Af spjöldum sögunnar: Egyptaland hið forna 2. hluti

Miðríkið (um 2050 – 1560 f. Kr.)Um 2050 f. Kr. tók tólfta konungsættin, fyrsta konungsætt Þebumanna, við völdum og thebesreis þá veldi Egypta einna hæst. Jafnframt var nýr ríkisguð Egypta innleiddur, sólguðinn Amon. Friðurinn gaf íbúunum færi á lagfæra hrunið áveitukerfi landsins og græða upp Fajum-sléttuna.


Memphis varð stjórnarsetur Þebukonunga í norðri, enda var höfuðborgin staðsett fjarri mörgum af mikilvægustu héruðum landsins. Jafnframt kom fram málamiðlun milli Þebu og Memphis um trúarbrögð, þar sem nýr ríkisguð, Amon-Ra, var settur saman úr Amon, guði Þebu, og Ra, guði Memphisar.


Fljótlega efldist þó Memphis á kostnað Þebu og þegar tólfta konungsættin leið undir lok, varð Egyptaland aftur óstjórn og innanlandsófriði að bráð. Landið stóð því nánast óvarið fyrir erlendum innrásarherjum.


Um 1720 f. Kr. náðu sameinaðar hersveitir nokkurra ættkvísla frá Kanaanslandi og Sýrlandi, undir forystu Amoríta, Egyptalandi á sitt vald. Hinir nýju herrar kölluðust Hega-khase á máli innfæddra, eða „konungar framandi landa”. Grískir sagnaritarar kölluðu þá síðar Hyksos og hefur sú nafngift haldist. Hyksos-konungar ríktu í Egyptalandi á tíð tveggja konungsætta, hinna fimmtándu og sextándu, allt til miðrar sextándu aldar f. Kr. Stjórnarár Hyksos-manna var tímabil hagsældar og friðar í landinu. Þeir virtu trúarbrögð og menningu Egypta, og tóku reyndar upp siði þeirra til að tryggja völd sín.



Þeir færðu einnig marga nýja siði til landsins, svo sem aukna áherslu á sauðfjárrækt og var stöðugt flakk á hirðingjum inn og út úr landinu. Frá óshólmunum sigldu skip Hyksos-manna vítt um Miðjarðarhaf, meðal annars til Krítar, Grikklands og Tróju. Skip þeirra voru þó einkum skipuð Föníkíumönnum og Hebreum. Hyksos-menn fluttu með sér eigin trúarbrögð til Egyptalands, en tóku jafnframt upp dýrkun á Set,  sennilega til að reka avarisandstöðu gegn þjóðernislegri tilbeiðslu Egypta á Hórus og Amon-Ra.


Höfuðborg Hyksos-konunga var upphaflega í Tanis, austast í óshólmunum, en fljótlega reistu þeir vígi í Avaris, sem varð jafnframt útvörður Egyptalands í austri, með yfir 200.000 manna setuliði. Avaris var í raun fyrsta stórborg Egyptalands, prýðisvel skipulögð, hverfaskipt og vel útbúin með tilliti til aðdrátta vatns og vista. Ystu múrar hennar voru svo þykkir, að hervagnar gátu ekið eftir þeim.

 


En styrkur þeirra var þeim einnig að falli. Þær tæknibreytingar, sem orðið höfðu í hernaði í frjósama hálfmánunum, bárust með þeim til Egypta, sem þúsundum saman þjónuðu í hersveitum Hyksos-konunga. Má þar fyrst nefna notkun riddaraliðs og stríðsvagna, en hesturinn hafði áður verið ókunnur Egyptum. Einnig kynntu þeir Egyptum fullkomnari tegund boga og örvar með sérstökum járnoddi, að hætti Hetíta. Með því að tileinka sér hina nýju tækni, töldu Egyptar sér fært að glíma við hina erlendu herra.


Andstaðan við Hyksos kom einkum fram í suðurhluta landsins, sér í lagi umhverfis Þebu. Um miðja 16. öld f. Kr. voru Hyksosar reknir á braut og síðan sigraðir í hverri orrustunni á fætur annarri. Með brotthvarfi þeirra og endurreisn egypsks valds, hefst tímabil Nýríkisins.
 

Nýríkið
(um 1560 -  715 f. Kr.)



Amósis I. frá Þebu lagði grunninn að egypska nýríkinu með sigrum sínum á Hyksos-mönnum. Hann lét sér ekki þó ekki nægja, að reka þá braut, heldur elti flótta þeirra allt til vesturbakka Efratar. Einnig hefndi hann sín á þeim útlendingum, sem notið höfðu góðs af stjórnartíma Hyksos-manna, svo sem Hebreum, og gerðu þá að þrælum, sem notaðir voru við uppbyggingu virkja og vistaborga á austurlandamærunum.


Fyrstu konungar Nýríkisins komu á fót fastaher, þjóðnýttu eignir aðalsmanna og héraðshöfðingja og brutu vald þeirra á bak aftur. Áður hafði hernaður egypskra konunga verið í formi ránsferða, en með uppbyggingu hins nýja þjóðfélags Nýríkisins, snerist allt um að tryggja landamæri Egyptalands, bæði með smíði varnarvirkja og fyrirbyggjandi árásum á þau ríki, sem gætu ógnað Egyptum í komandi framtíð.


Á dögum herkonungsins Tútmósis III. var aðsteðjandi hættu hrundið og gerði hann Sýrland, Kanaansland og Fönikíu skattskylda sér. Jafnframt barði hann á Grikkjum og efldi þarmeð utanríkisverslun Egypta. Tútmósis þessi var þó ekki einn að verki, því fyrstu tuttugu ríkisstjórnarár hans stjórnaði stjúpmóðir hans, Hatsehpsut, ríkinu og talið er, að hún hafi verið fyrsta konan til að stjórna sjálfstæðu ríki í heiminum.



thebes-colossi-of-memnon-luxclmemÞeba var lengst af höfuðborg landsins og voru trúarlegar háborgir landsmanna reistar í nærliggjandi dölum. Tútmósis lét reisa stórfelld mannvirki í Karnak, rétt austan Þebu, þar á meðal glæsilegt hof til heiðurs Amon. Verslun og viðskipti blómstruðu, jarðrækt efldist og voru ný lönd sett í ræktun með áveitum. Menning og listir döfnuðu, og er talið að stjórnarár Tútmósisar, sem ríkti í hartnær hálfa öld, hafi verið blómaskeið egypskrar málaralistar. Bókmenntir blómstruðu einnig á stjórnartíma Þebukonunga hinna síðari, en stærsta skjalasafn fornaldar hefur verið grafið úr rústum borgarinnar Aket-Aton, sem betur er þekkt sem Tell el-Amarna.

Amenhótep feðgarnir, hinir þriðju og fjórðu með því nafni, voru síðustu stórkonungar Þebumanna, en umdeildir þó. Sá eldri þeirra var svo upptekinn af því, að reisa sér og guði sínum minnismerki, að hann skirraðist við að skerast í leikinn, þegar Hetítar og atonAssýringar hófu að leggja undir sig yfirráðasvæði Egypta í Miðausturlöndum. Hinn yngri þeirra óttaðist veldi Amonsprestanna meira en óvinaþjóða og ákvað því að færa Egyptum ný trúarbrögð, því sá sem stjórnaði trúarbrögðunum, stjórnaði landinu.


Hin nýja ríkistrú Egypta byggðist á tilbeiðslu á sólguðnum Aton og tók konungur jafnframt upp nafnið Ikn-Aton, eða „sá sem Aton hefur velþóknun á”. Hann reisti sér nýja höfuðborg í Aket-Aton, fjarri veldi hofprestanna í Þebu, lokaði musterum Amons um landið allt og gerði upptækar gríðarlegar eignir þeirra. Ikn-Aton virðist hafa verið einlægur í trú sinni og samdi lofsöngva til heiðurs guði sínum. Ennfremur aflagði hann hið forna myndmál og tók upp ritmál að hætti nágrannaríkjanna.


Endurbætur Ikn-Atons náðu þó aldrei fótfestu, því veldi Amonsprestanna var í raun aldrei ógnað. Almenningur snerist gegn hinum nýja siði og þegar Ikn-Aton var myrtur, árið 1362 f. Kr., féll flest í sama horfið að nýju. Höfuðborgin færðist aftur til Þebu, Aket-Aton lagðist í eyði og varð sandstormum að bráð, uns hún var síðar grafin upp og menningarlegir fjársjóðir hennar voru afhjúpaðir.

Á dögum 21. ættarinnar, sem stjórnaði frá Tanis  á tímabilinu 1085-945 f. Kr., klofnaði Egyptaland í tvennt, þar sem Amonprestarnir réðu suðurhlutanum frá Þebu. Sísak I., stofnandi 22. ættarinnar (945-730 f. Kr.) styrkti vald sitt með bandalögum og mæðgum við konunga, meðal annars við Salómon, konung í Jerúsalem. Þá voru Líbýumenn ráðandi í landinu, en annars er stjórnartíð hans merkilegust fyrir þær sakir, að fjöldi Amons-presta flúði Þebu og stofnaði guðræðisríki í Núbíu, sem lagði síðar undir sig Egyptaland. Um 750 f. Kr. var tími Nýríkisins liðinn og tóku stórveldi Mesópótamíu við forystuhlutverki í þessum heimshluta. Egyptaland komst nú undir stjórn erlendra þjóða og hlaut ekki sjálfstæði sitt að nýju fyrr en á 20. öld. 
Samantekt

   Menning og þjóðskipulag Egypta og Súmera kom af sömu rótum, en sökum einangrunar breyttist hún lítið í Egyptalandi, meðan ör þróun átti sér stað í Mesópótamíu. Hinir fyrstu konungar Egypta byggðu upp sterkt miðstjórnarríki, reistu pýramída að hætti ziggúratanna í Súmer og börðust við að halda völdum, þegar ásæknir höfðingjar eða hofprestar sóttu að þeim. Á stjórnartíð Hyksos-manna komst Egyptaland í snertingu við þær breytingar, sem orðið höfðu á menningu mesópótamískra þjóða, bæði samfélagslegar og hernaðarlegar. Egyptar urðu stórveldi að nýju, en þó hrikti í stoðum ríkisins, þar sem borgirnar Memphis og Þeba börðust um völdin. Valdatíð Þebumanna var helsta blómaskeið Egyptalands og bera minjarnar frá Tell el-Amarna merki um hámenningu, sem jafnaðist að sumu leyti við hámenningu nágrannaríkjanna og var þeim fremri á mörgum sviðum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband