Aðeins um EES, Ingibjörgu Sólrúnu og Jón Baldvin

AingibjorgJæja, kratarnir vilja ganga í ESB og taka upp evruna. Það virðist vera það eina stóra málið, sem Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin hafa fram að færa umfram aðra. Sumir aðrir vilja láta EES duga, aðrir eru jafnvel á móti EES-samningnum.

Jón Baldvin Hannibalsson, sem var foringi kratanna og utanríkisráðherra í þeim ríkisstjórnum, sem helst komu að EES-samningnum (ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991 og Davíðs Oddssonar 1991-1995) kom nú um daginn fram í Silfri Egils og hélt þá skrítna ræðu um EES. Já, samningur þessi hafði verið samþykktur, af hálfu Íslendinga, í tíð vinstri stjórnar Steingríms. Formleg samþykkt hans, í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, hafi verið eins konar formsatriði. Þegar sú stjórn tók við, hafi málið meira og minna verið í höfn (ef ég hef skilið hann rétt)! En var það svo?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núverandi formaður krataflokksins, segir svo um stöðu viðræðna við ESB um EES samninginn í þingræðu 16. maí 1991: 

Umræðan hér í dag hefur kannski líka verið svolítið á þeim nótum (innskot: hinum tæknilegu). En ég ímynda mér að hjá því fari varla með mál eins og þetta. Hér hafa fyrirvarar Íslendinga verið teknir til umræðu og sagt frá því og sýnt fram á að þeir hafa ávallt verið mjög takmarkaðir og umboð utanrrh. í þessum viðræðum um Evrópskt efnahagssvæði hefur verið mjög vítt eftir því sem best verður séð. Ég hélt að menn hefðu verið nokkuð ásáttir í fyrrv. ríkisstjórn um þá fyrirvara sem Íslendingar gerðu, enda mátti ekki minna vera eins takmarkaðir og þeir voru. Þannig lýstu utanrrh. og fyrrv. forsrh. því yfir, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í kosningabaráttunni, að ekki gengi hnífurinn á milli þeirra í þeim viðræðum sem þá voru uppi þó svo að ýmsir kutar hefðu verið á lofti bæði í kosningabaráttunni og aftur hér í dag.

Nú jæja, Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson voru því algjörlega sammála í viðræðum Íslendinga um EES. Það er gaman að hafa það á hreinu, sérstaklega af þeim sökum, að framsóknarmenn reyndust síðan ekki svo mjög hrifnir af EES, þegar samningurinn var tekinn til atkvæðagreiðslu á Alþingi í tíð Viðeyjarstjórnarinnar. Hvað ætli Steingrímur hafi þá kosið?

imagesCAO41NUNEn hafa ber í huga, að Steingrímur hefur greinilega viljað hafa nokkra fyrirvara á, svo sem hvað snertir yfirráð erlendra aðila yfir náttúruauðlindum Íslendinga, og fleiri atriði. En kratarnir vildu greinilega losna sem mest við fyrirvarana og ganga með útbreiddan faðminn í EES og setja öll eggin í körfu EES og Jón Baldvin utanríkisráðherra heldur, í nýrri ríkisstjórn, til viðræðna með nánast frjálsar hendur. Ingibjörg heldur áfram:

Nú hefur hins vegar komið í ljós að það var afskaplega lítið hald í þessum fyrirvörum og þeir voru alls ekki öllum jafnljúfir. Það sést best á því að í síðustu samningalotu fór utanrrh. með það nesti í farangrinum til Brussel að honum væri heimilt að gera þessa fáu fyrirvara sem til staðar voru að skiptimynt. Það eina sem undan var skilið voru veiðiheimildir. En þannig vill utanrrh. greinilega hafa þetta. Hann vill að valdi sínu og umboði séu sem minnst takmörk sett. Hann er ekki einn um þetta. Þess hefur orðið vart að ýmsum alþýðuflokksmönnum finnst að sér sé nú dillað og þungu fargi af þeim létt. Þannig kom það fram í leiðara í Alþýðublaðinu þriðjudaginn 7. maí að þeir voru afskaplega sáttir við að vera lausir við allt fyrirvarafarganið.

Í leiðara Alþýðublaðsins segir, með leyfi forseta: ,,Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. hefur nú fengið fullt umboð nýrrar ríkisstjórnar til að ljúka samningagerð um Evrópska efnahagssvæðið.`` Það er tekið hér fram að þetta sé háð því skilyrði eins og áður að ekki komi til greina að heimila ríkjum EB aðgang að íslenskri fiskveiðilögsögu í stað tollalækkana á sjávarafurðum. ,,Eru það umskipti frá því sem var í fyrri ríkisstjórn þegar menn og flokkar voru með fyrirvara út og suður``, eins og segir í leiðaranum. Þessir fyrirvarar ,,út og suður`` voru afskaplega fáir. Þeir tóku til fjárfestinga erlendra aðila tengdra náttúruauðlindum. Þeir tóku til varnaglaákvæða varðandi frjálsan atvinnurétt og þeir tóku til þess að ekki yrði slakað á settum kröfum um öryggi, hollustuhætti og umhverfisvernd. Nú kann vel að vera að innan ríkisstjórnarinnar hafi verið einhverjir leynilegir fyrirvarar en þeir hafa þá ekki komið fram opinberlega og til lítils að vitna í þá í leiðurum blaða.

Jæja, kratarnir fengu sitt fram í Viðeyjarstjórninni, það er nokkuð ljóst. Jafnframt er ljóst, að málið hefði ekki náð fram í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, eins og Jón Baldvin hélt fram í Silfri Egils á dögunum: Samþykkt EES á tíð Viðeyjarstjórnarinnar hafi því verið eins konar formsatriði. En Ingibjörg heldur áfram: 

 

Utanrrh. sagði fyrir þessar kosningar, og hann sagði það líka oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og til þess hefur verið vitnað hér í þessum ræðustól fyrr í dag, að búið væri að semja um 98% af því sem semja þarf um varðandi Evrópska efnahagssvæðið. Hér í dag byrjaði hæstv. utanrrh. á því að kynna fyrir okkur hvernig þau 2% standa sem ekki hafði fengist niðurstaða um fyrir kosningar og enn er að ýmsu leyti ósamið um. Ég skal viðurkenna að ég skil ekki alveg hlutfallsreikning utanrrh., en það er kannski ekki nema von því ég hef orðið vör við það undanfarna daga að alþýðuflokksmenn nota einhverja aðferð sem gefur þeim hagstæðari niðurstöðu en öðrum sem spreyta sig á slíkum dæmum.


Slíkar reikningskúnstir breyta þó ekki raunveruleikanum. En raunveruleikinn í þessu máli sem hér er til umfjöllunar er sá að það sem verið er að semja um varðandi Evrópska efnahagssvæðið einmitt núna eru þau mál sem mestu skipta í bráð og lengd. Þetta eru málin sem ósamið var um vegna þess hversu stór og þýðingarmikil þau eru.


Menn hafa smátt og smátt verið að einangra erfiðustu deiluatriðin. Vægi þessara mála er því miklu meira en 2% í heildarpakkanum, enda ráða þau mestu um það hvort af Evrópska efnahagssvæðinu verður eða ekki. Þau skilja því milli feigs og ófeigs ef svo má að orði komast.

Ergo: EES samningurinn, eins og hann var samþykktur, hefði því varla komist í gegn í ríkisstjorn Steingríms Hermannssonar, því "2%" málanna, erfiðustu málin í samningsferlinu, voru enn óleyst. bonus-bydur-beturHvað var þá Jón Baldvin að segja, í Silfrinu, að EES málin hafi verið leyst í tíð vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar? Jújú, smáatriðin voru komin í höfn, en stóru málin sátu eftir.

En Ingibjörg heldur síðan áfram með ræðu sína:

 Ég óttast viðhorf þeirra sem ráða för í samningsgerðinni um Evrópskt efnahagssvæði. Utanrrh. stóð hér í pontu fyrr í dag og sagði um Evrópskt efnahagssvæði: ,,Allt þetta mun ég gefa ykkur.`` Ég ætla að undanskilja seinni hluta þessarar setningar. Ég efast um að Evrópska efnahagssvæðið muni færa okkur eitthvað allt annað og meira heldur en almenn þróun samfélagsins utan eða innan Evrópska efnahagssvæðisins mundi færa okkur. Þróunin mun færa okkur bæði gott og illt. Þróun er ekki bara gjöful, við verðum líka að huga að því sem glatast eða getur glatast í þróuninni. Við verðum að huga að sérstöðu okkar, við verðum að huga að arfi okkar og eiginleikum sem mótast hafa af menningu okkar, lífsháttum og náttúru. Við verðum að huga að því hvernig við viljum og ætlum að ná innihaldsríku lífi hér á landi, hvernig við ætlum að vernda það og hvernig við ætlum að þjóna því. Gerum við það best innan Evrópska efnahagssvæðisins eða utan? Það er sú spurning sem við hljótum öll að standa andspænis. Við verðum að hefja okkur af hinu tæknilega plani, hinni tæknilegu umræðu þó að hún sé vissulega mikilvæg, og reyna að byggja þessa umræðu á framtíðarsýn. Hver er framtíðarsýn okkar?

 Virðulegi forseti. Ég hef efasemdir sem lúta að þeim grunni sem Efnahagsbandalagið og Evrópska efnahagssvæðið byggja á. Ég hef efasemdir um þá framtíðarsýn miðstýringar neyslu og fjármagns sem birtist í því sem nú er unnið að innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég held að þessi framtíðarsýn sé í grundvallaratriðum í andstöðu við það sem gera þarf til að tryggja hag íbúa heimsins, ekki bara Evrópu.

Já, Ingibjörg hafði efasemdir um EES; efasemdir um, að lúta erlendri miðstýringu, efasemdir um hugsjón evrópuismans, efasemdir um, að Ísland væri betur sett innan EES en utan. 

En hvað með ESB? Hefur Ingibjörg engar efasemdir um ESB-aðild, eða hefur hún bara skipt um skoðun samhliða því að skipta um flokk?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Athygliverð færsla hjá þér

Guðmundur H. Bragason, 25.4.2007 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband