50.000: hugleiðingar um Moggabloggið

Jæja, það gerðist einhvern tíma í nótt, að ég fór í 50.000 gesti hér á hvala-blogginu. Ég þakka kærlega fyrir mig -- "hvala", sem merkir takk á serbó-króatísku, ef ég hef skilið þetta rétt.

Þó að gestafjöldi skipti í raun litlu máli (nema við bloggarar fáum að selja auglýsingar á síðuna okkar), er alltaf gaman að sjá, að fólk kemur svona oft inn á síðuna. Fyrir c.a. 10 dögum fattaði ég "vinsældalista" bloggins og var ég þá í 27. sæti fyrir síðustu sjö daga, nú er ég kominn í 9. sæti og á uppleið. Er ég nokkur sáttur, sér í lagi vegna þess, að af topp tíu bloggurunum eins og er, er ég sá eini sem ekki hef komist á forsíðu bloggsins. Flestir hinna eru þar nokkuð reglulega, ef ég man rétt. Þó hefur nýliðinn á listanum, Hollywood-bloggarinn, held ég ekki sést þar oft.

En jæja, ég lagði upp í þessa vegferð snemma í desember, þegar ég kom heim frá skákmóti í Serbíu, lasinn og niðurbrotinn, eftir að hafa teflt lasinn á mótinu og farið niður í logum. Þar sem maður sat lokaður inni og orkulaus til aðgerða, ákvað ég að taka mér bloggstafi í hendur og láta vaða. Fyrstu vikurnar komu fáir gestir inn. Ég man hvað ég var glaður, 2 vikum síðar, þegar ég komst í 500 gesti á dag. Ég komst síðan í fyrsta skipti yfir 1.000 gesti á dag einhvern tíma um jólin, og komst í 3.000 og 2x yfir 2.000 um áramótin. Síðan datt ég niður, þegar ég var á skákmóti í Prag 9.-18. janúar, en reis fljótt aftur. Nú hef ég í raun haft rétt um 20.000 gesti á mánuði og tel það mjög gott. Mest komst ég í tæpa 12.000 gesti á einni viku, þarna um áramótin.

Blogglífið hefur í mörgu verið skemmtilegt. Greinilegt er, að þeir sem starfa við þess háttar störf, að þeir sitja hvort sem er við tölvu liðlangan daginn, eiga auðveldara með að blogga en aðrir. Einnig er ljóst, að þekkt nöfn úr samfélaginu, ekki síst blaða- og stjórnmálamenn, fá auðveldari aðgang en aðrir. Þeir eiga t.d. margir fast sæti á forsíðu bloggsins. Þeir fá aðgang ekki endilega vegna merkilegra skrifa, heldur nafns síns. En sú frægðarsól dugar ekki alltaf til lengdar, þar eð fólk þarf að skrifa eitthvað, sem blogglesendum líkar. Og þá dugar ekki að vera alltaf með sama nöldrið, það þarf að sýna fjölbreytni.

Að mínum dómi er blogg Stefáns Friðriks Stefánssonar besta bloggið hér á mbl. Hver einasta grein hans er vönduð og vel skrifuð, og jafnan um mál, sem eru í umræðunni. Það kemur mér á óvart, hversu "litla" lesningu hann fær, miðað við það, en við skiptum einmitt um sæti á blogglistanum í nótt, ég fór í níunda, hann í það tíunda.

Áhugaverðasta bloggið hlýtur að vera blogg Áslaugar Hinriksdóttur, en þar er mest fjallað um alvarleg veikindi dóttur hennar, ef ég hef lesið rétt.

Skemmtilegasta bloggið er að mínum dómi blogg Sigmars í Kastljósinu. Hann skrifar mjög skemmtilega. Hann var einmitt að skríða í fyrsta sætið á vinsældalistanum í nótt, en meðan ég hef fylgst með, hefur hann gjarnan verið 1-2000 gestum á eftir samkeppnisaðilanum, Steingrími Sævarri, nú í Íslandi í dag.

En jæja, síðan eru hér mörg pólítísk blogg. Í umræðunni nýlega hefur verið minnst á, að stjórnmálaflokkar væru hér að skipuleggja blogg í aðdraganda kosninga. Pétur Gunnarsson "hux" kallaði þetta "samræmdan spuna". Þar bendir hann á, að kratar hafa upp á síðkastið streymt hér fram með alls konar bloggsíður, þar sem rætt er um pólítík og kosningar. Telur Pétur upp nokkrar slíkar. Hann segir:

Samfylkingin er komin langt á undan öðrum flokkum í kosningabaráttunni vegna þingkosninganna. Hún auglýsir nú grimmt í blöðum, nánast daglega. Hún hefur skipulagt og miðstýrir fjölmörgum bloggsíðum hér á moggablogginu. Loks stendur nú yfir skipulögð greinaherferð í blöðum þar sem hver Samfylkingarmaðurinn og - konan á eftir öðrum úrfærir spunann um það að Ingibjörg Sólrún sæti einhverju sérstöku einelti í pólitískri umræðu. Það er ein svona grein í Fréttablaðinu í dag og í Mogganum skrifar Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, um þetta sama. Um daginn var svo Hallgrímur Helgason með makalausa grein í þessum anda. Bloggfærslurnar eru fleiri en ég kem tölu á en nærtækast er að nefna að truno.blog.is var að því er mér sýnist stofnað til þess að halda þessari umræðu á lofti.

Mér finnst þetta athyglivert. Vegna þessa hefur Eygló Harðar, sem missti sæti í framboði Framsóknar á "Suðurlandi" hafið umræðu um pólítíkina hér á moggabloggi, og m.a. lagt til, að þeir, sem skrifa hér um pólítík, greini frá því hvar í pólítík þeir standi, svo menn geti lesið skrif þeirra í réttu ljósi.

Já, ef maður les topplistann sér maður, að framsóknarmenn, eða aðilar tengdir honum, virðast vera hlutfallslega flestir, a.m.k. á toppnum. Vinstri grænir eiga nokkra fulltrúa þar (topp 50), en frekar fáa, enda skrifa ofurbloggarar þess flokks á Múrnum eða annars staðar. Og kratarnir eru að koma sterkir inn, en við sjálfstæðismenn erum hlutfallslega fámennir, ef tekið er mið af fylgi flokksins á landsvísu. Þá á ég við menn, sem vitað er að hafi starfað á vegum flokksins.

Sjálfur er ég félagi í Sjálfstæðisflokknum, ég gekk í hann 1991 til að kjósa frænda minn í prófkjöri. Það var mér sársaukalaust, því hann stendur hugsjónum mínum næst. En síðan hef ég þó aldrei mætt á neina stjórnmálafundi flokksins, nema að því leyti, að ég hef fengið boð á Landsfund nokkrum sinnum, en skilað umboði mínu inn við upphaf fundar, því mér hefur fundist ég ekki eiga skilið að taka þar sæti, eftir að hafa aldrei tekið neinn þátt í störfum flokksins.

En jæja, pólítískt séð líkar mér best við blogg Gísla Freys, Hjartar sveiflukóngs, Friðjóns og þeirra stráka. Nokkrir ungliðar hafa einnig verið að koma inn, en ég þekki minna til þeirra. Síðan verð ég að nefna líka blogg framsóknarmannsins Sveins Hjartar, en hann er svona temmilega íhaldssamur, eins og ég sjálfur, og set í heiðurssætið ofurbloggarann, Björn Bjarnason, sem vitaskuld er kóngur pólítískra bloggara.

Jæja, ég vona að menn geti nú lesið bloggið mitt með nægjanlegum upplýsingum um minn pólítíska bakgrunn. En ég skrifa minnst um pólítík, heldur er ég að þessu mér til gamans, og set inn athugasemdir við ýmis mál, lauma inn youtube.com myndböndum, sem mér þykja athygliverð eða fyndin (ég er með sérstakan flokk sem heitir "aulahúmor"!), og margs konar upplýsingum. Stundum lauma ég inn fræðilegum greinum, þó aðallega um atburði í Miðausturlöndum, þar sem ég bjó um tíma og var bæði í námi og einskonar vinnu. En fyrst og fremst er þetta blogg sjálfum mér til skemmtunar og vinum mínum til angurs, en t.d. er "þessi stöðugi áróður gegn Samfó", eins og einn þeirra orðaði það, fyrst og fremst skrifaður til að ergja nokkra krata í þeim hópi, og einstaka leiðinlega krata þar utanvið, menn sem ég kallaði forðum "þjóhnappakrata" og ekki að ástæðulausu.

Ég hef síðan verið tiltölulega jákvæður í garð VG og Framsóknar. Ég stend að sumu leyti nærri þeim síðarnefndu í ýmsum málum, en er nánast andsnúinn öllu sem VG stendur fyrir, nema andstöðunni til ESB og einstaka velferðarmál. En ég met þann flokk, þrátt fyrir allt, fyrir að hafa ljósa stefnu og hnika ekki frá henni, a.m.k. ekki mikið! Það sama er ekki hægt að segja um Samfó og er vingulsháttur kratanna ein helsta ástæða þess, að ég hef lítið álit á þeim flokki og formanni hans. Nú, ég hef lítið álit á Frjálslynda flokknum, og þá fyrst og fremst vegna þess, að mér hefur fundist sá flokkur gjörónýtur og málsvarar hans á þingi fyrir neðan allar hellur, formaðurinn þó skástur. Og ekki bætir úr skák, að lið þetta virðist stundum ekki vera í sambandi við raunveruleikann og reyna að skreyta sig vafasömum fjöðrum til fylgisaukningar.

En jæja, nú er komið að ábót á kaffið, þar sem ég sit hér með tölvuna á BSÍ, umkringdur leigubílstjórum og útigangsmönnum.

Adios

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Þú ert ekki að minnast á mig eða skilgreina mig, bölvaður! P.s.: Passa mig að smella aldrei á bloggið þitt né nokkurs annars sem er fyrir ofan mig á vinsældalistanum ...

Hlynur Þór Magnússon, 24.2.2007 kl. 08:40

2 Smámynd: Snorri Bergz

Hehe, ég les þig nú daglega. En maður gat ekki nefnt alla! Kv. SGB

Snorri Bergz, 24.2.2007 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband