni Birnu, sem var brosandi fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi, útrás Latabæjar, aukinni sölu íslenskra bóka erlendis, hræringar á fjölmiðlamarkaði, deilur um virkjanir og álver, útlendingaumræðu Frjálslynda flokksins, málefni Byrgisins, o.s.frv. Af nógu er að taka.
Árið 2006 var að mörgu leyti viðburðaríkt, og sennilega viðburðarríkara þegar á heildina er litið en síðustu ár. Það sem mér sjálfum er eftirminnilegast er t.d.:
- Fuegen 2006, þegar við strákarnir í Taflfélagi Reykjavíkur slógum í gegn í Meistaradeild Evrópu í skák, þrátt fyrir að vera með töluvert veikari sveit en önnur lið í toppbaráttunni, og lenda þar að auki í ýmsum hremmingum, s.s. veikindum liðsmanna og að tveir lykilmenn þurftu af persónulegum ástæðum að bregða sér heim á undan hinum.
- Borgarstjórnarkosningarnar 2006, þegar R-listinn gaf upp öndina og Sjálfstæðisflokkurinn komst aftur til valda.
- Hræringar á vettvangi stjórnmála (Halldór hættir osfrv) og á fjölmiðlamarkaði (DV o.fl.)
Persónulega hef ég misst áhugann á umræðunni um virkjanir og álver. Og ekki skil ég, hvers vegna Ómar Ragnarsson, sem hefur í mörg ár verið í miklu uppáhaldi hjá mér, var kosinn maður ársins. Hann hefur í mörg ár haft tækifæri til að ferðast um óbyggðirnar og þar liggur hjarta hans. En sum okkar hafa aldrei farið þangað, sumir hefðu aldrei farið þangað (norð-norðaustur af Vatnajökli) nema þar stæði til að virkja, osrfv. Ég held nefnilega að mótív Ómars séu af persónulegum hagsmunum fram borin, en ekki skv. þjóðarhagsmunum. Ég vil líka vitna í Halldór Laxness, sem sagði svo:
Erlendur vinur minn í Unuhúsi [var] vanur að segja við mig: þú nýtur þess ævilángt að vera borinn og barnfæddur við leingsta borgarstræti á Íslandi (semsé Laugaveginn). Fyrir bragðið þurftirðu ekki að eyða tíu-tuttugu árum til að hafa úr þér sveitamanninn. Erlendur þreyttist aldrei á að þakka sínum sæla að vera reykvíkingur, og það var fjallgrimm vissa hans að ekki væri nema einn staður á Íslandi andstyggilegri en sveitirnar, og það væru óbygðirnar.[1]
Það er nokkuð merkilegt, en sumir reyna að láta líta svo út fyrir, að þeir einir séu umhverfisverndarsinnar og til að geta kallað sig svo, þurfi menn að vera á móti því að hrófla við hvorki einu né neinu. Ég er sjálfur alinn upp í sveit, þar sem eru miklar "óbyggðir" og met bæði landslag og náttúru mikils, svo ekki sé talað um dýralíf. En ég fatta ekki þennan gauragang út af stað, sem innan við 1% þjóðarinnar höfðu komið til, og fæstir jafnvel vitað að væri til, þegar mikið hagsmuna mál þjóðarinnar er að veði, að mínum dómi a.m.k. Umhverfisvernd er góð, í teoríunni, en svo er með hana eins og margt annað, að hún hefur þá tilhneigingu að falla í hendur róttæklinga og öfgamanna, og verður þá oft á tíðum óaðgengileg venjulegu fólki.
Fjölmiðlafárið hefur verið meira nú en oft áður. Baugur á orðið beit eða óbeint flesta helstu miðla landsins. Það snertir mig voðalega lítið. Það er engin sáluhjálparforsenda fyrir sjálfstæðismenn að vera á móti Baugi. Jón Ásgeir og Jóhannes mega eiga þessa miðla ef þeir vilja, mín vegna, eins lengi og þeir beita þeim ekki í eigin hagsmunabaráttu. Á því hefur reyndar borið, en hugsanlega fyrst og fremst af vilja þjónustufólksins til að þjóna húsbændum sínum af trúfesti. En DV var sem betur fer komið á haugana, í fyrri mynd a.m.k. Það var gott að losna við þessa sorablað af markaðnum. En ekki er útséð með, að það rísi kannski aftur.
Og framundan er kosningavetur. Ég efa ekki, að margt athyglivert muni gerast á næstu mánuðum. En nú er kaffið tilbúið, svo ég segi mig frá frekari orðræðu um árið sem er að líða.[1] Halldór Laxness: Í túninu heima (Rvík 1975), 8.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Eru Reyknesingar gengnir af göflunum, eða...?
Síðustu mánuði og ár hafa fréttir verið áberandi um ofbeldi og slagsmál í Reykjanesbæ, en slíkir atburðir hafa oftast verið í sambandi við skemmtistaði bæjarins. Ég hef engar tölur við hendina um fjölda alvarlega ofbeldisverka í gömlu Keflavík, en mér þykir ljóst, að hvergi á Íslandi sé eins hátt hlutfall alvarlegra líkamsárása og þar.
Þetta er auðvitað óviðundandi, eins og gefur að skilja. Þessi friðsami staður er orðinn einskonar vestrabær, þar sem menn skeyta lítt um lögin, en fara sínu fram þegar kvölda tekur og Bakkus hlýðir á blót fylgjenda sinna. Maður hlýtur að spyrja sig þeirrar spurningar, hvers vegna hlutfall grófra líkamsárása sé svona hátt á þessu svæði? Getur verið, að skemmtistaðir bæjarins séu að gera eitthvað mjög, mjög vitlaust, eða þá að þarna sé komin upp einhvers konar verbúðarstemning? Eru kannski Reyknesingar drykkfelldari en aðrir, eða ofbeldishneigðari? Eða er einhver önnur ástæða þarna að baki?
![]() |
Alvarleg líkasmárás í Keflavík í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Hanaspáin 2007: íslensk stjórnmál
Kosningar 2007:
Sjálfstæðisflokkurinn vinnur stórsigur í þingkosningunum 2007 og fær tæp 40% atkvæða. Vinstri grænir vinna einnig góðan sigur og fá 22% atkvæða, ásamt Samfylkingunni, sem bíður afhroð. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir af sér formennsku. Frjálslyndir fá tæp 10% atkvæða, Framsóknarflokkurinn rekur lestina og fær engan þingmann kjörinn beint í Reykjavík, en Jónína Bjartmarz kemst inn sem uppbótarþingmaður. Framsóknarmenn fá nú aðeins kjörna þingmenn úr sveitakjördæmunum.
Formannsskipti verða í þremur flokkum. Eftir miklar deilur í Samfylkingunni verður málamiðlunarkandidat kosinn formaður flokksins. Margrét Sverrisdóttir verður formaður Frjálslynda flokksins; Jón Magnússon hverfur á braut. Jón Sigurðsson segir af sér formennsku og Birkir Joð tekur við.
Þremur dögum eftir kosningar verður mynduð meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Geir Haarde verður forsætisráðherra. Sturla Böðvarsson og Björn Bjarnason ganga úr ríkisstjórn, og inn koma Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson. Steingrímur Joð verður fjármálaráðherra, Ögmundur Jónasson félagsmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra, Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra.
Kristinn H. Gunnarsson fellur af þingi og verður trillukarl í Bolungarvík. Björn Bjarnason verður ritstjóri Morgunblaðsins. Árni Johnsen segir sig úr þingflokki sjálfstæðismanna, en heldur áfram að styðja stjórnina. Tími Jóhönnu Sigurðardóttir kemur ekki að sinni. Það mun gusta um Jón Baldvin Hannibalsson, sem hverfur smám saman af sviðinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur við stjórnunarstöðu hjá Baugi Grúpp.
![]() |
Sjálfstæðismenn fengju meirihluta í borginni samkvæmt nýrri könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Hanaspáin 2007: íþróttir
Enski boltinn:
Allt gengur á afturfótunum hjá Chelsea. Mourinho og Abramovich rífast og í kjölfarið hverfur sá portúgalski frá félaginu á vordögum. Við tekur Sven Göran Eriksson, sem byrjar á því að fá David Beckham til félagsins. Man Utd fagnar meistaratitli, Arsenal og Liverpool komast í Meistaradeildina, eftir hörku baráttu við Bolton. Watford, Sheffield United og Middlesbrough falla, eftir mikla dramatík. Upp koma Birmingham, Stoke og Derby. Christiano Ronaldo er valinn leikmaður ársins.
Helstu félagaskipti: Chelsea fær Beckham á frjálsi sölu frá Real Madrid. Kaupir Micah Richards fyrir um 20 milljónir punda frá Man. City. Man Utd kaupir sóknarmann frá Ítalíu. Liverpool kaupir Johnny Heitinga frá Ajax til að styrkja vörnina. Vandræði skapast með makaskipti Baptista og Reyes, hjá Arsenal og Real. Arsenal kaupir Sebastien Frey markvörð til að fylla skarð Jens Lehmanns. Tony Adams gerist þjálfari hjá Arsenal.
Spænski boltinn:
Barcelona nær að verja meistaratitilinn, eftir harða baráttu við Real Madrid, Sevilla og Atletico Madrid.
Íslenski boltinn:
Valur vinnur meistaratitilinn, FH verður í öðru sæti. Stjórn FH ákveður að hætta að spila í Tottenham búningnum.
Handboltinn:
Íslenska landsliðið lendir í þriðja sæti á HM. Sigra Þjóðverja í aukakeppni um þriðja sætið. Guðjón Valur Sigurðsson verður markakóngur mótsins, Ólafur Stefánsson með flestar stoðsendingar.
Valur verður Íslandsmeistari karla í handbolta.
Annað:
Guðmundur Stephensen verður valinn íþróttamaður ársins.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 30. desember 2006
Ný skoðanakönnun um fylgi flokkanna
Ríkisútvarpið greinir frá í kvöld frá nýrri skoðanakönnun um fylgi flokkanna, (viðbót; komið á mbl.is líka) annars vegar í Reykjavík og hins vegar á landsvísu. Samkvæmt niðurstöðum hennar fær Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meiri hluta í borginni, 8 borgarfulltrúa. Samfylkingin bætir við sig 2% og fengi einn fulltrúa til viðbótar, VG héldi sínu en bæði Framsóknarmenn og Frjálslyndir detta úr borgarstjórn.
Hugsanlega fara framsóknarmenn niður í logum vegna ráðningarmálanna frægu, en mér finnst það nú engu að síður ódýrt. En ég átta mig ekki á, hvað Samfó hefur afrekað til að bæta við sig 2 prósentustigum, og Frjálslyndir til að fá þó 4% fylgi, hugsanlega úr hópi þeirra innfæddra, sem búa í Fellahverfi.
Ríkisstjórnin stendur afar tæpt á landsvísu, ekki síst þar eð Framsókn er á niðurleið. Finnst mér líklegast, að þar komi til ósannfærandi formaður. Svo segir í frétt RUV:
Rétt rúmlega helmingur þátttakenda í könnuninni styður ríkisstjórnina. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi á landsvísu, tæp 38% - 4 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. Samfylkingin er með 24% - 7 prósentustigum minna en fyrir tæpum fjórum árum. Vinstri grænir eru með tæp 19% sem er tæplega tvöfalt meira fylgi en í kosningunum. Þá hefur Frjálslyndi flokkurinn bætt sig um rúm þrjú prósentustig frá kosningum, í 11%. Framsóknarflokkurinn nýtur minnst fylgis eða tæplega 9% en var með tvöfalt meira fylgi í alþingiskosningunum 2003.
Þetta kemur í raun ekki á óvart. Samfylkingin fer eðlilega niður í logum, en heldur þó merkilega miklu fylgi. Það kæmi mér þó ekki á óvart, þótt VG færi yfir Samfó í kosningunum, eða stæði um það bil jafnt að vígi. Framsókn er að hverfa af vettvangi og Frjálslyndir eru komnir 2 prósentustigum yfir þá grænu. Þar virðast Frjálslyndir græða á innflytjendamálinu, en Framsóknarflokkurinn tapar sennilega á lélegum formanni og einhverju andleysi, ásamt því að XB virðist eiga í erfiðleikum með að fóta sig á breyttu svelli stjórnmálanna.
En a.m.k., þá virðist næsta ríkisstjórn annað hvort verða núverandi stjórnarandstaða eða þá, að annar sósíalistaflokkurinn gengur inn með Sjálfstæðisflokknum í trausta meiri hluta stjórn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)