Kadima-klúðrið

Fyrir nokkrum misserum fagnaði ég stofnun Kadima-flokks Ariels Sharons. Vonaðist ég þannig til, að blóðsúthellingum og ofbeldi myndi linna í Landinu helga, eða a.m.k. minnka verulega frá því sem var. Vonaðist ég til, að nú myndu Ísraelar og Palestínumenn setjast að samningaborði og komast að samkomulagi, t.d. með því að byggja friðarhugmyndir á Wye-systeminu, því sem Arafat hafnaði, flestum til furðu. "Palestínumenn hafa aldrei misst af tækifæri til að missa af tækifæri", sagði Abba Eban forðum. Það reyndist þá rétt.

Kadima-stjórnin, fyrst undir forystu Sharons, síðar Olmerts, hóf að senda friðardúfur á loft. Umstand hersins á Vesturbakkanum minnkaði, herinn var síðan dreginn frá Gasa og landsetarnir með. En þetta varð bara til að auka ofbeldið og hef ég það úr nokkrum nýlegum, og aðeins eldri skýrslum, að hefði Múrinn frægi ekki komið til, hefði allt verið farið í bál og brand fyrir löngu. Mun jafnvel einn foringi hernaðararms Islamic Jihad hafa sagt, að ísraelski múrinn hefði gert sínum mönnum erfitt fyrir með að senda sjálfsmorðsliða til Ísraels, enda hefur slíkum árásum fækkað verulega, eftir að múrinn komst í gagnið. Og vegna hans hefur ísraelsku leyniþjónustunni gengið betur en áður að hafa hendur í hári þeirra, sem reynt hafa að laumast yfir landamærin með sprengjubelti. Áður en múrinn var reistur létust að meðaltali Ísraelar og 688 særðust í sprengjuárásum Palestínumanna í Ísrael. En þegar fyrsti hluti múrsins hafði verið reistur, létust að meðaltali 28 á ári og 83 særðust. 97% samdráttur. Tvær síðustu "árangursríku" sjálfsmorðsárásir Palestínumanna í Jerúsalem hafa fellt 18 manns, en sprengjumennirnir náðu þá að laumast inn í borgina frá Betlehem-svæðinu, þar sem múrinn var ekki kominn í gagnið.

Ég var nú aldrei sérstaklega hrifinn af þessum múr, en viðurkenndi, að hans væri þörf. Hér á landi og víðar hafa margir gagnrýnt múrinn, sumir harkalega, sér í lagi vinstrisinnaðir þingmenn og taglhnýtingar þeirra. Enginn þeirra hefur, mér vitandi, fagnað því, að sjálfsmorðsárásum hefur fækkað af þessum völdum. Enginn þeirra hefur, mér vitandi, viðurkennt, að Ísraelsríki hafi rétt til að verja sig árásum utankomandi óvina með því að verja de facto mæri sín.

En þrátt fyrir allt þetta hefur Kadima-flokkur Olmerts hríðfallið í skoðanakönnunum, og með þeim stærsti samstarfsflokkurinn, Verkamannaflokkurinn sem reyndar er undir forystu manns, sem er bæði óvinsæll og ómögulegur; og forystusveitin slök (að Shimoni Peres undanskildum). Þarf vísast að fara alla leið til Frjálslynda flokksins á Íslandi til að finna þingflokk, sem er jafn ómögulegur og þingflokkur Verkamannaflokksins um þessar mundir. En Kadima var og er, ólíkt Verkamannaflokknum og Likud, eins manns flokkur með eitt meginatriði á stefnuskránni. Slíkt er ekki vænlegt að skila árangri, hvorki í Ísrael né annars staðar, og fylgir Kadima-flokkurinn þar ýmsum "þriðju leiðar" flokkum eins og Dash, Miðflokknum, Yisrael Acheret, Shinui, og Ha'olam Hazeh – flokkum sem spruttu upp með dögginni, en hurfu sporlaust þegar sólin reis.

Málið er, að Kadima hefur ekki ljósa framtíðarsýn, svona eins og Samfylkingin. En í stað þess að móta skammtímastefnu með hjálp skoðanakanna, hefur Kadima-stjórnin að miklu leyti heimilað einstaka ráðherrum, sem oft koma úr sitt hverri áttinni, að reka eigið ráðuneytið og móta stefnu þess eftir eigin höfði. Því fá t.d. hófsamir ráðherrar að hrinda stefnu sinni í framkvæmd, og að sama skapi þeir róttæku. Olmert hefur nær eingöngu skipt sér af utanríkis- og varnarmálum, en hvað það síðara snertir hefur leiðtogi Verkamannaflokksins, Peretz, haft hönd á bagga.

Það er ekki að furða þó Kadima sé að hrynja; flokkurinn hefur enga heildarstefnu, enga framtíðarsýn hvað snertir efnahagsmál, velferðarmál, menntamál og þess háttar. Lífið snýst ekki bara um baráttuna við hryðjuverk og hryðjuverkamenn. Atvinnuleysi er nú gríðarlegt í landinu og víða pottur brotinn í velferðarmálum. Það verða vísast slík atriði, en ekki staða mála í friðarferlinu, er munu ráða því, hvaða flokk ísraelskir kjósendur munu kjósa í næstu kosningum, sem vísast verða haldnar fyrr en síðar.

 


mbl.is Hægri öfl í Ísrael njóta aukins fylgis skv. nýrri skoðanakönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband