Af spjöldum sögunnar: Grikkland hið forna IV

map5Aþena

   Borgríkið Aþena mun hafa verið stofnað með varnarbandalagi jónískra ættkvísla á Attíku gegn framrás Dóra.

Fyrst um sinn ríkti konungsstjórn í borginni, en þegar höfðingjaveldið efldist færðist valdið á hendur þremur ríkisstjórum, svokölluðum arkontum. Sá æðsti þeirra, arkont basileus, var bæði konungur og æðsti prestur, arkont polemark var stjórnandi hersins og arkont poliarkos var einskonar borgarstjóri. Sex dómarar störfuðu við hlið þeirra og sinntu löggæslustörfum.




Borgaraþing Aþeninga lýsti þó frekar vilja höfðingjaættanna en almennings (demos), sem sótti einkum fundina til að játa eða neita einhverju, sem höfðingjarnir höfðu ákveðið sín á milli. En í Aþenu, á sama hátt og í Róm síðar, voru nær stöðug átök milli almúgans og höfðingjanna.

   


Þróun borgríkis í Aþenu varð dálítið öðruvísi en víðast hvar annars staðar, þar sem íbúunum var skipt niður eftir efnahag, en ekki ættartengslum eða bræðralögum. Varð þá til vísir að stéttaskiptingu, þar sem auðmenn voru í fyrsta flokki, hefðbundnir kaupsýslumenn í öðrum flokki, en daglaunamenn og bændur í þeim þriðja.


Þriðja stéttin var réttlítil og var það mjög algengt, að þegnar hennar væru hnepptir í skuldaþrældóm. Ástæðurnar voru einkum þær, að þá gilti í Aþenu ströng hefðarlög, kennd við hinn illskeytta Drakón. Kröfur almennings voru þær, að lögin yrði lagfærð og færð í letur, svo dómar yrðu ekki háðir duttlungum dómendanna, að landeignum gráðugustu höfðingjanna yrði skipt upp og að fólk yrði ekki skuldaþrælkað, en lengi vel voru þrælar ríflega helmingur íbúa Aþenu.


Á sjöundu öld áttu sér stað harðvítug stéttastríð víða um Grikkland, svo höfðingjarnir í Aþenu ákveðu að gefa eftir til að forðast borgarastríð. Kom þá til sögunnar stjórnvitringurinn Sólon, sem kjörinn var argont í Aþenu 594 sérstaklega í því skyni, að koma á stjórnarfars- og lagalegum endurbótum.

Sólon lét skila veðsettum jörðum og fella niður skuldir fátæklinga. Hann lét einnig takmarka eignir einstaklinga og banna það, að eignir eða persónur manna væru settar að veði fyrir lánum. Einnig útdeildi hann upptækum jörðum til öreiganna. Á móti styrkti hann vald auðmannanna, sem misst höfðu eignir aftur til fyrri eigenda, með því að takmarka kosningarétt við efnahag. Fyrirkomulag þetta kallast tímókratí, eða auðræði. Sólon bætti svo við fjórðu stéttinni, daglaunamönnum (þetes), sem fengu að tilnefna einn fjórða fulltrúa á borgarþingunum. Sólon hratt einnig af stað efnahagsumbótum, lét stöðva útflutning á korni frá Attíku, en efla framleiðslu og útflutning á ólívuolíu. Efldust þá smábændur, handverksmenn og kaupsýslumenn á kostnað stóru landeigendanna, sem áður höfðu selt korn sitt dýru verði til útlanda.  


 





Konur í Aþenu

 
  
Staða kvenna var almennt slæm í Aþenu, þó varla hafi hún verið neitt skárri í öðrum ríkjum heimsins. Hlutverk þeirra var fyrst og fremst að annast þarfir karlanna, hvort sem í hlut ættu eiginkonur, gleðikonur eða vændiskonur. Eiginkonur sinntu heimilisstörfum og léttum iðnaði, nema yfirstéttarkonur, sem voru nánast lokaðir inni í höllum manna sinna og nutu nær aðeins samvista barna sinna og ambátta.


Stúlkur, sem ekki voru bornar út við fæðingu, voru giftar mjög ungar, þó sennilega ekki yngri en tólf ára. Kvæntust þær yfirleitt frændum eða sérstakum venslamönnum, til að heimanmundur þeirra gengi ekki úr ættinni. Frjálsir menn giftu sig sjaldnast fyrr en um þrítugt, þegar árum hermennsku og annarra ævintýra var lokið. Einnig voru karlar mun fjölmennari en konur.




Sökum samfélagsskipuninnar var því ríflegur markaður fyrir gleðikonur (heterur), þær sem skemmtu körlum í sérstökum gleðihúsum, svo sem með dansi, hljóðfæraslætti, samdrykkju og samræðum um lífið og tilveruna. Stúlkur, sem ekki fundu sér eiginmann, svo sem vegna fátæktar, leituðu oft inn á þessi mið og nutu gjarnan leiðsagnar eldri gleðikvenna. Þekktasti gleðikvennaskólinn var á eynni Lesbos, undir stjórn skáldkonunnar Saffó, sem lifað hefur í ástarljóðum sínum til stúlknanna og harmi þeim, sem hún fann, þegar þær voru mönnum gefnar eða héldu á braut. En sökum ástar þeirrar, sem hún bar til stúlknanna, hefur orðið lesbía verið dregið af nafni eynnar. Það var ekki til minnka eftirspurnina eftir gleði- og vændiskonum, að til þess var hreinlega ætlast, að frjálsir karlmenn væru við fleiri en eina fjölina felldir. Hinar eiginlegu vændiskonur voru flestar af fátæku fólki komnar eða þrælar, oft í eigu sérstakra vændishúsa, sem flest voru í hafnarborginni Píreus, sem bæði þjónaði Aþeningum og erlendum viðskiptamönnum þeirra með þessari iðju.



 
Í heildina helgaðist staða kvenna í Aþenu af því, að hlutverk þeirra var fyrst og fremast að þjóna körlunum, bæði sem eiginkonur eða með öðrum hætti. Stjórnskipun í Aþenu, jafnvel á lýðræðistímanum, gerði ekki ráð fyrir mikilli þátttöku kvenna í þjóðlífinu. Þeirra hlutverk væri að sinna heimilinu, ala upp börn eða þjóna körlum með líkama sínum. Þær máttu ekki eiga eignir, nema örfáa persónulega muni, heimanmundur hennar rann í bú makans, og þurftu þær jafnvel að hlýða sonum sínum á unglingsaldri. Niðurlæging þeirra var algjör í þessari háborg lýðræðis og mannréttinda, rétt eins og í flestum öðrum borgríkjum Grikkja.   



Lýðræði í Aþenu



Aþena varð fljótt eitt helsta viðskiptaveldi hins siðmenntaða heims og jókst auður Aþeninga með hverju árinu. En til að tryggja stöðu sína þurftu þeir hráefni, og til þess var nýlendumyndun nauðsynleg. Fyrsta Pelopsskagastríðið stóð í raun um hið frjósama eyland Salamis, sem Aþeningar hertóku til að tryggja sér opna leið til sjávar. Foringi Aþeninga í þessum átökum var Peisistratos, sem kjörinn hafði verið polemark í skjóli Sólons frænda síns.


Peisistratos gjörðist síðan einvaldur í Aþenu 560 fyrir tilstilli lægri stéttanna. Hann taldi það nauðsynlegast, að bæta kjör alþýðunnar og gekk þarmeð á skjön við hagsmuni höfðingjanna, en hann rak jafnvel nokkrar ættir þeirra úr borginni og skipti eignum þeirra meðal fátæklinga. Hann ríkti þó ekki lengi í fyrstu atrennu, því eftir deilumál var hann sendur í útlegð, en kallaður til baka, þegar óstjórn hafði komist á í borginni. Hann ríkti síðan sem einvaldur í Aþenu til dauðadags, 528. Tóku þá synir hans tveir, Hippark og Hippías, við völdum í borginni. Sá fyrrnefndi var veginn 514 og herti þá Hippías stjórnartökin, svo raunveruleg harðstjórn komst á.


Hann hélst þó ekki á valdi sínu og var hrakinn í útlegð 510. Náði þá Kleisþenes, höfðingi af ætt Alkmeónída, sem hafði verið vísað úr borginni að undirlagi Peisistratosar, völdum með stuðningi Spartverja og véfréttarinnar í Delfí. Hann var opinberlega fulltrúi höfðingja og aðalsmanna, en þegar á reyndi studdi hann málstað alþýðunnar og færði stjórnarfar Aþenu smám saman í átt til lýðræðis, demokrati.


Undir stjórn Kleisþenesar komst á fulltrúastjórn í Aþenu, þar sem fimm hundruð manna þing var kosið í frjálsum kosningum. Hann skipti borgum, bæjum og sveitum niður í kjördæmi, þar sem borgarar voru flokkaðir eftir búsetu, en hvorki eignum né ættum. Mörg sérréttindi aðalsins voru nú afnumin og styrkti vald þjóðfundanna. Einnig kom hann á fót svokölluðum „skeljadómum” eða ostrakisma, sem fólst í því, að með einskonar þjóðaratkvæðagreiðslu gátu Aþeningar sent óæskilega stjórnmálamenn í 10 ára útlegð, þó án eignamissis. Hugmyndin var sú, að geta með þessum hætti vísað í burtu íhaldssömum höfðingjum, en í reynd var þessu photo_lg_athensvopni beitt gegn „stjórnarandstöðunni”. Sjálfur Kleisþenes var rekinn í útlegð 508 með þessum hætti, en almenningur mótmælti og var hann þá færður heim að nýju.



Aþeningar höfðu hvorki konung né forseta, ríkisstjórn né ráðuneyti. En þeir ráku öflugt lýðræði, með beinni þátttöku þegnanna. Til samanburðar má nefna, að nútímalýðræði er yfirleitt svokallað fulltrúalýðræði, þar sem lýðurinn kýs fulltrúa, sem síðan taka þátt í stjórn ríkisins. En í Aþenu hafði allur þorri borgaranna tök á að hafa bein áhrif á stjórnun borgarinnar. Auk Kleisþenesar var Períkles, sem ríkti á lýðræðislegan hátt í Aþenu frá 462 til 429 f. Kr., talinn höfundur hins aþenska lýðræðis. Þessir tveir menn voru þó varla ókunnugir, því Períkles var dóttursonur Kleisþenesar. Períkles var sennilega einn besti stjórnandi fornaldar, maður sem hreif fjöldann með sér og naut trausts allra stétta. Þegar hann talaði á borgarafundum, hlustuðu menn í hrifningu, rétt eins og guðirnir hefðu sjálfir stigið til jarðar.



Embættismenn Períklesar voru kosnir með hlutkesti til eins árs í senn, yfirleitt úr hópi valinkunna almúgamanna. Jafnframt nam hann úr gildi pólítísk völd areópagus dómsins og færði þau til borgarafundanna. Períkles byggði vald sitt á atkvæðum lýðsins, einkum þeirra fátækustu, og til að tryggja kjörsókn þeirra, setti hann lög þess efnis, að kjósendur fengju daglaun fyrir að neyta atkvæðisréttar síns. Höfðingarnir glötuðu því hinu forna valdi sínu í hendur almúgans, sem fylgdi Períklesi í blindri lotningu. Tíund þingsins hafði hverju sinni með daglega stjórn Aþenu að gera og náði valdatími hvers hóps þeirra yfir einn tíunda ársins. Allar lagabreytingar varð hins vegar að bera undir og fá samþykki borgaraþinga, en dómsvaldið var í höndum borgaradómstólsins, sem kosinn var með sama hætti og þingið. Vald aðalsins fólst nú helst í stöðum níu arkonta, en aðeins vel efnaðir menn komu þar til greina, þar eð stöðurnar voru ólaunaðar



Frá tímum Peisistratosar báru Aþeningar í brjósti stórveldisþrá, sem fólst í því að sameina sundraða Grikki og ná tökum á hernaðarlega mikilvægum svæðum, einkum Hellusundi. Litla-Asía var þá á valdi Persa, sem gert höfðu jónísku smáríkin að skattlöndum sínum. Því hlutu þessi tvö ríki, Aþena og Persaveldi, að rekast á með einhverjum hætti.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband