Stóra hlerunarmálið: Jafnvel ég hef verið hleraður!

Jæja, nú hefur hið opinbera komist að þeirri niðurstöðu, eftir ítarlega rannsókn, að ekkert sé hæft í þeim fullyrðum Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrv. utanríkisráðherra, og Árna Páls Árnasonar, tilv. alþingismanns, um, að símar þeirra hafi verið hleraðir.

Nokkrir bloggarar hafa gert sér þessar niðurstöður að tilefni til greina, t.d. Ómar, Stefán Fr. og Guðmundur Magnússon. Ómar og Guðmundur fóru báðir fram á, að tvímenningarnir skuldi þjóðinni skýringar, enda ekki að furða. Jón Baldvin notaði þetta mál til að vega að Birni Bjarnasyni, sem þá átti í prófkjörsbaráttu, en Árni Páll vísast til að koma sér á framfæri, enda stóð hann þá í prófkjörsbaráttu, sem háð var undir auglýsingabanni. Þetta ræðir Ómar í sínum pistli, m.a.

Þetta er allt hið furðulegasta mál og vil ég ekki taka afstöðu í þessu máli, annað en að benda á niðurstöður rannsóknarinnar. Ég þekki hvorugan þessara manna neitt persónulega, nema e.t.v. að örlitlu leyti. Árni Páll var stundakennari í M.H. forðum daga og sótti ég þar hjá honum tíma í lögfræði. Ég var síðan búsettur um hríð í Washington DC, meðan Jón Baldvin var þar sendiherra, en hitti hann aldrei, þó frú Bryndís hafi ég hitt a.m.k. einu sinni eða tvisvar og er henni enn afar þakklátur fyrir þá aðstoð, sem hún veitti mér þarna vesturfrá. Minnist ég okkar samskipta með þakklæti.

Ég veit ekki hvort rannsókn þessi hafi í raun getað staðfest fullkomlega, að símar Árna Páls og Jóns Baldvins hafi ekki verið hleraðir, einu sinni eða oftar. Slík starfsemi er þeirrar tegundar, að maður efast um, að "starfsmenn" í slíku verki, hafi skilið eftir sig slóð, hvað þá skriflegar heimildir. Því tek ég þessari niðurstöðu ekki sem algildum sannleika í málinu, þó vissulega bendi hún til, að ásakanir Jóns Baldvins og Árna Páls þurfi ekki endilega að vera réttar.

En það, sem stendur upp úr í málinu, er, að ásakanir þessara tveggja manna komu á frekar óheppilegum tíma og bornar fram í samhengi, sem er mjög umdeilanlegt. Og helst hefðu þær átt að koma fram "almenns eðlis", en ekki á þá vegu, að beina sökinni á einstakling/a, sem eru látnir, og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, eða eru e.t.v. bundnir þagnarskyldu.

En vonandi mun þetta mál skýrast enn betur á næstu dögum.

Síðan má nefna, að ég stend í þeim sporum, ásamt flestum Íslendingum, sem hafa alist upp eða átt heima í sveit, að hafa verið hleraðir; eða farið t.d. "í sveit" á unglingsárum. Þar kemur sveitasíminn margfrægi til sögunnar. En ég efast um, að ég hafi sagt nokkuð merkilegt við ömmu fyrir sunnan, eða aðra, sem ég tjáði mig við sem barn. En ég efa það ekki, að kommúnistinn í sveitinni hafi gefið KGB nákvæmar skýrslur um allt sem ég sagði.

Og ég neita því algjörlega, að ég hafi sett "ég hef verið hleraður" í titilinn til að fá aukna aðsókn á síðuna mína. Ég verð að æfa lögreglukórinn í allt kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband