Morkinn laugardagur!

Jæja, ekki skemmtilegasti dagur ársins, en lagast snarlega ef Arsenal vinnur Liverpool á eftir.

Þetta er einn af þessum dögum. Vaknaði óvenju seint, eða um sjöleytið, og skrapp í kaffi og síðan á skrifstofuna. Ekki beinlínis vinna þetta skiptið, heldur er ég að reyna að undirbúa mig eitthvað fyrir Praha open 2007, alþjóðlegt skákmót sem ég mun taka þátt í og byrjar þann ellefta.

Eftir hið hræðilega hótel í Serbíu núna í nóvember hlakka ég a.m.k. til að tefla og gista á sómasamlegu hóteli, TOPHOTEL í Prag. Fjögurra stjörnu hótel, 930 herbergi, grunnflöturinn eins og 11-12 fótboltavellir. Að vísu verð ég að láta mér nægja ódýrt ** Carni herbergi, en það dugar vel. Þarna er gym, sundlaug/ar, tennisvellir, nudd, gufa, sauna og allt þetta venjulega á **** hótelum. Mér er sagt, að þetta sé stærsta hótel í Evrópu, og gæti það verið, nú þegar Rossija í Moskvu er komið á haugana. Ég sé eftir því hóteli. Það stóð reyndar á þeim stað, þar sem áður var Delovoi Dvor, bolsévíkahótelið þar sem Hendrik Ottósson og Brynjolfur Bjarnason dvöldu á heimsþingi Kominterns 1920. En á Rossija átti maður góðar stundir 2003 og 2004, bæði skiptin á skákmóti, hvað annað.

Ég kem svosem ágætlega undirbúinn fyrir þetta mót, nema hvað mig skortir á líkamlegt úthald, sem því miður er bráðnauðsynlegt í svona móti, sér í lagi þar sem ég er enn ekki laus við síþreytuna. En það má alltaf gera aðeins betur. Maður fer því í ræktina með, rétt til að koma sér í form. Það er hægara sagt en gert að pína hausinn á sér til að malla af fullum styrk í a.m.k. 15 klst. á dag.

Skrapp reyndar frá rétt eftir hádegið til að hitta litlu börnin hans bróður míns, Munda í Stepp og Veiðikortinu. Þau eru yndisleg. En er nú mættur aftur, og ætla að reyna að rifja upp teoríurnar. Mæti svo galvaskur á Kebabhúsið hér rétt hjá skrifstofunni minni um fimmleytið, en nokkrir skákstrákar hittast þar oft þegar skemmtilegir og spennandi leikir eru sýndir. Að þessu verður það Liverpool-Arsenal. Þar er að duga eða drepast fyrir mína menn, þá síðarnefndu.

Og úti er hætt að snjóa, en morkið yfir að líta, þar sem maður horfir yfir Akrafjall og Skarðsheiði, eins og gráleitar martraðir. Ekkert er eins morkið og dumbungskvöld í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband