Er von á breytingum á Kúbu?

imagesCA0RGPT6Fidel Castró virðist nú liggja fyrir dauðanum, eða a.m.k. á hann ekki langt eftir. Í besta falli verður hann það veikur, að hann muni ekki geta stjórnað Kúbu með sama hætti og áður. Hvernig sem heilsa eða líf Fidels Castrós verður, virðist bróðir hans, Raúl, vera sá, sem stjórna muni landinu á næstu misserum, eins og hin síðustu.

En verða einhverjar breytingar? Mun sósíalisminn gefa eftir á Kúbu? Ég skal viðurkenna, að ég þekki ekki mjög vel til á Kúbu. Ég veit þó, að þegar Castró-bræður og félagar þeirra gerðu byltinguna frægu 1959 (ef ég man rétt), var Fidel fyrst og fremst þjóðernissinni. Að sumu leyti minnir hann mig á Gamal Abdul Nasser í skoðunum. Jafnframt var andstaða hans við Batista-stjórnina þjóðernissinnuð, svipað eins og andstaða Nassers við konungsstjórnina í Kairó. En þegar Bandaríkin snerust öndverð gegn Castró, leitaði hann til Ráðstjórnarríkjanna og í kjölfarið komst sósíalismi smám saman á í landinu.

Raúl, hins vegar, hafði verið sósíalisti frá unga aldri. Hann fæddist 1931, yngstur þriggja Castró-bræðra og nokkurra systra. Fidel og Raul stunduðu báðir nám við Jesúítaskólann í Havana. Þar skaraði Fidel fram úr og stóð sig afbragðs vel; Raúl sinnti náminu lítt, en hóf þátttöku í unglingahreyfingu sósíalista, sem var tengd Kommúnistaflokki Kúbu, sem aftur á móti var á mála, beint eða óbeint, hjá Kremlverjum. En báðir tóku þeir þátt í fjöldamótmælum stúdenta gegn Batista stjórninni, en hvor á sínum forsendum.

Það var Raúl, sem vingaðist við Ernesto "Che" Guevara og tengdi hann við byltingarsinna á Kúbu. Hann tengdi skæruliðahóp þeirra bræðra við erindreka KGB og virðist hafa verið einskonar tengiliður Ráðstjórnarríkjanna á Kúbu, eða a.m.k. meðal skæruliða Fidels Castrós. Hann varð síðan í forystusveit Kúbustjórnar, á tíð bróður hans, Fidels, jafnan hægri hönd bróður síns og næstráðandi lengi vel. (Heimild: Wikipedia).

Raul ku vera gamaldags, kaldur og íhaldssamur; að flestu leyti ólíkur Fidel. En hvernig stendur á því, að talið er, að Raúl muni jafnvel breyta þeim stjórnarháttum og þeirri sósíalísku stefnu, sem hann sjálfur átti sennilega mestan þátt í að koma á laggirnar? Hvers vegna hefur hann þá ekki talið bróður sinn á, að gera nauðsynlegar breytingar...ef breytingar eru á annað borð nauðsynlegar?

En a.m.k. verður spennandi að fylgjast með framvindu mála á Kúbu á komandi misserum. Og hver veit nema næsti forseti Bandaríkjanna muni aflétta viðskiptabanninu? Kannski mun Kúba blómstra á næstu árum og áratugum sem aldrei fyrr?


mbl.is Raul Castro boðar frjálslyndari stjórnunarhætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband