Svadilfarir i Serbiu...solid

Svaðilfarir í Serbíu 

Ég var alveg furðulega rólegur meðan þetta gekk allt yfir. Kannski var það vegna þess að ég er ekki að koma hingað í fyrsta skiptið. En ég hélt kúlinu, var bara sallarólegur eins og ekkert hefði í skorist. Ég var eiginlega hissa á sjálfum mér. Kannski var ég bara kominn yfir pirringsmörkin.

En dagurinn byrjaði eðlilega. Maður kom sér niðrá BSÍ og tók bussinn út á flugvöll. Þar gekk allt fyrir sig með hefðbundnum hætti. Maður fékk sér kaffi og slakaði aðeins á. Keypti USB-lykil í fríhafnarELKO og rakst á Margeir MP á þönum að versla, en hann var á leiðinni til Kiev. En þegar hann var að útskýra fyrir mér ýmislegt varðandi fjárhagsmál var kallað á mig í kerfinu og ég beðinn að gefa mig fram við þjónustuborð. Ég hafði ekki hugmyund um hvar það var, en fann að lokum. Þá kom í ljós að einhver Spánverji hafði „fengið brottfararspjaldið“ mitt, út af bilun í kerfinu. Ég var því formlega séð miðalaus, en elskulega konan skaffaði mér bara nýtt spjald og engin vandræði. Furðulega rólegur. No problem.

London gekk eðlilega fyrir sig. Ég setti á autopilot þarna í Terminal 1 og gekk nánast beint af augum yfir í Terminal 2, þar sem JAT Airlines, serbneska ríkisflugfélagið, hefur löngum haft aðsetur; fór í gegnum öryggistékk og allt i orden. Fattaði síðan, þegar ég var kominn á „venjulegan stað“, að eitthvað var ekki allt í lagi. Jú, JAT hafði flutt yfir í Terminal fjögur. Og maður hafði ekki tíma fyrir þetta, því öll þessi ár, en þetta er fimmta árið í röð sem ég tek þessa sömu ferð – á sama skákmótið – hafði maður í raun mátt þakka fyrir að ná tengifluginu. Ég stormaði til baka, spurði til vegar (já karlmenn gera það stundum!) og komst að lokum út úr Terminal 2, út í buss (eftir smá bið), í ausandi rigningu, og síðan yfir í Terminal 4. Þar fann ég allt að lokum, en jújú, seinkun.

En ég var enn sallarólegur. Ég fer að hafa áhyggjur af mér með þessu áframhaldi. Það var einhver furðuleg ró yfir manni, þrátt fyrir að vera að ferðast svona einn og lenda í ýmsum vandræðum; fátt er leiðinlegra en að ferðast einn, sér í lagi ef maður ferðast langt og þarf að skipta um vél á leiðinni. En þetta gekk að lokum og ég var rólegur. Ég hafði merkilega nokk lent í barnapössun, en serbnesk ofurskutla (ok, þessar þarna í ungfrú Ísland líta út fyrir að vera lágvaxnar, feitar og ljótar í samanburði) hafði sest við hliðina á mér með krakkann sinn, en þurfti að skreppa á bekkenið. Ég hafði því auga með krakkanum...jújú, og í vélinni var okkur troðið saman líka hlið við hlið, jújú. En ég hafði víst dottað þarna rétt áður en átti að lenda, því sú serbneska ýtti við mér og glotti vandræðalega. Þoka ársins í Belgrað, flugvöllurinn er lokaður og við fljúgum til Nis. 250 km, í burtu, takk fyrir. Svona eins og að lenda á Kirkjubæjarklaustri.

Flugvöllurinn í Nis er álíka stór og sá á Akureyri. Flughafnarbyggingin slæm. Og hraðbankinn virkaði ekki, mér og sumum öðrum til lítillar ánægju. Nokkrir enskir gaurar stungu af í bæinn að leita að hraðbanka, og týndust. Meðan biðum við eftir bussunum sem áttu að taka okkur til Belgrað. Eftir 1 ½ klst bið (þegar ég átti fyrir löngu að vera kominn á hótelið í Obrenovac) komu tveir bussar og ég fór í þann síðari. Eftir að hafa beðið þar í rösklega hálftíma og komist að því, eftir samræður við skemmtilegt fólk þarna, að Englendingarnir væru týndir. Það yrði að bíða eftir þeim.

Ég var þó enn sallarólegur. En konan, sem hafði sest við hliðina á mér nennti þessu ekki og spurði hvort ég vildi ekki deila með sér taxa til Belgrað. Þetta væri orðið fáránlegt. Ég var orðinn þreyttur að bíða þarna, gat ekki einu sinni keypt mér vatn eða aðrar nauðsynjar, enda hraðbankinn bilaður og ég seðlalaus, svo ég sló til. Var þó með evrur á mér sem betur fer. Tveir útvarpsmenn frá Ljubljana slógust í hópinn og fórum við fjögur í litlum KIA til Belgrað, rúmlega 250 km í burtu í niðdimmu.

Og fljótlega kom í ljós, að veðrið var ekki ýkt. Ég hef aldrei séð aðra eins þoku. Útvarpsmennirnir, c.a. þrítugir, voru með ofursíma á sér og gátu rakið leiðina fyrir bílstjórann með GPS-systemi. Þeir öfluðu líka þeirra heimilda, að bussinn hafði beðið í 45 mínútur til viðbótar eftir þeim ensku. Annar þeirra hafði orðið hugfanginn af Nonna-bókunum þegar hann var lítill og sagði mér eitt og annað frá þeim. Mundi jafnframt eftir Agureiri; framburðurinn hans var eiginlega fallegri en okkar. Þeir félagarnir vissu reyndar heilmikið um Ísland, hrunið og efnahagsmál landsins almennt. Þeir skildu þó ekki, að þar sem rafmagnsverð á Íslandi væri skelfilega lágt, að verð á íslensku grænmeti úr gróðurhúsunum væri svona hátt. Ég útskýrði þá staðreynd með því, að það væri sósíalistastjórn við lýði og hún væri að skattleggja allt sem hreyfðist. „And if it does not move, they shake it.“ Kannski ekki alveg nákvæmt, en jæja...

En við náðum á áfangastað, Hotel Slavija, þar sem bussarnir áttu að skila af sér. Þar varð misskilningur og ég beið eftir einhverju sem ekkert var og þegar klokkenið var farið að ganga tólf tók ég bara taxa til Obrenovac. 50 evrur í viðbót, enda tvöfaldast taxtinn eftir níu á kvöldin. En þetta var ekki taxi, heldur gamall Benz 197x módel, ógeðslegasti bíll sem ég hef nokkru sinni stigið inn í og farþegasætið frammí var hálf laust og súnkaði. Var ábyggilega síðast þrifinn fyrir hrun. Og kallinn með naumindum í lagi.

En ég var rólegur, þrátt fyrir að hafa kastað 100 evrum í súginn og mátt þola harðræði eins og John Cusack í The Sure Thing, nema engin verðlaun önnur en að komast á leiðarenda. Og að lokum komst maður til Obre, svona til að gera langa sögu stutta. Eftir sátu á Hotel Slavija, og fengu hótelgistingu yfir nóttina, fjórir heittrúaðir múslimar á leiðinni til Sarajevo. Þeir höfðu setið í röðunum beint fyrir framan mig í vélinni. Nú skal boða íslamisma þar, jájá.

Að koma á hótelið var eins og að koma heim, og fékk jafnvel sama herbergið og þegar ég kom hingað fyrst, 304. En þetta sinn var vatnslögnin í lagi. Þarna vann sama fólkið og öll hin árin, og var manni heilsað með nafni við komuna. Og næturvaktarstaffið heilsaði allt með látum: „Aha, Islandija Bergson“, eða hvað það nú var. Ekkert af þessu fólki talar ensku. Fólkið hafði geymt fyrir mig kvöldmatinn...já, sami snitzelinn og oft áður, þ.e. sú algengasta af þremur snitzel tegundum sem maður hefur lifað á þarna. Og ég sem þarf að passa mig á svínakjötinu, en þegar maður er glorhungraður (hafði ekkert borðað nema flatkökur um morguninn og síðast fengið vott þegar ég svolgraði í mig Diet Coke á Heathrow) lætur maður sig hafa það. Fór síðan niður og keypti okurvatnið á hótelbarnum, en 2 lítra flaska þar kostar eins og 8 lítrar á supermarkaðnum þarna hinumegin við brúna. Maður lét sig hafa það þetta skiptið, en never again, nema í neyð.

Og strákarnir koma allir á morgun. Uglan og Dagur A. Möller koma frá Novi Sad, Robbi frá London (er þar í stuttu fríi hjá Páli Agnari), og Jón Árni / Siggi Inga tvíeykið kemur frá Timisoara, en þeir höfðu fundið út að það sparaði heilmikið að fara til Belgrað um Timisoara í Rumeníu, gista þar eina nótt og taka morgunlestina. Kreppuferð ársins.

Nýr morgun, mánudagur:

Vaknaði kl. 6:30 að staðartíma, hálf sex að íslenskum. Ég hafði náð að leggja mig í 5 tíma, en þarna í morguns-árið setti ég nýjan standard í morkinheitum. Ég skrapp niður og hitti uppáhalds reception-kallinn (þ.e. hann talar ensku). Hann heilsaði manni með nafni og virktum, lét mig hafa miða fyrir morgunmatnum og ég fór beint að „borðinu mínu“, pantaði það „sama og venjulega“, og fyrr en varðandi stóð þessi massíva kaffileðja á borðinu, ávaxtasafni og skinku-egg dæmið góða. Þetta fólk hefur unnið þarna lengi, það er ár frá því ég var þarna síðast, en allir muna eftir manni, ég man eftir öllum, og fólkið man hvað ég fékk mér jafnan í morgunmat! Jahérna.

Kl. níu ætla ég að rúlla út í internetkaffi, þar sem sömu dúllurnar vinna ábyggilega enn. Þar mun ég pósta þessu, tékka emaila og gera nauðsynlegar æfingar. Síðan tekur við smá rúntur um pleisið, rifja upp gamlar slóðir sko. Ekki sakar að útsýnið er gott. Robbi Lagerman heldur því fram, að hlutfallslega séu obrenovaskar konur þær fallegustu í heimi, og hann þekkir þetta, hefur farið víða. En þetta er svona eins og Esjan, þetta venst, svo maður verður ábyggilega sallarólegur áfram.

Já, þetta er eins og að koma heim...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Glæztur, ég þekki léttu 45 mínútna hlaupin í Termínal 4 of vel, án þægjilegrar zeinkunar náttla.

Ungvin ztálmát !

Steingrímur Helgason, 24.11.2009 kl. 00:41

2 Smámynd: Sigurjón

Sæll Snorri.

Virkilega gaman að lesa þennan pistil eftir þig.  Vona ég að meira sé á leiðinni...

Kv. Sigurjón

Sigurjón, 24.11.2009 kl. 18:57

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður

Fall er fararheill-skemmtileg frásögn.

Vandræði að það var ekki fallega konan - serbneska ofurskutlan sem bað þig um að taka leigubíl með henni til Belgrad.

Gangi þér vel.

Guð blessi þig og varðveiti í heimi kommúnismans.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.11.2009 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband