Fjósamenning forfeðranna?

 

Mætir menn hafa lengi trúað og haldið því fram, að gullöld Íslend­inga hafi runn­ið upp og gengið yfir á þjóð­veldistímanum 930-1262. Þá hafi lands­­menn stj­órn­að sér sjálfir án afskipta út­lendinga, byggt upp fyr­ir­­myndar sam­­fél­ag, skrifað fræg­ar heims­bók­menntir og stofn­að Alþingi á Þing­­völlum. En áttu Ís­lend­ingar ein­hverja gull­öld? Um það má deila, því þjóð­veld­is­­­­tíminn var engu síður tíð þræla­­halds, smeddumnetblóð­hefnda, kúg­un­ar og styrj­alda en stjórn­ar­­fars­legs frelsis. Getur verið að Ís­­lend­ingar hafi verið betur settir í friði undir „er­lendu oki" en frjáls­­ir í borg­­ara­­styrj­öld­um og mann­víg­um? Víst er að þeir sem lifðu þjóð­veldis­tímann þurftu að hafa jafn mikið fyrir lífs­afkomu sinni og þær kyn­­slóðir sem á eftir gengu. Og jafn víst er að vegna átaka innanlands og margs kyns vand­kvæða þjóð­veldis­ins hafi Ís­lend­ing­­ar selt landið í hendur er­lends kon­ungs í skipt­um fyrir frið. Sam­­tímamenn gull­­­­­ald­arinnar dæmdu því sjálfir um hvers eðlis sá góð­málm­ur ætti að vera, sem kennd­ur væri við þetta tímabil Ís­lend­ingasög­unn­ar. Íslendingar voru svo ekki fyrr lausir úr frels­­­inu en þeir hertu fjötra sína enn frekar með því að loka land­inu fyrir erlendri verslun og banna vetur­setu erlendra kaupmanna í landinu. Ís­lend­ingar völdu sjálf­ir þann veg sem þeir gengu, einstigi einokunar­versl­un­ar og stjórn­valds­legrar kúg­un­ar Kaup­­manna­hafnarkóngs. Gullöldin var þó góðra gjalda verð að því leyti, að minn­ingin um forna dýrðardaga þegar Ís­lendingar sáu sjálfir um að eyðileggja frið og farsæld meðal manna gæti síðar orðið til að vekja upp von að betur myndi til takast, ef reynt yrði að nýju.

   Þórbergur Þórðarson rithöfundur hafði mjög sérstakar skoð­an­ir á meintri gull­öld Ís­­lend­inga og gerði grín að ættjarðar­vellingn­um sem sauð í mönn­um eins og Jón­asi Hallgríms­syni skáldi. En sobbeggihvernig voru þá gull­aldar­hetjur Ís­lend­inga að áliti Þórbergs? Gullaldarhjörðin

var svona upp og ofan mannskapur, að eins dálitlu her­skárri, of­ur­­­litlu grimm­ari og agnarögn ófyrirleitnari í sjálf­bjarg­ar­­við­leitninni en sam­­­­tíð­ar­menn skálds­ins [Jón­asar], og að varning­ur­inn var ósjald­an ráns­feng­ur, sem hetjur­nar, er síðan riðu um héruð, krældu í með brennum og morð­­um, ná­­kvæmlega eins og Tyrkir­­nir í því vesæla safnaðarkorni séra Jóns [Egils­son­ar] píslar­vottar.[1]

Þótt menn hafi haft skiptar skoðanir um gullöld Íslendinga mælti eng­inn á móti ættjarðarást eða föðurlandshyggju. Menn elska víst landið sitt þess meira ef það er lítils virði á heimsvísu. Jafnvel Þórbergur Þórð­ar­son var eldheitur ætt­jarðar­­sinni sem elskaði landið sitt, þótt hann hafi ekki talið við hæfi að fegra fátæk­legar minn­­ingar um „fjósa­menn­ingu for­feðranna" sem „gerði forfeður [o]kkar að ræfl­um."[2]

   En var einhver gullöld á Íslandi þjóðveldistímans? Í mínum huga var gullöld að því leyti, að þá var þjóðin frjáls undan erlendu oki, hvort sem það hét Noregur, Danmörk, Bretland eða Evrópusambandið. Þá var líka gullöld menningar og skáldskapar, en einnig var þá gósentíð launmorða, blóðhefnda og þess háttar gleðitíðinda. En hinn meinta gullöld hafði líka vankanta, eins og t.d. Þórbergur Þórðarson nefndi. En ef við lítum á það samfélag, sem var víðast hvar ríkjandi á meginlandi Evrópu vil ég halda fram, að hér hafi verið gullöld, því að stórum hluta var greint á milli hins pólítíska vald og hins kirkjulega, meðan páfinn í Róm var þá í raun sá, sem stjórnaði álfunni, burtséð frá valdi einstakra fursta og konunga. Ég las nýlega viðtal við sýrlenskan útlaga, á http://www.memri.org/, þar sem hann segir, að það besta við hina kristnu Evrópu sé, að þar hafi menn loksins gert greinarmun á þessu tvennu; pólítík og trúarbrögðum. Það hafi ekki tekist í íslam, (þó einstaka tilraunir hafi verið gerðar með aðskilnað, s.s. í Tyrklandi.) En hér á Íslandi 2006 er ríkiskirkja, sem er undir valdi hinna pólítísku valdhafa, formlega séð alla vega, þó helsin hafi linast hin síðari ár. Þar er á ferðinni arfleifð Lúters, sem vildi láta veraldlega höfðingja vera æðsta vald kirkjunnar á hverjum stað, þ.e. að koma á ríkiskirkju. Hér á landi er ríkiskirkja (þar er ég sammála próf. Gísla Gunnarssyni, en ósammála mörgum kirkjunnar mönnum) en ekki þjóðkirkja. Ef kirkjan er þjóðkirkja má segja, að þeir sem ekki tilheyra henni séu útlendingar; þ.e. ekki hluti af þjóðinni. Svona lít ég á málið, en menn mega mín vegna vera ósammála. Það er svartur blettur á sögu þjóðarinnar, svo maður sletti nú með einum af bullfrösunum úr forkonu Samfylkingarinnar, að ekki hafi enn tekist að skilja á milli ríkis og kirkju. Ef menn vilja halda því fram, að á þjóðveldistímanum hafi ríkt gullöld á Íslandi, hljóta þeir sömu að velta því fyrir sér, hvort ekki beri að lagfæra það, sem miður hefur farið í fjósamenningu forfeðranna, frá því gullöldin var og hét? Og síðan, hvort Íslendingar vilji nú enn á ný selja sig endanlega á vald útlendingum, t.d. með inngöngu í Evrópusambandið? Persónulega vil ég frekar vera blankur og frjáls, en ríkur þræll.


[1] Þórbergur Þórðarson: Rauða hættan (Rvík 1935), 161.

[2] Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru, 119.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

ert þú svo viss um að íslendingasögurnar séu dagsannar frá orði til orðs, að þú getir fullyrt að þú "vitir" að hér hafi verið hræðilegt ástand blóðsúthellinga, þrælahalds og mannvíga? Þótt ég hafi lesið þónokkrar íslendingasögur þá finnst mér ekkert benda til þess að það hafi verið "almennt" ástand. Miklu frekar blasir við spennan, frelsið og ríkidæmið sem var hér á "gullöldinni". Því meira sem ég fræðist um þennan tíma, því meira sannfærist ég um að þetta hafi verið æðislegur tími og íslendingar þá einna best setta þjóðin í allri Evrópu, ef ekki bara heiminum. Mér finnst allavega alltof algengt að fólk reyni að finna þessum tíma allt til foráttu og niðurlægingar, án þess að hafa kynnt sér málið. Það má hver hafa sína skoðun en flestir fræðimenn heillast af þessu tímabili, og fræðimenn eru yfirleitt ekki hrifnir af morðum og blóðsúthellingum. 

auk þess þá var á þessum tíma mjög gott veður hér, gróðursælt, hellingur af fólki miðað við hvað varð svo seinna og fólkið sem kom hingað átti skip, búfénað og allt til alls. Enn ein "goðsagan" um þetta tímabil sem fólk vill endilega ímynda sér að eigi við rök að styðjast er að íslenskir landnámsmenn hafi verið vandræðamenn og ribbaldar, það er svo fjarri lagi! Þetta var mestmegnis bændasamfélag og það þróaðist í eigin átt, ekki einsog ættbálkasamfélag eða konungsveldi.  

halkatla, 14.12.2006 kl. 19:34

2 Smámynd: Snorri Bergz

Sæl. Þakka þér kærlega. Ég setti fram svoldið harkalega andstæður, fyrst og fremst til að reyna að fá fram einhver viðbrögð. Ef þú lest þetta síðan aftur, með það í huga, sérðu kannski það sem ég meinti og sagði undir rós: Ekki selja sig á vald útlendinga í von um nokkrar krónur í vaxtabætur.  Frekar vera frjáls, í "gullöld", sem hefur ákveðna vankosti reyndar (sbr. á þjóðveldistímanum), en fastur í fjötrum erlendra "stórvelda", bara af því að þar eru lægri vextir og valdagírugir menn vilja fá þaðan sporslur. Þú sérð hvern ég lét mæla fyrir munn áþjánarinnar, sá maður var harður kommúnisti, maður sem fylgdi í trúnaði erlendri einræðisstefnu -- andstæði frelsis og sjálfstæðis. Hann leit á gullöldina sem bölvun. Ég lít á hana sem blessun -- tímabil frelsis og framfara, jafnvel þótt ýmsir ókostir hafi verið fyrir hendi. En ég gaf báðar hliðar, bæði argumentin, og gaf jafnvel meira pláss fyrir þann málstað, sem ég er í aðalatriðum ósammála. Í meginatriðum var ég að lauma inn eftirfarandi:

1. Ekki ganga í Evrópusambandið.

2. Aðskilja ríki og kirkju, til að hefta ekki trúfrelsið.

3. Lærum af mistökum fortíðarinnar og lokum okkur ekki inni í einangrun.

osfrv.

Snorri Bergz, 14.12.2006 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband