Hýri Hafnarfjörður

hafnarfjJæja, þá er að hamra á því. Samfylkingarmenn í Firðinum þurfa nú að svara fyrir það, hvort þeir hafi skipt um skoðun á álversmálinu, eins og formaðurinn. Já, það er stundum erfitt að vera krati, þrátt fyrir hækkandi fylgi í síðustu skoðanakönnun. Formaðurinn er sá stjórnmálamaður, sem fólkið treystir síst, en formaðurinn segir, að þjóðin treystir ekki þingflokknum. En formaðurinn treysti þó krötum í Hafnarfirði, a.m.k. um tíma. En síðan skipti hún um skoðun, eins og frú Reykás iðulega gerir, og sagðist ekki lengur treysta Hafnarfjarðarkrötum til að sjá um álversmálið, eða jafnvel Hafnfirðingum öllum. Ergo: Formaðurinn treystir ekki flokknum, þjóðin treystir ekki formanninum.

Persónulega finnst mér Hafnarfjarðarkratar vera merkilegasta "flokksbrotið" í Samfylkingunni. Ég gat til dæmis borið  mikla virðingu fyrir Guðmundi Árna fyrir að vera heilsteyptur og traustur þingmaður. Hann hljóp ekki á eftir hverju vinsælu máli í þjóðfélaginu og skipti um skoðun eftir því sem vindur blés, heldur hélt sig við stefnu sína og hugsjón. Því rakst hann á innanflokks og var sendur úr landi. Aðrir Hafnarfjarðarkratar, sem ég þekki, eru sömu gerðar, t.d. Benedikt Jónasson múrari, sem hér bloggar undir nafninu Jimmorrisson. Margir aðrir Hafnarfjarðarkratar eru sömu gerðar, enda hafa jafnaðarmenn jafnan notið mikils fylgis í Firðinum, sem hefur verið sterkasta vígi þeirra í marga áratugi.

En það gengur auðvitað ekki, að jafnaðarmenn séu sterkastir utan kjördæmis formannsins, og því hefur Ingibjörg Sólrún ákveðið, að kippa fótunum undan þessu sterkasta flokksbroti Samfó. Yfirlýsing hennar um, að Hafnfirðingar, undir forystu Gunnars Svavarssonar og Lúðvíks Geirssonar, fái ekki að ráða álversstækkuninni, eins og hún hafði áður lýst yfir, er skellur, ekki aðeins fyrir trúverðugleika Samfó í Firðinum, heldur hnífsstunga í bakið á þessum tveimur herramönnum.

Því er ekki að furða, þótt Sjálfstæðismenn í Firðinum skuli leggja fram bókun um, að kratar útskýri stefnu sína og það hið snarasta. En hvað á Lúðvík að gera? Á hann að standa við fyrri yfirlýsingar, stefnu og skoðanir, eða fylgja flokksforystunni. En hvort sem hann gerir, er hann í vondum málum; annars vegar fær hann yfir sig þykkju bæjarbúa, sem kusu hann til embættis, fyrir að hlaupast undan merkjum og svíkja fyrri loforð og yfirlýsingar, eða þykkju formannsins, sem greinilega hefur horn í síðu þeirra örfáu krataforingja, sem hafa einhver völd í bæjarfélagi sínu og eru vinsælir utan raða flokksins. Og spurning hvaða áhrif þetta hefur á fylgi Samfylkingarinnar í Kraganum? Hvað ætli Hafnfirðingar og nærsveitarmenn segi við þessum hringlandahætti Samfó? Ætli þeir telji, að flokknum sé treystandi? Ég stórlega efa, að Samfó geri þarna einhverjar rósir í næstu kosningum. Og ætli það þýði ekki, að VG fái tvo menn inn í Kraganum, Ögmund Jónasson og Guðfríði Lilju, og jafnvel að Sjálfstæðismenn bæti við sig, og þá vísast að hluta til á kostnað Framsóknarflokksins?

Forðum var ort um Hafnfirðinga eftirfarandi:

Gaflarar hafa gáfur þær

sem gagnast þeim vel i bítið.

Þeir vita lengra en nefið nær

en nefið er stundum lítið.

(Flosi Ólafsson).

Þessi vísa á ekki við núna. Nefið á Hafnfirðingum er að þessu sinni með stærsta móti. Þetta skiptið virðist formaðurinn hafa bæði lítið nef og mjög takmarkaðan skilning á pólítískum veruleika, því Gaflararnir vita betur um hvað málið snýst.

En í ljósi yfirskriftarinnar, þar sem vísað er í vísuna um hinn hýra Hafnarfjörð, sem horfir á móti sól (í Straumsvík), verð ég að setja þessar vísur Flosa með:

Ef mæti ég hýrum Hafnfirðing

í Hellisgerði

Aftan og framan og allt um kring

er ég á verði.

Og:

Ef ætlarðu að fara á ástaþing

er upplagt að hafa það svona.

Krækja í hýran Hafnfirðing

sem helst þarf að vera kona.


mbl.is Vilja fá að vita hver afstaða fulltrúa Samfylkingar er til stækkunarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Bergz

En hundasúruverksmiðjan á Hvaleyrinni? Er hún ekki ennþá í planinu?

Snorri Bergz, 14.2.2007 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband