Rússlandsför 1921

Fyrir 11 árum eða svo hætti ég að skrifa hér. Hef ekki séð ástæðu til að koma aftur. Fésbókin hafði tekið við. Nú á vordögum 2021 eru liðin 100 frá því að Ólafur Friðriksson, sem var þá einna helst syndikalisti eða anarkó-kommúnisti í skoðunum, fór á heimsþings Kominterns í Moskvu ásamt Ársæli Sigurðssyni ungkommúnista. Ég skrifaði nokkuð um þessa ferð og afleiðingar hennar í Roðanum í austri (2011) og datt í að rifja aðeins upp, vorið 1921.

 

 

"Upplýsingamyndband" 

 

Rússlandsförin 1921

 

 moskva1920_a

  Ólafur Friðriksson hóf umsvifalaust að skipuleggja ferð sína þegar hún hafði verið ákveðin, meðal annars í samráði við Fredrik Ström, óopinberan ræðismann bolsévikastjórnarinnar í Stokkhólmi.[1] Ári áður hafði Hendrik Ottósson orðið að segja upp starfi sínu við flokksmálgagnið vegna heimsþingsferðar, þar eð annars gæti blaðið misst dönsku próventuna. Jón Baldvinsson gerði nú engar slíkar kröfur til ritstjórans, hugsanlega í ljósi góðra gjafa Kominterns árið áður.

Ólafur sigldi utan með Gullfossi til Kaupmannahafnar 5. maí 1921, með viðkomu í Vestmannaeyjum og Peterhead í Skotlandi, þar sem Héðinn Valdimarsson fór frá borði.[2] Í Höfn heilsaði hann upp á vini og venslafólk, gamla félaga og nýja, fór í Tívolí og dýragarðinn, snæddi á „auðmannsveitingahúsinu“ Wivel og gekk um götur að skoða mannlífið.[3] Nokkrir fornir félagar hans voru nú í fararbroddi nýstofnaðs Kommúnistabandalags, sem sameinaði Kommúnistaflokkinn og Félag syndikalista.[4] Christian Christensen ritstjóri hafði átt frumkvæði að sameiningunni ári áður. Málgagnið Solidaritet var þá nær gjaldþrota og taldi hann að Rússagull væri eina björgunin. Niðurstöður fengust þá ekki en málamiðlun náðist í maí 1921 með stofnun bandalagsins og sameinaðs málgagns þess, Arbejderbladet. Komintern sendi jafnharðan 65.000 danskar krónur fyrir rekstrarkostnaði fyrstu þrjá mánuðina og veitti vilyrði fyrir frekari styrkjum. Lítil sátt var þó á milli armanna tveggja og virðist Rússagullið eitt hafa haldið þeim saman. Báðar fylkingar bandalagsins áformuðu að senda fulltrúa á heimsþing Kominterns en syndikalistar áttu jafnframt erindi á stofnþing Profinterns (Rauða verkamannasambandsins). Meðal fulltrúanna voru Georg Laursen, Aage Jørgensen, Sigvard Hellberg, Thøger Thøgersen og Niels Johnsen sem höfðu látið að sér kveða í baráttu fyrir útbreiðslu róttækrar byltingarhyggju í Danmörku og sumir víðar.[5]

          Ólafur Friðriksson fylgdist vel með þróun sósíalisma í Danmörku og hefur vísast rætt um stöðu mála við félaga sína. Hann hafði þó meiri áhuga á heimsþinginu í Moskvu og ritaði „félaga Ström“ frá Höfn með beiðni um viðtalstíma að þremur dögum liðnum.[6] Ström var þá hættur erindrekstri varðandi mál Íslendinga og Dana og Finninn Allan Wallenius var kominn í stað hans.[7] Engum sögum fer af fundi Ólafs með erindrekum Kominterns í Stokkhólmi en vænta má að hann hafi verið hefðbundinn við slík tækifæri.

 Allan Wallenius ungur(mynd Allan Wallenius).      Um kvöldmatarleytið mánudaginn 23. maí 1921 héldu þingfulltrúar danskra og íslenskra kommúnista frá Kaupmannahöfn eftir hefðbundin vandræði af völdum auðvaldstollvarða.[8] Með þeim sigldi indverski heimspekingurinn Rabindranath Tagore sem hafði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1913. Móttakan var góð í Torsgatan 10D í Stokkhólmi og fór sendinefndin í skoðunarferðir um borgina. Yrjö Sirola, Allan Wallenius og félagar þeirra höfðu til reiðu allan nauðsynlegan útbúnað og heimsþingsgögn. Miðvikudagurinn fór í hefðbundinn undirbúning og fengu þingfulltrúarnir ríkulegt skotsilfur til fararinnar. Ólafur gat þess að þrjátíu stundir í Stokkhólmi hefðu liðið eins hægt og vika. Um miðjan næsta dag lögðu ferðalangarnir í sólarhringslanga sjóferð yfir Eystrasalt til Reval (Tallinn) í Eistlandi. Fjölgað hafði í félagahópnum í Stokkhólmi og bættust nú við Svíarnir Einar Ljungberg og Hinke Bergegren en þeir ætluðu samferða dansk–íslenska hópnum til Moskvu.[9]

Næsta dag komu þeir til Reval þar sem fulltrúi Sovét–Rússlands tók á móti þeim undir rauðum byltingarfána. Eftir „hreinsunareld“ vegabréfaskoðunar eistneskra burgeisa stigu ferðalangarnir upp í bíla eða kerrur sem fluttu þá til rússneska sendiráðsins, þar sem móttökunefnd beið þeirra. Eftir stutta viðkynningu fengu fulltrúarnir úthlutað herbergjum á Hótel Petersburg í frekar hrörlegu húsi sem veitti þó skjól fyrir veðri og vindum. Þar höfðu fulltrúar ráðstjórnarinnar aðsetur og áttu samskipti við Vestur–Evrópu. Eftir smáhvíld gengu ferðalangarnir í hressingarskyni um borgina. Við þeim blasti niðurníðsla hvarvetna, allt var grátt og tómlegt yfir að líta en jafnframt áhugavert á dapurlegan hátt. Kvenskóburstarar sátu á gangstéttunum og forneskjulegar kerrur mjökuðust áfram innan um nýtískulega bíla á götunum. Margt var fagurt að sjá en alls staðar mátti líta fátækt enda voru daglaun verkamanns aðeins sögð duga fyrir litlum potti af kartöflum, tveimur franskbrauðum og einum fiski. Um kvöldið söfnuðust vestrænir kommúnistar saman á brautarstöðinni og á miðnætti rann lestin af stað til borgarinnar Narva við landamærin að Sovét–Rússlandi.[10]

Fljótið Narva hafði öldum saman legið á mörkum austurs og vesturs, þar sem rammgerð virki stóðu á báðum bökkum þess. Áður voru þar mæri kaþólskra og síðar lúterskra Germana og rétttrúaðra Slava en þar var nú brú milli kapítalískrar Evrópu og Rússlands ráðstjórnarinnar. Þar í borg keyptu ferðalangarnir rándýrt te og settu á hitabrúsa, öfluðu vatns og liðkuðu fætur. Nú kom sér vel að hafa tekið með nesti og risnu frá Stokkhólmi því að lítið matarkyns var að hafa og veigarnar þóttu dýrar. Þingfulltrúarnir komu pjönkum sínum fyrir í geymslu og örkuðu upp í útsýnisturn, þaðan sem sjá mátti til allra átta. Lítið fagurt var að sjá, einna helst kirkjuturn í fjarska innan um hálfhrundar byggingar.[11]

Í Narva bauð flokksfulltrúi bolsévika til veislu í verkalýðshúsinu og sagði þeim frá fólskuverkum hvítliða og öðrum þeim hörmungum sem yfir íbúana hefðu dunið. Eftir að hafa skoðað húsarústir og annað merkilegt héldu fulltrúarnir aftur á brautarstöðina þaðan sem lestin rann af stað á miðnætti í átt til Sovét–Rússlands.[12] Ólafur Friðriksson varð trúlega óánægður með móttökurnar því að hann var handtekinn í borginni Jamburg.[13] Virðist Ólafur hafa verið fyrsti erlendi gestur Kominterns sem handtekinn var í Sovét–Rússlandi. Óvíst er um ástæður handtökunnar en sennilega hefur verið um misskilning að ræða eða einhver formsatriði sem þurfti að sinna. Hann fékk að halda för sinni áfram og skrifaði hjá sér nöfn tveggja manna þar í borg, Felíks Sínavers ritstjóra og Jakovs Maleskíjs, ritara Kommúnistaflokksins. Líklega hafa menn þessir fengið hann lausan úr prísundinni. Snemma næsta morguns komu ferðalangarnir til Petrograd, þar sem þeir biðu um stund uns bifreið flutti þá til Astoría–hótelsins. Víktor Kíngísepp, erindreki Kominterns, tók þar á móti þeim og stefndi hópnum til veislu í matsalnum. Að máltíð lokinni var fulltrúunum ekið í skoðunarferð um borgina.[14] 

 

astoria

Ástandið í Petrograd virtist hafa versnað mikið frá því árið áður þegar Hendrik Ottósson og Brynjólfur Bjarnason urðu þar helst varir við fagurt mannlíf, íburðarmiklar byggingar og gyllta kirkjuturna. Bolsévikar höfðu greinilega haldið illa á spilum sínum því að rústir „urðu þá alls staðar á vegi manns,“ sagði Ólafur, „bæði í Pétursborg og Moskvu“.[15] Ísaksdómkirkjan var þó tignarleg og hljómlistin fögur innandyra. Ólafur vakti sérstaka athygli á líkneskjadýrkun kirkjugesta:

 

!Gamla konan var loks búin að signa sig nægju sína frammi fyrir Guðsmóður. Hún byrjaði nú á sama leik fyrir framan Kristsmyndina, signdi sig þar og hneigði af mesta kappi. Meðan hún var að því kom önnur gömul kona, ég hygg sú óþrifalegasta sem ég hefi séð, og kysti á naglaförin. Svo kom ung kona með tvö börn, lét þau kyssa naglaförin og gerði það sjálf. Gamla konan, sem signdi sig svo verklega, hafði nú lokið því og kysti nú naglaförin. Ég var nú búinn að sjá nóg af þessu í bili. Góða viðkynningin við rússnesku kirkjuna var farin út um þúfur. Ég sá að það var engin furða þó ervitt væri í Rússlandi að hefta útbreiðslu næmra sjúkdóma!.[16] 

 

Kirkjan ætti jafnframt fjölda dýrgripa og töldu Ólafur og félagar hans að best væri að selja þá og kaupa eitthvað nytsamt fyrir andvirðið. Niðurstaða hans var að þrátt fyrir fagran söng væri stofnun þessi alveg óþörf og sennilega til meira ógagns en þurftar.[17]

Hópurinn fór síðan sömu hringferðina og aðrir gestir bolsévika, í Vetrarhöllina, Péturs–og–Páls fangelsið, á Nevskíj Prospekt og aðra merkilega staði. Um kvöldið var ferðinni haldið áfram yfir rússnesku slétturnar til Moskvu. Um hádegisbil 30. maí 1921 renndi lestin inn á brautarstöðina í höfuðborg Sovét–Rússlands eftir þægilega næturferð með skrautvögnum ráðstjórnarinnar. Þar biðu þeirra lúðrasveit sem lék Internationalinn við hvurn sinn fingur og móttökunefnd Kominterns sem dreif þá út í bíla.[18] Ólafur Friðriksson, Ársæll Sigurðsson og norrænir félagar þeirra voru komnir til Moskvu.

 

Moskva 1921

Moskva klæddist hátíðarbúningi sumarið 1921. Þúsundir verkamanna unnu við að undirbúa borgina fyrir komu erlendra gesta á heimsþing Kominterns og stofnþing Profinterns, alþjóðasambands rauðu verkalýðsfélaganna. Hótel Lúx á Tverskaja hafði á síðustu stundu verið undirbúið fyrir komu þeirra, meðal annars með því að þrífa uppsöfnuð óhreinindi og safna þar saman matvælum, ásamt því að efla öryggisgæslu til muna.[19] Rauðir fánar blöktu víða, sér í lagi á opinberum byggingum og bolsévikahótelunum. Versta óþrifnaðinum var sópað af strætunum, flökkubörnin voru sett í gæslu, betlarar fluttir burtu og vændiskonur fangelsaðar, fluttar burt eða þjóðnýttar. Helstu samgönguleiðir borgarinnar voru skreyttar slagorðaborðum og litaspjöldum, öryggisverðir sáust hvarvetna og Tsjekuliðar þrömmuðu um til að stugga við bröskurum og eftirstandandi flökkubörnum sem komu sér óþægilega oft fyrir á áróðurslega mikilvægum stöðum. Stjórnleysingjaforinginn Emma Goldman segir svo frá:

 

"Þingfulltrúar komu nú inn hver á fætur öðrum. Þeir fengu konunglegar móttökur og voru hátíðir haldnar við komu þeirra. Þeim var fylgt að skoða skóla, barnaheimili, nýbyggðir og fyrirmyndarverksmiðjur. Hefðbundnin Potemkín–þorp voru svo höfð til sýnis. Þeir ... hlutu þann heiður að fá að ræða við Lenín eða Trotskíj, heimsóttu leikhús, tónleika og ballettsýningar, fóru í skoðunarferðir eða fylgdust með hersýningum. Í stuttu máli var allt mögulegt gert til að þingfulltrúarnir kæmust fyrirfram að jákvæðri niðurstöðu um þau stefnumál sem síðar voru opinberuð þeim á þingum Rauða verkamannasambandsins og Kominterns."[20]

 

Bolsévikahótelin í miðborg Moskvu voru heimur út af fyrir sig. Þau voru vel varin utanaðkomandi áhrifum og í raun slitin úr sambandi við borgarbúa. Umhverfis þau stóðu hópar Tsjekuliða og annarra öryggisvarða sem hindra áttu aðgang innfæddra þar að. Innan veggja hótelanna var gæslan enn víðtækari því að Tsjekan þurfti ekki aðeins að gæta gestanna fyrir áhrifum vondra manna utanfrá heldur einnig að hafa auga með hugsanlegum svikurum innanhúss. Hún hafði nær ótakmörkuð völd og lágu þræðir hennar víða. Sumarið 1918 hafði Tsjekan 12.000 starfsmenn en í ársbyrjun 1921 um 280.000.[21] Á helstu hótelunum í Moskvu voru flestir starfsmennirnir á vegum Tsjekunnar, allt niður í skóburstara, þjónustustúlkur og flokksnýttar vændiskonur.

 

Lux1921  

 

      Fyrir utan Hótel Lúx á Tverskaja stóðu opinberar bifreiðar Kommúnistaflokksins, tilbúnar að flytja þingfulltrúa á milli staða. Reyndar voru þær flestar með fastsettar leiðir á helstu sýningarstaði bolsévika eða til og frá Kreml en gestir gátu þó pantað vagn til að skoða ákveðna staði eða heimsækja byltingarsinnaða kunningja sína. Á Tverskaja stóðu hópar Tsjekuliða sem gættu hótelsins og fylgdu útlendingum um borgina. Meðal þeirra voru einnig túlkar sem jafnframt áttu að forða erlendu gestunum frá óæskilegu samneyti við almenning og sósíalíska gagnbyltingarsinna. Gengt hótelinu stóðu konur og börn á gangstéttum og í skúmaskotum, og fylgdust með hermönnum bera matvæli af vörubílum. „Þegar örfáir molar falla til jarðar, stökkva svangir Moskvubúar í drulluna til að tína upp þá stærstu þeirra.“[22]

Hótel Lúx reyndist þó of lítið fyrir gestafjöldann svo að Komintern bætti við herbergjum á Hótel Continental við Sverdlov–torg þar sem stóru leikhúsin tvö, Bolshoj (stóra) og Maly (litla), standa. Continental reis um 1890 og varð þá eitt helsta lúxushótel borgarinnar, einkum þekkt fyrir ráðstefnuhald og tónleika. Hótelið stóð beint á móti Bolshoj–leikhúsinu, virðulegt og þrungið sögu. Þar hélt Komintern oft minniháttar fundi sína í Moskvu og notaði hótelið nú einnig til gistingar. Komintern–deildin sem annaðist komu flestra útlendinga til landsins og samdi dagskrá þeirra hét Otdel agítatsíj í propagandí, deild undirróðurs og áróðurs, yfirleitt kölluð Agítprop.[23] Hlutverk hennar var þá tvíþætt, annars vegar að halda námskeið og með öðrum hætti uppfræða erlenda gesti um kenningar kommúnista og rússneskt samfélag en hins vegar að halda að þeim réttum skoðunum á öllum sviðum hins daglega lífs. Hún sá meðal annars um að skipuleggja skoðunarferðir heimsþingsgesta að þessu sinni.

Þegar norrænu þingfulltrúarnir komu til Moskvu í maílok 1921 héldu þeir fyrst á Hótel Lúx til að sækja skilríki sín, matarmiða, ljósmyndunarkort, sígarettumiða og aðrar nauðsynjar. Þaðan var þeim ekið til Hótel Continental. Eftir smáhvíld söfnuðust þeir saman í anddyrinu og fóru með fylgdarliði að skoða dómkirkjuna og Kremlarmúra, þar sem fulltrúarnir heimsóttu grafir fallinna félaga frá árinu áður, Augustu Aasens og Johns Reeds.[24] Þótt öryggisgæsla væri jafnan mikil á Sverdlov–torgi bættu stjórnvöld nú um betur og lokuðu því fyrir almennri umferð. Aðeins menn með sérstök aðgangskort fengu að fara þar um og var haft strangt eftirlit með nærliggjandi götum.[25] Ekkert skyldi raska ró erlendu gestanna, allra síst tötralýður og gagnbyltingarsinnar.

olafurFridFyrsta morguninn í Moskvu risu norrænu þingfulltrúarnir árla og fylgdu Tsjekuliðum í heimsókn á barnaheimili sem hafði verið sérstaklega undirbúið fyrir komu þeirra. Þar var fagurt á að líta, börnin voru sæl og rjóð og leið þeim greinilega vel undir hinu nýja skipulagi. Fyrsta viðkynningin af Rússlandi ráðstjórnarinnar var góð og þóttust menn greinilega sjá þær framfarir sem orðið hefðu frá því að afturhaldslið keisarans réði ríkjum. Næsta dag kom munurinn á fyrri og þáverandi stjórn enn frekar í ljós þegar gestgjafarnir héldu með Norðurlandabúana til Arkangelskoje–hallar. Þar hafði áður verið aðsetur Felíks Jússúpovs fursta sem átti að hafa myrt Grígoríj Raspútín svikamunk. Höll hans var nú hvíldarheimili fyrir veika og særða hermenn og mátti þar sjá óheyrilegan munað. Með fulltrúunum ferðaðist sérlegur myndasmiður Kominterns og tók hann myndir í gríð og erg, stillti útlendingunum upp að þörfum og smellti af. Hermennirnir kvöddu síðan gesti sína með því að kyrja „Internationalinn“ á sex eða sjö tungumálum. Næst tóku við leikhúsferðir og aðrar skemmtanir, skoðunarferðir til helstu merkisstaða í Moskvu og nærliggjandi héruðum, hersýningar, fjöldafundir, heiðursgöngur og fleira.[26]

Fyrsta vikan í Moskvu hafði liðið eins og sólskinsdraumur en nú tók að rigna. Dönsku og íslensku fulltrúarnir, sem voru mjög samrýndir í Moskvu, settust þá á skólabekk og nutu ókeypis kennslu í rússnesku og þýsku. Þeir sóttu síðan fund með Níkolaj Búkharín sem kynnti fyrir þeim nýja efnahagsstefnu Rússlands, NEP–áætlunina, og breyttar áherslur Kominterns í ýmsum málum. Um þetta leyti voru sendinefndir Norðmanna og Svía loks fullskipaðar og hittust þá norrænu fulltrúarnir til að bera saman bækur sínar um stöðu verkalýðsmála á heimaslóðum og ræða breytta stefnu Kominterns. Dagskráin hélt áfram þegar regninu linnti þar eð bolsévikar vildu gjarnan kynna fulltrúunum nýtt skólakerfi ríkisins. Það leit vel út við fyrstu sýn en þeir tóku sérstaklega eftir því að trúarbragðakennsla hafði verið aflögð og stjórnmálaáróður kominn í staðinn. Föstudaginn 10. júní tók við heimsókn í barnanýlendu í Moskvu þar sem 8.000 börn á aldrinum 5–16 ára höfðu griðastað og fengu næringarríkt fæði. Í kjölfarið hlýddu þingfulltrúarnir á fyrirlestur Þjóðverjans Fritz Heckerts um marsuppreisnina í Þýskalandi en þar tók hann harða afstöðu gegn Paul Levi og Klöru Zetkin sem höfðu mótmælt þessum ótímabæra byltingaræsingi. Moskvuráðið hélt síðan hátíð í Bolshoj–leikhúsinu þar sem sextán fulltrúar kommúnistaflokka víða um heim héldu ræður.

Dagskráin var nú farin að taka á sig fastari mynd og mánudaginn 13. júní 1921 hófst stofnþing alheimssamtaka kommúnistakvenna í húsnæði fyrrum hæstaréttar Rússlands þar sem Zetkin, Aleksandra Kollontaj og fleiri valkyrjur héldu þrumuræður yfir kynsystrum sínum.[27] Dansk–íslenska sendinefndin hélt nú annan fund sinn með fulltrúum Norðmanna og Svía á sameiginlegum fundi norrænu þingfulltrúanna. Tíminn leið hratt á hverri sýningunni á fætur annarri uns heimsþingið stóð skyndilega fyrir dyrum. Norrænu fulltrúarnir sinntu því persónulegum erindum sínum í flýti, sendu greinar heim til alþýðublaðanna og hvíldust.[28]

lenin

 

Hinn 16. júní komu þingfulltrúar saman á sérstakan fund þar sem hverju ríki var úthlutað ákveðnum fjölda atkvæða. Stærstu aðildarflokkarnir hlutu 40 atkvæði hver, en í 2. flokki með 30 atkvæði voru flokkar frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Póllandi, Noregi, Úkraínu, Júgóslavíu og Búlgaríu. Finnland og Svíþjóð voru í þriðja flokki en Ísland í þeim fimmta og neðsta með fimm fullgild atkvæði.[29] Athyglisvert er að fulltrúar Íslands voru skráðir á vegum „Kommunistische Partei“, Kommúnistaflokks Íslands.[30] Þinginu seinkaði nú enn svo að fulltrúarnir urðu að finna sér eitthvað til dundurs. Ólafur Friðriksson sagði svo frá:

 

  1. júní hófst þingið í Moskva. Stórkostleg hersýning fór fram á Rauða torginu svonefnda, og hermálafulltrúi rússnesku sovjetstjórnarinnar, Trotzki, hélt stutta ræðu: „Hér á Rauða torginu,“ sagði Trotzki, „eru nú saman komnir fulltrúar frá verkamönnum í öllum heimsálfum. Frá öllum löndum eru þeir komnir. Það eru leiðtogar byltingarmanna, sem eru orðnir reyndir í baráttunni. Í dag strengjum vér þess heit, rússneskir verkamenn og bændur, í návist þessara aðkomnu bræðra vorra, að verja fyrir fjandskap alheimsauðvaldsins hinn rauða fána alþjóðabræðralagsins. Heldur en að víkja eitt skref í baráttunni fyrir frelsun verkalýðsins, heitum vér því að leggja líf vort í sölurnar! Lifi alþjóðabræðralag verkalýðsins! Lifi alþjóðabandalag kommúnista!“ Þessum fáu orðum var tekið með fádæma fögnuði af hermönnunum og gestunum. Á eftir töluðu nokkrir af fulltrúunum og hétu fullu fylgi sinna flokksbræðra.[31]

 

Menn höfðu varla náð áttum eftir þessi glæsilegu atriði og meðfylgjandi ræður þegar svokallaðir „áróðursfundir“ hófust víða um borgina og máttu túlkar á vegum Kominterns, með Aleksandr skákmeistara Aljekín í broddi fylkingar, hafa sig alla við að koma boðskapnum til skila. Annars var dagskráin nú orðin frjálslegri en áður og fengu þingfulltrúar rúman tíma til hvíldar og greinaskrifa. Hvítasunna gekk í garð en engum norrænum fulltrúa datt í hug að fagna henni sérstaklega, heldur „vanhelguðu“ þeir daginn með því að hlusta á byltingarsöngva og hergöngutónlist.

Á öðrum degi hvítasunnu tók við glæsileg íþróttahátíð þar sem afreksmenn af ýmsum toga kepptu. Erlendir gestir mættust síðan á skemmtikvöldi á vegum Levs Trotskíjs í hátíðarsal stríðsmálaráðsins. Nú var sumum fulltrúunum farið að leiðast svo að Rússar boðuðu til opnunarhátíðar í Bolshoj–leikhúsinu að kvöldi 22. júní.[32] Mikið var í húfi því að á heimsþingi Kominterns ætlaði Lenín að opinbera breytta stefnu sambandsins og rússneskra kommúnista, annars vegar með NEP–áætluninni og hins vegar samfylkingu róttæklinga gegn sósíaldemókrötum og öðrum verkalýðssvikurum.

Tilvísanir:

[1] Bsk. E55, 10: ÓF til FS, 22. apríl 1921 (kvittun fyrir sím­skeyti).

[2] „Dagbók– Gullfoss,“ Mbl. 5. og 13. maí 1921. „Um daginn og veginn – Gullfoss,“ Abl. 6. maí 1921. Ólafur punktaði svo hjá sér á leiðinni út: „6. maí 1921: Láum norðan við Heimaklett. Hvass austan. Fórum úr Vestm. kl. 3. e.h. á leið frá landinu. 7. maí. Hvass norðaustan, leið illa ... 8. maí. Hvass austan. Sá höfrunga kl. 2. 2 stórhveli saman kl. 3 (1 stórhveli hafði sézt ½ stundu áður). Sá fýl, litla svartbak, súlu og spörfugl. 9. maí. Sólskin. Haldið suður með Skotlandi. Komið til Peterhead. 10. maí. Austur yfir Norðursjó“. ÓF: Æfidagbók, 1921.

[3] ÓF: Æfidagbók, 1921.

[4] Kurt Jacobsen, Mellem København og Moskva (Khöfn 1989), 32–33.

[5] Jacobsen, Mellem København og Moskva, 33–45. Morten Thing, „Komm­unisternes Kap­ital“ í Guldet fra Moskva, 169–171.

[6] GU, Fredrik Ström: ÓF til FS, 21. maí 1921.

[7] Fredrik Ström hætti störfum á Stokkhólmsskrifstofu Kominterns á útmánuðum eða snemma vors 1921 en Wallenius komm í staðinn og bendir margt til, samanber samskipti hans við Ólaf Friðriksson á komandi misserum, að hann hafi tekið við þessu erindi og hitt íslenska félagann í Stokkhólmi. Ström var þó áfram óopinber erindreki Lenínstjórnarinnar í Svíþjóð.

[8] Eftirfarandi frásögn er að stærstum hluta tekin úr dagbók Niels Johnsens frá Moskvu­ferðinni 1921 en hún var gefin út í, I arbejdernes Rusland. Kobbersmed Niels Johnsens Moskvarejser til Komin­tern og Pro­fintern 1921 og 1922. Dagbøger og biografi (Morten Thing og Henn­ing Grelle sáu um útgáfuna, Khöfn 1981) og punktum Ólafs frá ferðinni í ÓF: Æfidagbók, 1921.

[9] Sjá til dæmis, „Um daginn og veginn – Hinke Bergegren,“ Abl. 20. maí 1921.

[10] I arbejdernes Rusland, 39, 40. ÓF: Æfidagbók, 1921. Um Hotel Petrograd, sjá [Ethel] Snow­den, Through Bolshevik Russia (London 1920), 26–27. Sjá einnig, „Tagore í Danmörku,“ Mbl. 13. maí 1921.

[11] I arbejdernes Rusland, 40.

[12] Sama heimild. ÓF: Æfidagbók, 1921.

[13] ÓF: Æfidagbók, 1921. Ólafur greinir þó ekki frá því hvers vegna hann hafi verið hand­tekinn.

[14] I arbejdernes Rusland, 40. ÓF: Vasabók og Æfidagbók, 1921. Kíngísepp átti ekki langra líf­daga auðið en hann var tekinn af lífi í Eistlandi 4. maí 1922 fyrir landráð. Borgin Jamburg var síðar nefnd eftir honum.

[15] Haraldur Jóhannsson, Klukkan var eitt, 50.

[16] [ÓF], „Rússneska kirkjan,“ Abl. 13. júlí 1922.

[17] [ÓF], „Rússneska kirkjan,“ Abl. 14. júlí 1922. Hendrik Ottósson tók undir með Ólafi í þessu, enda hafði hann setið undir slíku kristnihaldi í Ísakskirkjunni 1920 en þá „geysaði útbrotataugaveiki í Petrograd“. Hendrik vildi helst þjóðnýta allar þessar kirkjur hið snarasta og selja innbú þeirra. Hendrik Ottósson, „,Makt myrkranna‘“, Abl. 24. júlí 1922.

[18] I arbejdernes Rusland, 40–41. ÓF: Æfidagbók, 1921.

[19] Rosmer, Moscow under Lenin, 124.

[20] Goldman, My Disillusionment in Russia, 214–215.

[21] Werth, „Ríki í stríð við þjóð“ í Svartbók kommúnismans, 74. Um Tsjekuna, völd hennar og eftirfara hennar, er rætt mjög ítarlega í, Paul R. Gregory, Terror By Quota: State Security from

Lenin to Stalin (An Archival Study) (Stanford, New Haven og London 2009). Inngangurinn er sérlega merkilegur þar sem ræddar eru forsendur og afleiðingar ógnarstjórnarinnar og fjórði kaflinn sem fjallar um pólitíska óvini einræðisherrans sem ógnarstjórnin þjónar.

[22] Berkman, The Bolshevik Myth, 305–307. Um Tjekuliða í Moskvu, sjá Patterson, „Moscow Chek­ists“. 

[23] Á þessum tíma höfðu aðeins verkalýðsfélögin, auk Agítprop, leyfi til að skipuleggja heimsóknir útlendinga til landsins. Sérstök menningarstofnun, VOKS, var síðan stofnuð 1925 og ferðaskrifstofan Intourist 1929.

[24] I arbejdernes Rusland, 41. Sjá einnig Sigvard Hellberg, „Færden til Moskva,“ Arbejderbladet 10. júlí 1921.

[25] Berkman, The Bolshevik Myth, 305–307. Svipaðar frásagnir má einnig finna hjá sumum öðrum gestum bolsévika sumarið 1921.

[26] I arbejdernes Rusland, 41–44.

[27] Sjá til dæmis, „Útlendar fréttir – Alþjóðafundur verkakvenna,“ Abl. 18. júlí 1921.

[28] I arbejdernes Rusland, 44–47.

[29] Lbs. 5228 4to: ÓF til AW, 3. október 1921. Protokoll des III. Kongresses der Kommunistischen Internationale (Hamborg 1921), 147. To the Masses. Proceedings of the Third Congress of the Communist International, 1921 (þýð. John Riddell, Historical Materialism Book Series, 91. bindi, Leiden & Boston 2015), 178.

Ársæll Sigurðsson sagði síðar að hann og Ólafur Friðriksson hefðu aðeins verið gestir á þinginu. „Ársæll Sigurðsson fimmtugur í dag“ (viðtal), Þjv. 30. október 1945. Það er rangt. Merkilegt er hve foringjar harðlínukommúnista mundu lítið frá ferðum sínum á heimsþing Kominterns á þriðja áratug og fóru rangt með helstu staðreyndir, sér í lagi hvort þeir hefðu verið fulltrúar eða gestir. Íslendingar höfðu fimm fullgild atkvæði, jafn mörg og fulltrúar Suður–Afríku, Mexíkó, Armeníu, Argentínu, Ástralíu, Nýja–Sjálands og Hollensku Austur–Indía (Indónesíu). Eftir þessa upptalningu í þingtíðindum kom skrá yfir ríki og hreyfingar sem höfðu á hinn bóginn aðeins ráðgefandi atkvæði en Ísland var ekki þeirra á meðal (To the Masses, 178).

[30] Protokoll des III. Kongresses, 13. To the Masses, 69. Hafa ber í huga að í skýrslu Ólafs Friðrikssonar og Ársæls Sigurðssonar skráðu þeir sig fulltrúa Verkamannaflokks Íslands.

[31] [ÓF], „Þriðja Internationale. Allsherjarþingið í Moskva 1921,“ Abl. 22. júlí 1921.

[32] I Arbejdernes Rusland, 47–49.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband