Islamic Jihad: sögulegar rætur og bakgrunnur

 

islamicjihad2Hinn 26. nóvember gekk í gildi vopnahlé milli Ísraela og Palestínumanna. Á þeim tíma hafa einstakir hópar, bæði Palestínumanna og annarra múslima, hvað eftir annað reynt að ögra Ísraelum til að ráðast á Gasa. Abu Ahmed, talsmaður Islamic Jihad, lýsti því jafnvel yfir, að markmið árása samtakanna á Ísrael væri, að „setja hið viðkvæma vopnahlé í hættu með því að egna ísraelska herinn til að svara í sömu mynt”[1] Á þessum rúma mánuði hafa c.a. 70-80 Kassam eldflaugar tekist á loft frá Gasa, en jafnan valdið litlum skaða. En samtals hafa Palestínumenn skotið yfir 1.300 eldflaugum frá Gasa síðan Ísraelar drógu sig þaðan með allt sitt hafurtask fyrir ekki svo löngu síðan.Lengst af voru það sveitir á vegum Hamas, aðallega Izzedeen Al-Qassam sveitirnar (nefndar eftir blóðþyrstum skæruliðaforingja frá því snemma á 20. öldinni ef ég man rétt) og Al-Aqsa píslarvottasveitir Fatah sem stóðu að árásunum, en þegar á leið 2006 hafa félagar úr Islamic Jihad (Heilögu stríði íslams; IJ) stöðugt verið að færa sig upp á skaftið og eru nú þriðja hjólið undir vagninum, eða fjórða, ef Hizb’Allah samtökin eru talin með. Hin tvö eru PLO (Fatah og ýmis minni samtök) og Hamas. IJ þiggur yfir 2 milljónir dollara í föstum framlögum frá Íran og nýtur þar að auki stuðnings frá Sýrlandi, Hizb’Allah og einstaka minniháttar velgjörðarmönnum eða ríkjum.[2] Hluti framlags vinsamlegra ríkja og samtaka greiðist í “akkorði”, þ.e. eru árangurstengdar.[3] Til að mynda fékk IJ, eða hernaðararmur samtakanna, Al-Quds, háar fjárhæðir eftir sjálfsmorðsárásina í Tel Aviv í apríl 2006. Stuðningur við IJ felst ekki aðeins í fé og þjálfun, heldur hefur IJ tekist að smygla vopnum í stórum stíl til Gasa og Vesturbakkans, m.a. Katyusha-eldflaugum (sem draga 14 km.) frá Hizb’Allah, en fyrsta árás IJ með Katyusha – nefndar Quds 4 í þeirra meðförum – átti sér stað í mars 2006. Þrjár Quds 4 flaugar flugu á loft síðar á árinu og ollu nokkrum skaða.[4]

alheimssigur íslamsEn hvaða samtök eru þessi Islamic Jihad? Rætur þeirra koma úr Múslimska bræðalaginu, en angar IJ teygja sig víða. Félagsmenn IJ hafa á síðustu árum hlotið þjálfun í Líbýu, Sýrlandi, Líbanon, Íran og Afghanistan, og hugsanlega víðar. Þeir eru dregnir frá sömu rótum og Hamas, en starfa sjálfstætt, þó í raun sé vart að finna hugmyndafræðilegan ágreining þessara tveggja samtaka. Höfuðstöðvar IJ eru í Sýrlandi, en helstu starfstöðvar aðrar eru í Líbanon, Gasa og á Vesturbakkanum. Einnig munu einhverjir hópar innan IJ, eða tengdir samtökunum, starfa í Jórdaníu og Írak, en IJ tilheyra súnní-armi íslams.

 Ræturnar: Múslimska bræðralagið Muslim_brotherhood_1Múslimska bræðralagið var stofnað 1928 í Egyptalandi, þar sem hefur verið sterkasta vígi félagsins allar götur síðan. Það samanstendur af margs konar deildum og undirsamtökum í flestum ríkjum íslams og víðar. Í hverju landi er ætlað, að félagið starfi í nokkrum deildum, sem hver um sig vinnur að ákveðnu markmiði.   Múslimska bræðralagið var stofnað af Hassan al-Banna, sem fannst að hnignun pólítískra áhrifa múslima, en með hruni Tyrkaveldis 1918 réðu múslimar aðeins yfir nokkrum smáríkjum en engu stórveldi, hafi tilkomið vegna þess, að íslömsk samfélög hefðu fjarlægst trúna á Allah, væru orðin veraldleg (secular) í hugsun og framgöngu. Þessu vildi Banna breyta og taldi vænlegast að koma þeim umskiptingum á með valdi. Kjörorð Múslimska bræðralagsins (MB) voru: “Allah er markmið vort, Kóraninn er stjórnarskrá vor, Spámaðurinn er leiðtogi vor, [vopnuð] barátta er leið okkar og píslarvættisdauði fyrir Allah er göfugasta verkefni vort.” Undir þessu merki vildi MB koma á fót íslömsku kalífdæmi um allan hinn íslamska heim, þar sem ekki væri gert upp á milli stjórnmála og trúarbragða, eins og þá hafði m.a. verið gert í Tyrkjaveldi.   Múslimska bræðralagið hefur ætíð haft höfuðstöðvar og helstu starfsstöðvar í Egyptalandi og það var þar, að margir þekktir einstaklingar hlutu uppeldi sitt, s.s. Yasser Arafat, en á árunum eftir síðari heimsstyrjöld lenti MB í samkeppni við sósíalíska eða hálf-sósíalíska þjóðernissinna, sem höfðu það markmið, að sameina íslamska heiminn í eitt stórveldi, en án þess að samtengja íslam og stjórnmálin jafn náið og MB vildi. Þessi hreyfing er jafnan nefnd sam-arabísk (pan Arab) og var G. A. Nasser, Egyptalandsforseti, þekktasti talsmaður hennar. Nasser og MB tókust oft og iðuleg á um völd og áhrif, og hið sama gerðist á valdatíð Anwar Sadats, eftirfara Nassers, en meintir félagar í MB myrtu hann á hersýningu 1980. Í kjölfarið hófust enn frekari ofsóknir gegn MB, og einnig í Sýrlandi, þar sem hersveitir Assads, Sýrlandsforseta, frömdu grimmileg fjöldamorð á MB-liðum í borginni Hama snemma á níunda áratugnum. Í kjölfarið tók við endurskoðun á starfsemi og starfsháttum MB, sem tók nú upp friðsamlegar baráttuaðferðir og hafnaði valdbeitingu og hryðjuverkum. Í kjölfar þess sögðu margir herskáir fylgjendur MB skilið við hreyfinguna, en meðal þeirra námsmaður nokkur, Osama bin Laden, sem mun a.m.k. hafa tengst henni gegnum kennara sína, en verið óánægður með hin friðsamlegu baráttutæki samtakanna. Í dag er MB ein stærstu trúarsamtök múslima, ef ekki þau stærstu, og hafa útibú í nánast hverju einasta landi íslams, og víða á Vesturlöndum. Þótt MB hafi afneitað hryðjuverkum formlega, er misjafn sauður í mörgu fé og innan þeirra þrífast enn áhrifamiklir menn, sem hafa tekið til við að hallast að vopnaðri baráttu hin síðustu ár og er talið nær öruggt, að flestir hryðjuverkahópar múslima á Vesturlöndum eigi rætur að rekja til Múslimska bræðralagsins. Nefna má, að í skjóli Talibana rak MB margar þær þjálfunarmiðstöðvar, sem þar fundust, þó fyrst og fremst skóla fyrir áróðursmenn, sem breiða skyldu íslömsk áhrif út, fyrst meðal nágrannaríkjanna en einnig á Vesturlöndum. Jafnframt er talið, að í helstu miðstöðvum MB sé að finna mis-leynilega sellu, sem hafi beitingu vopnavalds á stefnuskrá sinni, hvort sem slíkir hópar starfi formlega eða óformlega innan MB. 

Islamic Jihad var upphaflega stofnað 1980, þegar einn áhrifamaður innan MB, Fathi Shiqaqi. klauf sig úr félaginu vegna óánægju með hinar breyttu áherslur. Hann taldi að heilaga skyldu múslíma, að heyja vopnaða baráttu gegn Ísrael og öðrum óvinum íslams. Þótt IJ beini spjótum sínum fyrst og fremst gegn Ísraelsríki, hafa samtökin lýst því yfir, að sú barátta sé aðeins hluti af heildarpakkanum. Eyðing Ísraelsríkis og stofnun íslamsks ríkis, með höfuðborg í Jerúsalem, sé aðeins fyrsta skrefið í markmiðum samtakanna. Stefna þeirra er einfaldlega sú, að reka heilagt stríð, jihad, gegn vantrúuðum hvar sem er, bæði í löndum íslams og annars staðar. IJ er algjörlega andsnúið sérhverjum friðarsamningum múslima við Ísrael, eða önnur ríki hinna vantrúuðu. Lokamarkmið samtakanna er, eins og svo margra annarra heittrúarsamtaka múslima, að íslam verði ráðandi trúarbrögð um allan heim, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og annars staðar, þar sem hinir vantrúuðu hafa hrifsað til sín ríki og landsvæði, sem Allah hafi gefið múslimum. Ísland er þar varla undanskilið.

peace

 

[1] Benn, Harel, Grinberg og Stern: "Islamic Jihad: We are firing rockets in bid to sabotage Gaza truce," Haaretz , 27. des. 2006, http://www.haaretz.com/hasen/spages/806084.html

[2] Sjá t.d.: "Group Profile: Palestinian Islamic Jihad," MIPT Terrorism Knowledge Database, Nov. 7, 2006, http://www.tkb.org/Group.jsp?groupID=82.

[3] Sjá t.d. Keinon og Katz:  "Exclusive: Hizbullah paying terrorists for Kassam attacks," The Jerusalem Post , 28. des, 2006, http://www.jpost.com/servlet/Satellite?cid=1164881992801&pagename=JPost%2FJPArticle%2FShowFull

[4] Sjá t.d.: "Katyusha rocket 'fired from Gaza,'" BBC News , 28. mars, 2006,
http://news.bbc.co.uk/2/hi/middle_east/4855056.stm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband